"Hann rignir alltaf..."

Það hefur ekki bara húðrignt á Sunnlendinga og mun halda áfram að rigna á þá, heldur hefur verið og er mígandi rigning á Norðvesturlandi þar sem ég er staddur núna. 

Spá um minni rigningu og smáskúrir í staðinn fyrir daginn í dag stóðst ekki, nema á afmörkuðum svæðum fram að kaffi.

Þar með var sú von úti.

Í fyrra söng ég inn að gamni mínu lag, sem heitir "Hann rignir alltaf", en það var eins og við manninn mælt, að það stytti upp.

Nú er spáin hins vegar þannig, að ekki er von á uppstyttu og kannski rétt að draga lagið fram aftur eða annað í svipuðum dúr.

Textinn við lagið er eftir sjálfan William Shakerspeare í þýðingu Helga Hálfdanarsonar, en það er sungið sem lokalag í leikriti meistarans,  Þrettándakvöldi.

Í sýningu Herranætur 1959 gerði Halldór Haraldsson píanóleikari þá nemandi við skólann lag við textann, en þegar ég spurði hann út í það í fyrra mundi hann ekkert eftir því.

Ég mundi hins vegar eðlilega eftir laginu, því að ég söng þetta á sínum tíma í lok hverrar sýningar.

Ég gerði nýja útsetingu við lagið og bætti við það og lét Halldór heyra.

Niðurstaðan er sú að við Halldór erum báðir skráðir höfundar.

Svona er textinn:  

 

Rignir, rignir, rignir, rignir.

Ég var lítill angi með ærsl og fjör,

hæ, hopp, út í veður og vind,

og stundaði glens og strákapör

og hann rignir alltaf dag eftir dag.

 

Rignir, rignir, rignir, rignir.

 

Ég óx úr grasi ef einhver spyr,

hæ, hopp, út í veður og vind.

En klækjarefum er kastað á dyr

og hann rignir alltaf, rignir alltaf, rignir alltaf dag eftir dag.

 

Rignir, rignir, rignir, rignir.

 

Mér varð til gamans að gifta mig,

hæ, hopp, út í veður og vind.

Nú dugar lítið að derra sig

og hann rignir alltaf rignir alltaf, rignir alltaf dag eftir dag.

 

Rignir, rignir, rignir, rignir.  

 

Ég hátta prúður í hjónasæng,

hæ, hopp, út í veður og vind,

og brennivínsnefi bregð í væng,

og hann rignir alltaf, rignir alltaf,  rignir alltaf dag eftir dag.

 

Rignir, rignir, rignir, rignir.

 

Sem veröldin forðum fór á kreik,

hæ, hopp, út í veður og vind,

enn vöðum við reyk, senn er lokið leik

og hann rignir alltaf, rignir alltaf, rignir alltaf dag eftir dag,

og hann rignir alltaf, rignir alltaf, rignir alltaf   -

dag eftir dag!   


mbl.is Enn meiri rigning sunnanlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrelt tæki Sovétmanna voru ógn á tímabili.

Þegar Kalda stríðið stóð sem hæst og Bandaríkjamenn voru búnir að tölvuvæða vopnabúnað sinn hrukku þeir við þegar þeim barst njósn af því hjá Sovétmönnum væri enn notuð úrelt lampatækni.

Ástæða ótta Kananna var sú, að segulhögg af kjarnorkusprengjum Sovétmanna gæti slegið út öllum tæknibúnaði sem væri í nágrenni við þær ef þær spryngju, en lampatæki og annað úrelt hjá Sovétmönnum myndi hins vegar þola "magnetic pulse" eins og það heitir á erlendu máli.

Allt þjóðlíf okkar eru orðið svo háð tölvutækni og stafrænni tækni, að hættan á að eitthvað fari illa úrskeiðis vex í stað þess að minnka.

Afturhvarf frá þessari tækni í öryggisskyni kann því að vera réttlætanleg, eins og að hætta að nota tölvupóst og taka upp notkun gömlu góðu handvirku ritvélanna.   


mbl.is Taka ritvélar aftur í notkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvöfalt fleiri Renault 4 seldust en samt er Bragginn tákn Frakklands.

Tveir álíka stórir, einfaldir og ódýrir bílar voru framleiddir í Frakklandi fram að 1990, Citroen 2CV og Renault 4, "Fjarkinn".  

Framleiðsla Braggans hófst 1948 en Fjarkans 1961, þannig að Bragginn fékk 13 ára forskot. Samt voru framleiddir tvöfalt fleiri Fjarkar en Braggar, nánar tiltekið 8 milljónir.

Frá 1946 til 1961 var Renault 4CV mest seldi bíll Frakklands og fyrsti franski bíllinn sem framleiddur var í meira en milljón eintökum.  

Einkenni Braggans og Fjarkans var það að leitun var að bílum, sem útlitinu var minna breytt á margra áratuga ramleiðsluferli, gagnstætt Volkswagen Bjöllunni sem fór í margar gluggastækkanir og andlitslyftingar á sínum ferli og fékk meira að segja alveg nýja gerð framfjöðrunar á síðustu árum sínum.

Báðir frönsku bílarnir voru það sem kallað var "sætljótir."  

En hvers vegna er Bragginn svo samofin ímynd frönsku þjóðarinnar en Fjarkinn ekki?

Tvær ástæður má nefna:

1. Bragginn átti sér lengri forsögu og fékk 13 ára forskot til þess að verða öllum kunnur.

2. Hönnun hans og smíði var sérstaklega óvenjuleg, frumleg og hámark naumhyggjunnar.

Ég átti Fjarka í nokkur ár og naut hans í botn. Myndi gjarna vilja eiga slíkan aftur og Bragga með honum.     


mbl.is Fagna Bastilludegi með Citroën-bröggum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband