Það þarf talsvert til.

Í tvígang hafa Íslandsvinir frá Lichtenstein flogið þaðan til Íslands á lítilli fjögurra sæta þyrlu. Hvor flugferð um sig var krefjandi viðfangsefni, einkum áfanginn milli Færeyja og Hornafjarðar.

Það þarf talsvert til til að fara í svona ferð og það meira að segja í tvígang.

Allt er þetta vegna þess hve landið heillaði þá, og lýsa þeir því best sjálfir í viðtali á mbl.is. 

Ljósmyndaviðfangsefnin eru óþrjótandi og hrifningin stanslaus, ekki bara hjá þeim, heldur fjölmörgum öðrum útlendingum sem ég hef hitt eða átt samvinnu við undanfarin fjögur ár. 

Margir þeir, sem komu hingað vegna Eyjafjallajökulsgossins 201, komu aftur til landsins árin á eftir vegna þess að þeim fannst þeim aðeins hafa smakkað á smá mola af þeirri stóru landslagstertu, sem í boði var. 

Margt af þessu fólki er sjónvarpsfólk í dagskrárgerð hér eða kvikmyndagerðarmenn og ljósmyndarar í fremstu röð. 

Þetta fólk er besta landkynningin sem land okkar og þjóð geta notið. 


mbl.is „Það er þyrla í kartöflugarðinum!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var Lóa litla á Brú öll þar sem hún var séð ?

56 ár eru síðan Lóa litla á Brú varð öllum Íslendingum kunn. Þetta var upphaflega "feimin og rjóð og undirleit" sveitastelpa eins og segir í textanum. 

Hún gerir ekki miklar kröfur um hamingjuna í lífinu:

"Vildi fá sér vænan mann

og vera alltaf svo blíð og góð við hann." 

Í Ferðastikluferð okkar Láru varpaði hún fram áleitnum spurningum við morgunverðarborðið áðan um það hvernig bæri að skilja textann um Lóu og fyrr en varði vorum við komin á kaf í rannsóknarblaðamennsku, sem leiðir til þess að hugsanlega er hægt að upplýsa leyndarmál, sem hefur legið órannsakað í öll þessi ár.  

Því að þegar saga Lóu er rakin frekar í textanum við lagið, vakna áleitnar spurningar, og satt að segja skildi ég aldrei þennan texta almennilega á sínum tíma. 

Í textanum segir:

"Og síðan saga þeirra varð sögum margra lík.

Þau áttu börn og buru og þau búa´í Reykjavík. " 

Gott og vel. Þau urðu barnmörg og búa í Reykjavík þar sem lífsgæða- og peningakapphlaupið er einna mest á Íslandi. Og þá kemur allt í einu þessi makalausa lýsing á því hvernig þau gátu tekið þátt í þessu kapphlaupi;  lýsing á því hvernig þau gátu unnið fyrir nógum tekjum til að lifa flott: 

"Hann vinnur eins og hestur og hún hefur sjaldan frí,

því Lóa þarf að fá sér fötin ný."

Í fyrri línunni er puði hans lýst: "Hann vinnur eins og hestur..."

Þarf ekki að lýsa því frekar, vinnur mikla yfirvinnu. jafnvel á kvöldin og um helgar. 

En hvað er Lóa að puða, hvað er hún að gera á meðan, um helgar og á kvöldin, þegar maðurinn er ekki heima.

Og í hverju er það fólgið hjá Lóu, að hún hafi "sjaldan frí?"

Jú, hún þarf að "...fá sér fötin ný."

Halló. Hvers vegna?

Svarið kemur í framhaldinu í nokkrum samliggjandi ljóðlínum: 

"Lóa litla´á Brú er lagleg enn, 

og hýr á brá og heillar menn.

Ergir oft sinn eiginmann,

því hún er alltaf svo blíð við aðra´en hann."

Og þessi síðasta ljóðlína er sú síðasta í kvæðinu um þau hjón, Lóu og Svein og meira að segja endurtekin til þess að leggja sérstaka áherslu á þetta.

Bandaríska varnarliðið kom árið 1951 til Íslands. Sjö árum síðar er Lóa litla "..lagleg enn og hýr á brá og heillar menn,....og  "alltaf svo blíð við aðra en hann."  þ. e. eiginmann sinn.

Ég ólst upp við götu í Reykjavík á þessum árum og einn íbúi götunnar komst í Bíódaga, kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar og um einn íbúa götunnar gilti þetta: "...hýr á brá og heillar" erlenda "menn."  

Þess vegna finnst mér tilgátan um það hvernig Lóa lagði sitt af mörkum til heimilisins vel geta rímað við veruleika þessa tíma og gefa textanum dýpri merkingu, umhugsunarverða merkingu. 

Samkvæmt þessum skilningi á textanum lýsir hann því hvernig þau hjónin Lóa og Sveinn gátu unað því ástandi að hún væri að ergja hann með því að vera blíð við aðra en hann.

Eina ástæðan til þess að Sveinn gæti unað þessu ástandi hlaut að vera hvað hún þénaði mikið og skaffaði vel; hafði meira að segja margfalt tímakaup á við hann, - þetta virðist hafa verið svona ákveðið samkomulag um tekjuöflun fyrir stóra fjölskyldu, sem þurfti að hafa það flott í samræmi við lífsgæðakröfur þjóðfélagsins.

Textinn lýstir því hvernig saklaus sveitastelpa, sem gerir litlar og einfaldar kröfur, breytist í fatafrík við það að koma í ys, hraða og streitu borgarlífisins og gengur tekjufíkninni á hönd, jafnvel þótt miklu þurfi að fórna fyrir það, bæði átök og erfiðleika í hjónabandinu.  

Og um leið er fólgin viss ádeila í textanum sem kallar á texta um framhaldið, hvort þetta gat gengið svona áfram, - hvernig þetta fór allt saman. Maður ætti kannski að prófa að gera slíkan texta?   

 

 

 

 


mbl.is Er Ted í raun stolinn Charlie?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir eru snemma "meðetta".

Afburða hæfileikar koma misjafnlega fram hjá snillingum. Sumir fara inn á brautir sem í ljós kemur að voru ekki þær leiðir, sem löðuðu fram það besta hjá þeim. 

Þjálfari í Reykjavík taldi austfirska drenginn Vilhjálm Einarsson kannski geta orðið liðtækan kúluvarpara og gat greinilega ekki ímyndað sér að hann gæti orðið besti íþróttamaður landsins um árabil sem langstökkvari og þrístökkvari, jafnað gildandi heimsmeit í síðarnefndu greininni og hreppt Ólympíugull.

Þegar ég var íþróttafréttaritari Sjónvarpsins ákvað ég að það gæti verið góð tilbreyting að taka mynd af einhverjum knattspyrnuleik í yngri flokkunum í Sjónvarpinu 1969 og fór vestur að Melavöll í því skyni.

Einn ungu drengjanna vakti sérstaka athygli í þessum leik því að hann var svo leikinn og fljótur að þar var augljóslega gríðarlegt efni í knattspyrnumann á ferðinni.

Sex árum síðar var hann maðurinn, sem skoraði snilldarmark í frægum sigurleik við Austur-Þjóðverja, en þeir voru þá með lið sem var eitt af þremur bestu knattspyrnulandsliðum heims.

Drengurinn er frá Vestmannaeyjum og nafn hans er Ásgeir Sigurvinsson. 

Hann var valinn besti leikmaðurinn í þýsku Bundesligunni árið 1983 og þáverandi landsliðsþjálfari Þjóðverja sagði síðar, að ef Ásgeir hefði haft þýskan ríkisborgararétt hefði hann orðið fyrirliði vestur-þýska landsliðsins. 

En það er ekki nóg að miklir hæfileikar komi snemma fram og þroskist til afreka. Að baki verður að liggja sterkur karakter sem þolir það andlega álag sem fylgir alltaf með.

Þess vegna er stundum eins og miklir hæfileikamenn hreinlega gufi upp eða fái aldrei að njóta sín þegar þennan óhjákvæmilega grunn vantar.  


mbl.is Sá hæfileikana strax í yngri flokkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband