Vildu ekki göng yfir í Fljótin.

Þegar fjallað var um vegabætur á utanverðum Tröllaskaga hér um árið komu tveir möguleikar til umræðu: Héðinsfjarðarleið og Fljótaleið.

Fljótaleiðin hefði legið þannig að frá Siglufirði væri ekið um göng yfir í Fljótin utanverð og innar úr Fljótunum um göng yfir í Ólafsfjörð. 

Fljótaleiðin hafði að vísu þann ókost að leiðin milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar varð 17 kílómetrum lengri en um Héðinsfjarðargöng, 34 í stað 17. 34 kílómetrar þykja ekki mikið á höfuðborgarsvæðinu og eru vel innan þeirra marka, sem eitt atvinnusvæði spannar. 

En að öllu öðru leyti hafði Fljótaleiðin kosti umfram Héðinsfjarðarleiðina.  

Fljótagöngin styttu leiðina frá Siglufirði til Skagafjarðar og suður um til Reykjavíkur um átta kílómetra.

Þau tryggðu heilsárssamgöngur vestur og suður um og afnámu hinn hættulega og vonda veg um Almenninga.

Þeir skópu líka heilsársleið milli Ólafsfjarðar og Skagafjarðar, mun styttri en leiðin er um Héðinsfjarðargöng og hina slæmu Almenninga.

Þau styttu heilsárs hringleið um Tröllaskaga um ca 20 kílómetra og afnámu leiðina um Almenninga.

Þau viðhéldu töfrum Héðinsfjarðar og ævintýralegu aðdráttarafli hans sem eina óbyggða fjarðarins á svæðinu frá Ingólfsfirði á Ströndum til Loðmundarfjarðar á Austfjörðum.

Pólítískir kjördæmahagsmunir og flutningur Siglufjarðar úr Norðurlandskjördæmi vestra yfir í Norðausturkjördæmi réðu miklu um að Héðinsfjarðargöng voru valin. 

Til að aðstoða þingmennina til að tala niður Fljótaleiðina niður var Vegagerðin fengin til að gera að skilyrði að gangamunnarnir Fljótamegin lægju mun lægra en aðrir gangamunnar á landinu.

Það lengdi göngin verulega og gerði þau dýrari.

Meðmælendur Héðinsfjarðarleiðarinnar höfðu yfirburði í aðstöðu til að reka áróður fyrir henni.

Nú þrýsta Siglfirðingar á að fá nyrðri helming Fljótaleiðarinnar frá Siglufirði til Fljóta í viðbót við Héðinsfjarðargöngin.

Á sama tíma er æpandi þörf fyrir göng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og vegabætur við norðanverðan Breiðafjörð fyrir landshluta, sem enn er á svipuðu samgöngustigi á landi og í lofti og v var fyrir hálfri öld.

Því var aldrei lofað á sínum tíma að grafin yrðu jarðgöng þvers og kruss um allan norðanverðan Tröllaskaga.

Valið stóð á milli tveggja leiða og hvor kosturinn, sem í boði var, var mjög dýr og á kostnað annarra landshluta.

Úr því að menn vildu ekki göng milli Siglufjarðar og Fljóta þegar þeir gátu fengið þau, er ólíklegt að þeir geti fengið þau í viðbót við Héðinsfjarðargöng.

Því að það er oft þannig, að sá sem vill ekki þegar hann fær, fær ekki það sem hann vill.  


mbl.is Vegurinn illkeyranlegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lidice.

Lidice er lítið þorp nálægt Prag í Tékklandi. Í dag stendur það nálægt þeim stað sem það stóð á vorið 1942, en gamla þorpstæðið er autt, af því að það var jafnað við jörðu.

Þegar Reinhard Heydrich, landsstjóri nasista, einn af háttsettustu valdamönnum þeirra og stjórnandi útrýmingar Gyðinga, var drepinn í maí 1942 töldu nasistar rökstuddan grun um að þáttakendur og vitorðsmenn um árásina á Heydrich væru í þorpinu. 

Þeir réðust því á þorpið, lögðu það i rúst, drápu alla karlmenn yfir 15 ára, alls 184, og fluttu og fluttu á álíka margar konu og börn í útrýmingarbúðir, auk þess sem líklegir vitorðsmenn voru eltir uppi víðar og þeim eytt.  

Nasistar sögðust gera þetta til að hefna fyrir árásina á Heydrich og koma í veg fyrir að svipuð atvik endurtækju sig.  

Í gær var ég að rifja upp hetjuskap Stauffenbergs og vina hans þegar þeir reyndu að ryðja Hitler úr vegi fyrir réttum 70 árum.

Í dag sækir Lidice á hugann. Heimsstyrjöldin síðari býr yfir mörgum umhugsunarverðum atburðum.  

 


mbl.is Fylgjast með árásunum af Sderot-hæð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

15 borplön í stað 5 ?

Túrbínutrix og áunnin fáfræði virka til þess að Þeystareykjavirkjun renni ljúflega í gegn. Túrbínutrixið fólst í því að þegar í upphafi var valdið svo miklum umhverfisspjöllum þar að ekki yrði aftur snúið. 

Síbylja er í umræðunni og fólk heldur það, að virkjunin sé bara ein enn virkjuniun á hálendi Íslands þar sem ekkert sé að sjá nema urð, grjót og sand.

Hið rétta er að þarna var bújörð,  og að Þeystareykir og Bjarnarflag hafa sérstöðu sem háhitasvæði varðandi það að þar eru tún og  mikill gróður, fallegt bæjarstæði með fjöll á báðar hendur. 

Náttúruunnendur fóru fram á það að borsvæðin yrðu höfð sem fæst og að háspennulínan yrði ekki lögð beint yfir merkilegt hraun, sem er vestan við virkjunina og  hefur svipaðar gjár og í Gjástykki.

Hvorugt var tekið í mál.

Línan verður lögð beint yfir hraunstrauminn og gert er ráð fyrir að borsvæðin verði 15 í stað 5.

Ég efast um að Skipulagsstofnun hafi komist upp með það að laga þetta til. Ef farið er fram á slíkt er það flokkað undir öfgar og það "að vera móti öllu og á móti atvinnuuppbyggingu." 

Ástæðan fyrir þessari svartsýni um úrbætur er sú, að Landsvirkjun sveik loforð um að skáboranir við Víti í Kröflu yrðu þannig að sprengigígnum yrði þyrmt.

Í staðinn var borað við efri brún hans og rutt burtu viðkvæmum gróðri þar fyrir fyrir mörg þúsund fermetra borplan.

Sú tilhögun var Landsvirkjun til skammar, sem ekki verður afmáð. Túrbínutrixið svínvirkaði og afleiðingar þess munu blasa við ókomnum kynslóðum.  

Það var ekki eitt heldur allt varðandi Þeystareykjavírkjun, því að til þess að hægt yrði að selja orkuna frá Þeystareykjum svo að virkjuninn rynni ljúflega í gegn voru veittar meiri ívilnanir varðandi kísilver á Bakka en nokkur stjórn Sjalla og Framsóknar veitti á sínum tíma.

 


mbl.is Framkvæmdir í fullum gangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband