Hvers vegna var hann kallaður Jói dús ?

Í gegnum tíðina hefur maður heyrt og séð margt á endalausum þvælingi um landið. Eitt af þvi var það, að um miðja síðustu öld hlaut ungur maður að nafni Jóhannes viðurnefnið "dús" vegna þess, að sem barn gekk hann óvenju lengi með snuð í munninum og var ákaflega erfitt að venja hann af því.

Snuð var ein af þessum uppfinningum manna til að búa til eftirlíkingu af náttúrulegum hlutum, en á öld tækniframfara var allt slíkt talið af hinu góða.

Því fyrr sem barnið var tekið af brjósti, gat farið að drekka gerilsneydda kúamjólk og fengið sér snuð, því betra. Og því fyrr sem hægt var að taka snuðið af barninu, því betra, þótt beita yrði það hörku.  

Nú kemur í ljós í þessu eins og mörgu öðru að gamla lagið í takt við náttúruna best, ekki hið nýja og tæknilega. 

Og athyglisvert er hve margar af vísindalegum uppgötvunum okkar tíma fela það í sér, að manninum líði þrátt fyrir allt best þegar hann er í sem svipuðustu umhverfi og þróaði hæfileika og hraustleika formæðra okkar og forfeðra langt aftur í aldir, en ekki í veröld tilbúnings og eftirlíkinga.  

Þegar lesið er um þá uppgötvun að best sé að börn séu sem lengst á brjósti, jafnvel allt að fjögurra ára aldri, leitar hugurinn til Jóa dús. 

Kannski var það eðlisávísun hans sem barns sem knúði hann til þess eftir að hafa verið sviptur móðurmjólkinni að leita eins lengi og hann gat til þess sem best hafði reynst um aldir í stað hinnar stöðluðu og geldu aðferðar sem þá var lenska.

Hann gat hins vegar ekki sótt til hins upprunalega heldur varð að láta sér snuðið nægja eins lengi og hann fékk að komast upp með það.  

Eðlisávísun Jóa dús hafði sennilega rétt fyrir sér en ekki tæknifíkn hinna fullorðnu.    


mbl.is Hrósa ætti konum fyrir brjóstagjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnismerki um olíuöldina.

Fyrirhugaður kílómetra hár turn í Sádi-Arabíu verður táknrænt minnismerki á hárréttum stað um öldina, sem við lifum á og mun fá heitið olíuöldin þegar fram líða stundir.

Í línuritum um orkunotkun heimsins og notkun olíunnar frá því að hún kom til sögunnar þar til að hún verður uppurin, er línan sem táknar orkunotkunina svipuð í laginu og turninn mikli.

Sádi-Arabía og fólkið sem þar býr verður einnig táknrænt fyrir skammsýni og græðgi núlidandi jarðarbúa, þar sem lykilaðstaða á olíumarkaði hefur skapað jarðveg fyrir stjórnendur sem geta komist upp með nánast hvað sem þeim sýnist í mannréttindabrotum og forneskju auk bruðls og munaðar, en halda þegnunum niðri með því dæla olíuauðnum hæfilega mikið út á meðal þeirra.

Það er raunar gamalkunnug stefna, sem rómversku keisararnir beittu undir heitinu "brauð og leikir". Hér heima kallast það að gefa þeim sem ferðinni ráða færi á "að græða á daginn og grilla á kvöldin".

Sádi-Arabar hafa verið slungnir við að koma sér í mjúkinn hjá mesta herveldi heims og staða þeirra er svo sterk, að þeir áttu ef til vill einna stærstan utanaðkomandi þátt í því að fella Sovétríkin á níunda áratugnum með því að auka framboð á olíu hæfilega mikið til að verðlækkun á heimsmarkaði bitnaði á gjaldeyristekjum Sovétríkjanna.  


mbl.is Kílómetrahár turn í Sádi-Arabíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er bílskúrinn jafn "óæskilegt" fyrirbæri og bíllinn ?

Hið ágæta mál þétting byggðar, sem auðvelt er að sinna á nokkrum svæðum í kringum þungamiðju íbúabyggðar höfuðborgarsvæðisins, sem er austast í Fossvogi, er að taka á sig sérkennilegar myndir.  

Ég ætlaði að stinga niður penna um daginn varðandi þá starfsemi sem fer fram á Reykjavíkurflugvelli og snertir þúsundir manna. Meðal annars í Fluggörðum, sem er nokkurs konar bílskýlahverfi grasrótarflugsins, flugnáms og flugstarfsemi.

Ég ætlaði að minnast á það í hálfkæringi að bílskúrar landsmanna tækju mikið rými og að þess vegna gæti mönnum dottið í hug að útrýma þeim og reisa íbúðabyggðir í staðinn.

Ekki óraði mig fyrir því að svona hugmyndir væru í raun að komast til framkvæmda og allra á vegum fólks, sem margt hefur reynslu af því að ýmislegt fleira fer fram í bílskúrum en að þeir séu einföld geymsla fyrir bíla.

Hve margir tónlistarmenn hafa til dæmis komið undir sig fótunum og hafið feril sinn í svonefndum "bílskúrshljómsveitum"?

Hefur verið gerð könnun á menningarhlutverki bílskúra landsins?  

Hve margir hafa ekki verið að dunda sér við alls kyns nytsamleg hugðarefni í bílskúrum?  

Hjá fjölmennum fjölskyldum eins og var hér um árið hjá mér, var aldrei bíll í bílskúrnum hjá okkur, því að hann var nauðsynleg geymsla og staður til að sinna hugðarefnum okkar.

Eitt barna minna sem er með stóra fjölskyldu, var að flytja í nýtt húsnæði og bíllinn þeirra verður ekki inni í bílskúrnum því að skúrinn er strax orðin svipaður bílskúrnum, sem þessi dóttir mín kynntist þegar hún var ung.

Bílskúr annarrar dóttur minnar er vinnustaður tengdasonar míns, og það er hreint menningarefni sem streymir þaðan út, ef menn vilja endilega skipta vinnu fólks í "æðri" og "óæðri" starfsemi.  

Fyrst hálfkæringur minn er að verða að veruleika vestur í bæ get ég bætt öðrum hálfkæringi við:

Til að þétta byggð verði sett lög, sem banna fólki að taka undir sig meira rými í íbúð en til dæmis 30 fermetra á mann.

Þetta myndi sjálfkrafa þétta byggð meira á örskömmum tíma en nokkur önnur hugsanleg aðgerð.

Og þessi hálfkæringur minn verður kannski að byrja að verða að veruleika áður en árið er liðið? Hver veit?

Bílskúrarnir í Vesturbænum eru lítið nær þungamiðju íbúðabyggðar höfuðborgarsvæðisins en golfvellirnir tveir, sem taka jafnmikið rými og flugvöllurinn.

Verður það næsta verkefni að reisa byggð á golfvöllunum?  Aldrei að vita, - eða hvað?  

 


mbl.is Ráðist á rótgróið hverfi Vesturbæjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danskir Íslandsvinir.

Í sjálfstæðisbaráttu okkar fyrr á tíð var það hluti af því að blása mönnum baráttuanda í hug að láta ýmislegt flakka í hita leiksins, sem hallaði mjög á Dani. Alhæfingar af slíku tagi geta verið varasamar.

Þannig var það danskur maður, Rasmus Kristján Rask, sem öðrum fremur stóð að því að bjarga íslenskri tungu frá því að fara hallloka fyrir dönsku eða öðrum útlendum málum.

Þótt Rask hefði frumkvæði að þessu var ekki ónýtt fyrir hann að fá Fjölnismenn og Jón Sigurðsson með í baráttusveitina, og var með ólíkindum hvað Jónas Hallgrímsson afkastaði í nýyrðasmíði og snilldartökum á móðurmálinu sem jók veg þess mjög.

Breskur maður gekkst fyrir því að íslenska hundakyninu yrði bjargað frá útrýmingu.

Danskir Íslandsvinir áttu mjög stóran þátt í því að Danir féllust á að íslensku handritin yrðu flutt til Íslands, en sá gerningur á sér enga hliðstæðu í samskiptum þjóða, þvi að bæði Danir og Íslendingar töldu handritin vera mestu gersemar sínar.  

Og líklega er það einsdæmi að "herraþjóð" eða nýlenduveldi haldi helstu sjálfstæðishetju ígildi nýlendu uppi fjárhagslega, en Jón Sigurðsson starfaði í Kaupmannahöfn fyrir danska ríkið, og var reyndar ómetanlegur fyrir danska og norræna menningu vegna þekkingar sinnar á því sviði.

Þegar rýnt er aftur í aldir ófrelsis íslensku þjóðarinnar sést að á þeim öldum gat engin örþjóð á borð við okkur verið sjálfstætt ríki, - einvaldskonungar eða valdamiklir aðalsmenn réðu Evrópu.

Spurningin er einungis sú, hvaða þjóð í Norður-Evrópu réðu Íslandi, og ef Bretar eða öflug þjóð á meginlandinu önnur en Danir hefðu ráðið yfir okkur, væri áreiðanlega ekki tölu hér íslenska og ekki einu sinni víst að við hefðum öðlast sjálfstæði.

Rannsóknir sýna, að hvergi í Evrópu réði einvaldskonungur eins litlu og á Íslandi, þannig að Danir voru greinilega skásti kosturinn.

Á Íslandi réðu stórbændur og embættismenn í raun öllu sem þeir vildu og áttu meir en 90% allra jarðeigna á Íslandi.

Þeir voru ígildi íslensks aðals með svipuð réttindi og danski aðallinn varðandi frítt nám fyrir syni aðalsmanna í Kaupmannahöfn en hins vegar enga herskyldu íslensku sonanna eins og þeirra dönsku.

Stundum var það hæstiréttur í Kaupmannahöfn sem kom í veg fyrir dómsmorð eða sektardóma sem spillt íslenskt dómskerfi ól af sér.   


mbl.is Verðlaun Jóns Sigurðssonar veitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband