"Farið ekki langt!" "Ekki missa af !"

Oft hef ég skemmt mér yfir því þegar þessar skipanir hljómar í ljósvakamiðlum. Einver gaur fann þetta upp fyrir mörgum árum og síðan apa aðrir eftir.

Mér finnst fyrri skipunin hlægileg þegar ég er kannski nýlagður af stað í tímapressu í langferð og í útvarpinu er mér er allt í einu skipað að fara ekki langt. Ef eitthvað hvetur mig til að skipta um rás, þá er það þetta.

Í ljósvakamiðlum er hvimleið árátta til að hagræða sannleikanum, en aðall fjölmiðlunar á einmitt að vera að segja sannleikann.

Til dæmis þann sannleika að til þess að afla tekna fyrir útsendingunni þarf að vera með sem flestar og mestar auglýsingar. Þær eru oft ekki aðeins langdregnar heldur er æsingurinn svo mikill í leiknum auglýsingum að þær verða þreytandi. Þegar allt, sem auglýst er, er "frábært" og nánast hrópað á mann, hlýtur niðurstaðan að verða sú að ekkert er eftir annað en þetta frábæra.

Orðið frábært er eitt af þeim orðum sem hefur verið verðfellt hvað mest á Íslandi.

Síðan hef ég aldrei heyrt rétt sagt frá lengd auglýsinga í ljósvakamiðlum, heldur er því oft logið að þær taki "örskamma stund" og meira að segja ekki nefndar sínu rétta heiti, "auglýsingar", heldur "örstutt skilaboð" þegar í raun er um langa auglýsingarunu að ræða.   

Í ljósvakamiðlunum er sífelld árátta til að æra upp óþol í neytendunum með því að vera í tíma og ótíma með skipunina "ekki missa af". Ekki missa af þessu og ekki missa af hinu!

En lífið er nú einu sinni þannig að maður missir óhjákvæmilega af flestu sem á boðstólum er, - kemst ekki yfir nema mjög takmarkað og verður að sætta sig við það.

Amma mín upplifði til dæmis Kötlugosið 1918 í návígi og sagði mér frá því, en ég missti alveg af því.

Missti líka af því að vera á Þingvöllum við lýðveldisstofnuna 1944.  

  

  


Enn eitt dæmið um vanmat Íslendinga á náttúrufari landsins.

Í þúsund ár voru Íslendingar aldir upp við þá hugsun að eina fegurð og gildi íslenskrar náttúru fælist í "bleikum ökrum og slegnum túnum", en þannig hljóðar eina fegurðarjátning fornbókmenntanna.

Eldfjöll voru af hinu vonda og eitt þeirra meira var meira að segja fordyri helvítis. Jónas Hallgrímsson og fleiri góðskáld rómantísku stefnunnar reyndu að vísu að breyta sumu, en allt fram undir okkar daga hafa hraun, sandar, auðnir, öræfi, óveður, rigning og þoka verið ljót og af hinu vonda og þessi skoðun hefur meira að segja gengið svo langt að gamalreyndur maður á Austurlandi lýsti yfir því, að eina vonin til þess að lokka erlenda ferðamenn til Íslands fælist í Hallormsstaðaskógi. 

Ég minnist þess að það var mikil upplifun fyrir mig, þegar ég var strákur í sveit í Langadalnum, að kynnast þokunni, duttlungum hennar og dulúð nokkrar vikur sumarið 1951 að mig minnir, (gæti hafa verið 1952) þegar komu óvenju margir þokusælir dagar og þó einkum þokusæl kvöld.

Mér fannst það mjög heillandi, spennandi og rómantískt, þegar þokan byrjaði að lauma sér með hlíðum fram dalinn með hafgolunni síðdegis og verða smám saman lægri og lægri utan í hlíðunum og búa til nýtt landslag þangað til hún hafði fyllt dalinn og það var komin niðaþoka.  

Síðasta dæmið sem ég þekki var í ferð norður á Strandir í fyrra fyrir Ferðastiklur þegar þokan lék stórt hlutverk í öllu og setti mest strik í reikninginn hjá mér, sem var fljúgandi.

En útkoman í þáttunum, sem gerðir voru, varð svo sannarlega jákvæð, jók á ævintýrablæ þessara slóða og skapaði fjölbreytni.

Stórir hópar erlendra ferðamanna sækjast eftir óvenjulegri upplifun, og fyrir þá flest felst það í því sem ég nefndi áðan, eldfjöllum, jöklum, hraunum, söndum, urðum, öræfum, sjávarbjörgum, hverum, óveðri, rigningu og þoku.

Frægustu skógar okkar, bleikir akrar og slegin tún verða ekki efst þar á blaði, en gegna sínu hlutverki við að skapa einstæða fjölbreytni landsins.   

 

 

  


mbl.is Þokan heillar eins og norðurljósin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengishækkanir skapa líka vandamál.

Tvívegis á ferli íslensku krónunnar hefur gengi hennar hækkað og í bæði skiptin reyndust gengishækkanirnar varasamar.

Fyrri hækkunin var á þriðja áratugnum, sem í Bandaríkjunum var kallaður "the roaring twenties" af því að feiknarleg uppsveifla var í landinu með tilheyrandi þenslu, neysluaukningu, framkvæmdum og fjárfestingum og tengdri lánastarfsemi og síhækkandi hlutabréfaverði.

Ríkisstjórn Íhaldsflokksins á Íslandi lét þá hækka gengi krónunnar í bjartsýniskasti en sá ekki fyrir að lögmálið "what goes up must come down" myndi virka hastarlega í fjármálahruninu á Wall street haustið 1929.

Það jók mjög á vandann hjá okkur í kreppunni á fjórða áratugnum að sigla inn í hana með of hátt skráð gengi, sem bitnaði sérstaklega illa á eina útflutningsvegi okkar, sjávarútveginum.

Síðari gengishækkunarbólan var í aðdraganda Hrunsins 2008, þegar samtvinnaðar þensluráðstafanir ríkisstjórna Sjalla og Framsóknar skrúfuðu gengi krónunnar upp um 30-40% umfram það raungengi, sem gengið gæti til framtíðar.

Veturinn 2007 til 2008 byrjaði gengið óhjákvæmlega að falla með þeim afleiðingum sem við glímum enn við og þessar afleiðingar voru enn harkalegri en ella, vegna þess hve margir höfðu tekið óhóflega stór gengistryggð lán.

Í ljósi reynslunnar ætti að fara mjög varlega í að þoka genginu upp, bara til þess eins að auka neyslu og þenslu sem henni fylgir. Horfa verður lengra fram á tímann, raska ekki stöðugleika og veikja ekki grundvöll útflutningsgreinanna, sem efnahaglífið hvílir á.  


mbl.is Gengi krónu á uppleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband