Stökurnar stökkva fram.

Ummæli og stökur stökkva fram hjá ýmsum á þessum vordegi þegar fréttir af árangri 70 milljarða króna framlags vegna skuldavandamála heimilanna og af leyninefnd sem forsætisráðherra hefur skipað án vitneskju þingsins.

Framsóknarþingmenn hafa bent á það að stóri pakkinn opni ýmsa möguleika, til dæmis á því að konur geti nú látið lita á sér hárið, ýmist sjálfar eða á hárgreiðslustofum.

Sigurður Bogi Sævarsson segir í fésbókarathugasemd að eftirfarandi rím hafi dottið af vörum:

 

Konan litar lokkinn,

lipran, fagran, hrokkinn.

Stígur hún á stokkinn

og styður Framsóknarflokkinn.

 

Þegar ég sá þetta hraut eitthvað í þessa veru af vörum:

 

Gjafaféð notast af miklum móði,

í margs konar líkn rennur þessi gróði.

Þær setjast í leiðslu

í sælli hárgreiðslu

fyrir 70 milljarða´úr ríkissjóði.

 

Björn Valur Gíslason spyr hneykslaður í frétt á DV yfir skipun leynilegs starfshóps án vitundar Alþingis, hvort mönnum sé orðið andskotans sama. Í athugasemd við fréttina segist viðkomandi vera hissa.  

Þá koma upp í hugann þrjú rímorð í limru eftir Gísla Rúnar Jónsson af allt öðru tilefni fyrir mörgum árum og þar með sprettur fram þessi limra:

 

Nefndirnar fá mikinn frama

í feluleik, sem býr til drama, -   

á Alþingi dissa

en enginn er hissa

því öllum er andskotans sama.

 

 


mbl.is Fyrir fólk sem litar sjálft á sér hárið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fráleit, dýrkeypt og skaðleg tíska.

Allar gagnrýnisraddir karlmanna vegna kvenfatatískunnar verða hjáróma þegar kostnaður vegna hennar er borinn saman við bílatískuna, sem ég vil kalla nafninu "karlmannatíska í stáli". Land_Rover_Freelander_front_20080521[1]

Bílatískan er oft sérlega heimskuleg, dýrkeypt og jafnvel skaðleg.

Eitt dæmi þess er sú árátta að gera æ erfiðara fyrir bílstjórana að sjá út úr bílunum, svo að jafnvel sést nánast ekkert aftur úr bílnum.

Þetta er orðið svo mikil plága, að það er jafnvel farið að verða erfitt að sjá fram úr minnstu bílunum eins og þeim sem meðfylgjandi mynd er af. Kia_Picanto_(front_quarter)[1]

Engin skynsamleg skýring finnst á þessari tísku, enda er hún aðeins sveifla í eina átt eftir að tískan hafði árum saman verið sú að stækka gluggana, lækka vélarhlífarnar og bæta útsýnið.

Ég á einn bíl frá þessum tíma, árgerð 1988,  sem sýnir þetta vel, sjá mynd hér fyrir neðan og mynd af bíl sömu gerðar, árgerð 2000.  Daihatsu Cuore 00

Fyrsta grófa dæmið, sem ég sá um þetta var upphaflega gerðin af Land Rover Freelander.

Sá bíll var með alveg sértaklega hárri og kantaðri vélarhlíf, sem virtist eiga að gefa til kynna hvað þetta væri töff og karlmannlegt torfærutröll með svona hernaðarlegt útlit vegna þess hve aflmikil og stór vélin þyrfti mikið rými.

En þegar vélarhúsið var opnað, kom í ljós svo mikið óþarfa autt rými fyrir ofan vélina, að auðvelt hefði verið að koma þar fyrir varahjólbarða, jafnvel tveimur hjólbörðum.

Síðan hefur þetta bara versnað og nú er höfuðið bitið af skömminni með því að fara að pranga inn á bínotendur sérstökum myndavélum, svo að eitthvað sjáist fram fyrir bílinn. Daihatsu Cuore ´88


mbl.is Horft á veginn í gegnum vélarhlífina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóknarfæri og orðspor.

Hlutur Íslendinga í því að nýta vistvæna orku í þróunarlöndunum felur bæði í sér sóknarfæri fyrir okkur og færir okkur gott orðspor. Í fátækum og vanþróuðum löndum fela tiltölulega litlir hlutir í sér byltingu í kjörum fólksins, sem þarna býr, og einnig er þetta þáttur í að sporna gegn of hröðum og miklum breytingum á lofthjúpi jarðar.

Þrjú atriði verður samt að hafa í huga:

1. Segja verður sannleikann um það ef þessar jarðvarmavirkjanir fela í sér rányrkju eins og víðast er hér á landi og helst að forðast svo ágenga nýtingu.

Það á að vera hægt með góðri yfirsýn og gætni í nýtingunni að gera hana sjálfbæra ef á heildina er litið, en því miður skortir mikið á að þetta sé gert hér á landi. Þegar ég spurði um þetta atriði á ráðstefnu Isor í haust var mér svarað út í hött.

2.  Í öðru lagi ættum við að hafa í huga að í löndum eins og Kenía og Eþíópíu verða yfirleitt margfalt minni óafturkræf neikvæð umhverfisspjöll af virkjunum en á hinum eldvirka hluta Íslands, sem er eitt af helstu náttúruundrum veraldar.

3.  Í þriðja lagi er það ósiðlegt af okkur að selja okkar orku á svo lágu gjafverði til erlendra fyrirtækja, að við séum að keppa við örfátækar þjóðir og taka í raun frá þeim þá nýju lífsbjörg sem falist getur í nýtingu nýrrar lífsbjargar í löndum þeirra.


mbl.is Virkja í Kenía fyrir 12 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vafasamt að nota orðið gettó.

Það er vafasamt að nota orðið "gettó" um Oddeyrina á Akureyri eða þau hverfi í bæjarsamfélögum Íslands sem þykja hafa neikvæða ímynd á sér.

Til þess er munurinn á þessum hverfum og raunverulegum gettóum í erlendum borgum einfaldlega allt of mikill hvað varðar raunverulega örbirgð og neyð, sem ríkir í alvöru gettóum erlendis.

Og varla getur Oddeyrin náð þeim stimpli sem braggahverfin í Reykjavík, eins og Kamp Knox, Múlakampur, Laugarneskampur og Höfðaborgin fengu á sig á sínum tíma.

Ég á að minnsta kosti erfitt með að ímynda mér það.


mbl.is Eyrin er gettó Akureyrar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband