Ísland, viðundur á vesturlöndum.

Yfir aðalfundi Landverndar í dag grúfðu óverðurský í umhverfis- og náttúruverndarmálum, sem hrannast upp á himininn, ekki aðeins vegna nýrrar stórsóknar í hernaðinum gegn landinu í formi stórfjölgunar virkjunarhugmynda, heldur einnig á flestum öðrum sviðum í þessum málaflokki. Dæmi:

Íslendingar undirrituðu Ríó-sáttmálann 1992. Sem dæmi um höfuðáherslurnar í sáttmálanum voru sjálfbær þróun (þ.e. að stunda ekki rányrkju), varúðarreglan gagnvart náttúrunni (að náttúran njóti ávallt vafans, ef einhver er) og verndun mikilsverðra vistkerfa og landslagsheilda.

Undirritun Íslendinga hefur ekki reynst pappírsins virði. Við bæjardyr höfuðborgar Íslands er stunduð rányrkja á jarðvarmaorku og varúðarreglan, sem snýr að því að náttúran njóti vafans, var túlkuð öfugt þ. e. virkjununum í vil. Fullyrðingar virkjanaaðila um lausnir varðandi loftmengun stóðust ekki.

Núverandi valdaöfl reyna fyrir hvern mun að koma varúðarreglunni út úr nýjum náttúruverndarlögum.

Stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs, sem inniheldur ákvæði um sjálfbæra þróun, hefur verið vikið til hliðar, þrátt fyrir eindregna niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu, frumvarpínu í vil.   

Evrópuþjóðir staðfestu svonefndan Árósasáttmála um síðustu aldamót, nema Íslendingar.

Síðan dröttuðumst við til þess að lögfesta sáttmálann, en í Gálgahraunsmálinu hefur komið í ljós, að höfuðatriði sáttmálans, um lögaðild náttúruverndarsamtaka með fleiri en 30 félagsmenn að ákvörðunum, sem snerta umhverfi og náttúru, er túlkuð ógild hér á landi.

Dómskerfið, frá héraðsdómurum til Hæstaréttar, snýr þessu öllu á haus.

Afleiðingar úrskurða dómskerfisins í Gálgahraunsmálinu eru þær, að Vegagerðin og aðrir sambærilegir aðilar geta vaðið af stað í framkvæmdir, án þess að hafa gild leyfi, svo sem framkvæmdaleyfi eða mat á umhverfisáhrifum og notfært sér þá viðundurs sérstöðu að Árósasáttmálinn sé einski virði hér á landi, þannig að almannasamtök þúsunda fólks, sem á hagsmuna að gæta varðandi útivist, ferðamennsku og umgengni við náttúruna eru afgreidd út af borðinu og réttur þeirra einskis metinn.  

Nú virðist komin upp sú staða að í öllu valdakerfi Íslands, hjá löggjafarvaldinu, framkvæmdavaldinu og dómsvaldinu ríkir fyrirlitning á umhverfisverndar- og náttúruverndarfólki á sama tíma sem vilji er til að gefa hvers konar framkvæmdaaðilum veiðleyfi á landið og einstæða náttúru þess.

Þrátt fyrir þær ógnanir, sem nú hrannast upp í náttúruverndarmálum, ríkti mjög gefandi baráttuandi á aðalfundinum í dag. Maður kom endurnærður heim af því að ekkert er eins gefandi og sannfæringarkraftur og baráttuvilji hugsjónafólks.     

 


mbl.is Ísland krepptur hnefi um posa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Órofa samstaða er forsenda árangurs.

Samvinna og samtakamáttur útivistarsamtaka og náttúruverndarsamtaka er fagnaðarefni. Með því er útvíkkaður sá vettvangur sem skapast hefur undanfarin ár með samvinnu umhverfis- og náttúruverndarsamta landsins, sem meðal annars skilaði af sér vandaðri vinnu 13 samtaka við að gera athugasemdir við meira en 60 virkjanakosti í rammaáætlun 2011.

Nú skellur á bylgja virkjanahugmynda sem krafist er að verði framkvæmdar með ómældu og óafturkræfu tjóni fyrir þau einstæðu heimsverðmæti sem íslensk náttúra, einkum á hinum eldvirka hluta Íslands, býr yfir.

Þar með eru nýju virkjanirnar orðnar meira en 90, í viðbót við þær 30 stóru virkjanir, sem þegar eru í landinu, eða alls meira en 120 stórar virkjanir um landið þvert og endilangt, frá ystu útnesjum inn í hjarta landsins, víðerni miðhálendisins.

Flutt eru nær daglega tíðindi af fjölda erlendra fyrirtækja sem falla undir trúboðið um dýrð "orkufreks iðnaðar" sem vilja bætast við þá tröllauknu stóriðju, sem lýst hefur verið yfir að sé "einhuga vilji" núverandi valdhafa að rísi í Helguvík.

Laxárdeilan 1970 kenndi náttúruverndarfólki í Þingeyjarsýslu þá grimmilegu lexíu, að valdið sem býr yfir stórvirkum vélum og sprengiefni, varð ekki stöðvað nema með dínamiti og órofa samstöðu andófsfólksins.

Órofa samtakamáttur þeirra sem vilja andæfa "hernaðinum gegn landinu" er grunnforsenda þess að einhver árangur náist.

Þess vegna er samstöðuyfirlýsing útivistarsamtakanna og náttúruverndarfólks gott veganesti inn í aðalfund Landverndar, sem verður haldinn í húsakynnum Ferðafélags Íslands nú eftir hádegið.  

 


Þetta er alvöru árangur.

Sjöunda sæti á heimsvísu er sæmilegur árangur í hvaða íþróttagrein sem er.

Einhverjum kanna að láta sér fátt um finnast gagnvart "lítt þekktri" grein, en risahöll í London, troðfull af fólki, sem viðstatt var þegar Gunnar Nelson hlaut verðlaun fyrir bestu frammistöðu kvöldsins, segir okkur, að hann er að keppa í alvöru íþróttagrein og sé að ná alvöru árangri.


mbl.is Gunnar Nelson meðal 10 bestu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband