Nígería, - Ísland - nýlendustefnan lifir.

Nígería býr yfir stærsta hagkerfi Afríku, rétt er það, en enda þótt landið sé ekki lengur nýlenda, er stundað þar svipað arðán af hendi erlendra auðhringa og stundað var á nýlendutímanum. Það eina sem hefur breyst er að stað ríkisvalds í ríkustu löndum heims, sem stundar arðránið beint, eru komin risavaxin auðfyrirtæki og auðhringar sem gera það.  

Fyrir nokkrum árum sá ég áhrifamikið myndband um hið raunverulega ástand í Nígeríu, þessu landi mikilla orkuauðlinda, sem ættu að geta fært landsbúum öllum betri kjör en í flestum öðrum Afríkuríkjum. Í staðinn lifir þorri þjóðarinnar við mikla fátækt og skort.

Erlendir auðhringar hafa stundað þar nýlendustefnu, sem er fróðleg fyrir okkur Íslendinga.

Hún felst í því sama og við Íslendingar höfum gert að trúaratriði þess eina sem geti "bjargað þjóðinni" eins og varaformaður Sjálfstæðisflokksins sagði á sínum tíma að Siv Friðleifsdóttir hefði gert með því að leyfa mestu mögulegu óafturkræfu umhverfisspjöll á Íslandi.

Þetta eina, sem þá og síðar hefur verið talið geta "bjargað þjóðinni", er þar sama og hefur verið gert í Nígeríu og öðrum fátækum löndum, erlend fjárfesting auðhringa, sem byggist á því að þeir kaupi af okkur orku fyrir slikk með ómældu umhverfistjóni, eigi framleiðslufyrirtækin og flytji ágóðann úr landi.

"Frumbyggjar" fá náðarsamlegast tiltölulega fá störf í kringum þetta og selja orkuna fyrir óviðunandi arð, sem í raun er arðrán, þótt mesta arðránið felist í því að langmestur hluti heildarafrakstursins, flyst úr landi.

Í Nígeríu lifir um 1% þjóðarinnar í miklum vellystingum en 99% er fátækt fólk og stærsti hluti þess örfátækt fólk.

Þess vegna gat snjöll bandarísk kona keypt hér um árið íslenska skreið, flutt hana til Bandaríkjanna, verkað hana þar og sett í góðar umbúðir og selt hana ríka fólkingu í Nígeriu á 100 sinnum hærra verði á stórum markaði, því að 1% Nígeríubúa var þá ein milljón manna en er nú nær tveimur milljónum.

Með hinu dæmalausa ákalli íslenskra stjórnvalda 1995 til auðhringa heimsins, um að bjóða þeim "lægsta orkuverð í  heimi" settu þeir Íslendinga á bekk með vanþróuðu þjóðum heims og í samkeppni við þær um orkusölu.

Þótt Íslendingar búi við mun jafnari kjör en Nígeríubúar og að hér ríki ekki hið skefjalausa misrétti og örbirgð, sem þorri Nígeríubúa býr við, er ömurlegt til þess að vita að við skulum hafa gengið á hönd ígildi nýlendustefnu, sem nú er rekin í krafti vestrænna auðhringa og risafyrirtækja og fljótlega einnig í krafti kínversks og rússnesks auðvalds.

  


mbl.is Nígería er stærsta hagkerfi Afríku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misvísandi fréttir. Blönduð orsök?

Misvísandi fréttir birtast þessa dagana af rannsókninni á hvarfi malasísku þotunnar, sem orðið er það sérstæðasta í sögu nútíma flugs farþegaþotna.

Fyrir tveimur dögum var sagt að búið væri að útiloka að einhver um borð í vélinni hefði "rænt" henni eð átt þátt í að hún hvarf, en núna birtist frétt sem talin gefa vísbendingu um að vélinni hafi fyrst eftir að hún hvarf verið flogið þannig í áttina suður á Indlandshaf, að hún væri utan við ratsjársvið Indónesíu.

Hvaða ályktun er hægt að draga af þessu? Kannski enga, og orsök hvarfsins þannig gersamlega óupplýst, eða að um misheppnað flugrán eða viljandi flugs vélarinnar utan ratsjársviðs hafi verið að ræða, eitthvað sem síðan fór úr böndunum eða skóp nýtt ástand í flugi vélarinnar.  


mbl.is Vélinni ekki flogið yfir Indónesíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðskuldaður og eftirminnilegur sigur.

Þegar Sara Pétursdóttir steig á sviðið í söngkeppni framhaldsskólanna í gærkvöldi átti maður ekki von á neinu sérstöku. Þarna stóð hún, alein og hreyfingarlaus á stóru sviðinu og á undan henni höfðu verið svo góð og vel útfærð atriði, að maður var búinn að ákveða, hverjum greidd yrði atkvæði.

Svo byrjaði hún að syngja, hófstillt og yfirlætislaus, og myndavélin nálgaðist hana í mestu rólegheitum.

Þetta var svo einfalt allt og látlaust, - engir stælar, aðeins örlitlar hreyfingar það litla, sem það var, og aðeins eitt myndklipp í öllu laginu, smekklegt og eðlilegt.

Og smám saman sogaðist maður inn í einfaldasta galdur allrar túlkunar, sem kalla má "áhrifin maður á mann", - að ekkert tekur fram því allra einfaldasta, einlægri, djúpri, hreinni og beinni túlkun.

Það eru lögmálin KISS, "keep it simple, stupid",  og "less is more."

Þegar hún lauk sínum yfirlætislausa söng játaði ég mig sigraðan mann af þessum eftirminnilegu töfrum fullkominnar túlkunar.

Til hamingju, Sara Pétursdóttir, og þið öll hin, framtíð Íslands, sem kepptuð í gærkvöldi, fyrir  eftirminnilegt sjónvarpskvöld, sem kom svo sannarlega á óvart.  

 


mbl.is Sara vann fyrir hönd Tækniskólans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband