Formaðurinn snuprar eigin flokksmenn.

Meðal þeirra fyrstu sem lýstu sig andvíga málflutningi oddvita framboðslista Framsóknar í Reykjavík voru Sigrún Magnúsdóttir, formaður þingflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Hallur Magnússon.

Síðan bættust fleiri í hópinn, svo sem Ómar Stefánsson fyrrum oddviti flokksins í Kópavogi, og einnig sagði fjórði maður á B-listanum í Reykjaví sig strax frá framboðinu vegna ósættis við þennan málflutning.

Nú hefur formaður flokksins heldur betur tekið til hendi og rétt kúrsinn af með því að snupra i raun þetta samflokksfólk sitt með þvi að segja að umræðan sem það setti af stað hafi verið nýr lágpunktur og skikka það til að marséra i takt, eins og sagt var að flokkurinn hefði stundum gert á dögum Steingrims Hermannssonar án þess að hann þyrfti að tukta nokkurn mann til.  


mbl.is Umræðan um Framsókn nýr lágpunktur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir ferðamennirnir þurfa að halda að þeir hafi bara verið óheppnir.

Kannski verður þetta sumar likt sumrinu í fyrra og þar með ósköp líkt tugum sumra á fyrri áratugum, sem við erum búin að gleyma, því að flest sumrin eftir aldamótin síðustu voru afbrigðilega góð, einkum þau síðustu fyrir 2013.

Við Íslendingar höldum kannski að erlendu ferðamennirnir, sem hingað koma og lenda i rigningunni, af því að þeir voru fyrirfram búnir að bóka gistingar á ákveðnum dögum í stað þess að reyna sveigja ferðalagið eftir landshlutum, viti í sumarlok að sumarið hafi verið votviðrasamt og rakki landið niður, okkur til tjóns.

En það þarf ekki að vera þannig, því að þeir sjá aðeins veðrið hér í þá viku eða hálfan mánuð sem flestir dvelja hér og hafa þeir auðvitað ekki hugmynd um veðrið allar hinar vikurnar og mánuðina, nema því sé sérstaklega haldið að þeim.

Jafnvel á einstökum blíðviðrissumrum eins og voru 2010-2012 koma rigningarkaflar í öllum landshlutum.

Þeir ferðamenn, sem lentu í þeim, voru óheppnir og vissu það.

Þeir, sem lenda í svipuðu núna, taka því vafalaust á sama hátt sem óheppni nema hamast sé við að halda að þeim upplýsingum um úrkomu og vinda allt sumarið fram á haust.   


mbl.is Það er vott en mun það versna?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skeytingarleysið orðið að dyggð.

Fróðlegt er að lesa ýmis skrif á netinu þar sem lítið er gert úr viðfangsefnum í þjóðlífinu, sem varða meginatriði þess að sem flest fólk geti lifað bærilegu lífi.

Þegar Landsbankinn birti tölur um að húsnæðisvandinn væri jafnvel stærri hjá einstökum þjóðum í Evrópu en hjá okkur mátti sjá skrif í bloggpistlum um óþarfa væl vegna þeirra mála hér á landi.

Einnig mátti sjá skrifað, að þeir sem létu sig þau mál varða nánast gripu þau sem fagnaðarefni til þess að geta leitað eftir viðfangsefnum fyrir sig og sína sýn á þjóðmálin og sæu tækifæri fyrir sig í þeim til þess að hygla sumum á kostnað annarra, gera sér mat úr vandræðum þeirra.

Í augum þessara bloggskrifara virðist umhyggja fyrir högum þeirra samborgara, sem verst standa, vera löstur og tækifærismennska, en skeytingarleysið vera dyggð.

Þessi hópur bloggskrifara fjallar á svipaðan hátt um þá, sem vara við hröðum og háskalegum loftslagsbreytingum af mannavöldum og segja að menn eins og Al Gore og þeir vísindamenn sem fjalla um þau mál, geri það eingöngu af tækifærismennskku til að græða á því sjálfir.  

Einna lengst gengur þessi gagnrýni þegar sagt er að vítaverðar hugmyndir þess efnis að byggja upp Skeifuna eftir brunann á dögunum. Með þeirri uppbyggingu muni tjónþolar brunans og tjónið af honum verða nýtt til framkvæmda sem aðrir muni hagnast á.

Þessi gagnrýni er raunar í ósamræmi við þá gagnrýni á Jóhönnustjórnina að hún hafi sýnt vítavert sinnuleysi í því að byggja upp eftir Hrunið.  

Bloggskrifararnir segja að sé ekkert sé að marka málflutning Al Gore og vísindamanna af því að þeir græði á því að fjalla um loftslagsbreytingar og hafi atvinnu af rannsóknum og vísindastörfum.

Fólk, sem andæfir skefjalausri stóriðjustefnunni með tilheyrandi náttúruspjöllum, er kallað öfgafólk og  "atvinnumótmælendur" en hinir, sem vilja keyra áfram á annað hundrað virkjanakosti eru kallaðir hófsamir skynsemdarmenn.

Ekki kannast ég við að þeir 25 sem settir voru í steininn vegna Gálgahraunsmálsins hafi fengið krónu fyrir að standa daglega vakt í hrauninu í tæpan mánuð eða fyrir að mótmæla á öðrum vettvangi.

Hitt liggur fyrir að forstjórar fyrirtækjanna sem beitt er í þágu skammgróða og hernaðar gegn landinu eru hálaunamenn og fá sín háu laun fyrir að fylgja þessari stefnu sinni fram.

Aldrei eru þeir kallaðir "atvinnumeðmælendur". Það orð finnst ekki í orðaforðanum, sem notaður er, þar sem "stækkun friðlands" þýðir í raun virkjun inni í friðlandinu og "sjálfbær þrótun og endurnýjanleg og hrein orka" stærstu jarðvarmavirkjana þýðir í raun rányrkju sem tæmir auðlindina á nokkrum áratugum með mestu loftmengun frá nokkru fyrirtæki á Íslandi.

Rétt er að geta þess, að stundum er línan á milli mannúðar og forsjárhyggju óljós og sömuleiðis milli umhyggju og afskiptasemi og ævinlega skal hafa varann á í þeim efnum.

En fyrrnefnd gagnrýni á það að fólk með ákveðnar stjórnmálaskoðanir fagni tækifærum til að færa sér í nyt neyð annarra er ósanngjörn.

Samkvæmt ofangreindum bloggskrifum má álykta, að til dæmis starfsemi Rauða krossins og starf heilbrigðisstétta sé af hinu vonda, af því að fólkið, sem vinni að þessum málum hagnist á því að neyðin sé sem allra mest og að það hafi þeim mun meira að gera sem sjúkdómar, hungur og örbirgð sé meiri .

 

 

 


mbl.is Þúsundir í húsnæðisvanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband