Því skítugra og óhagkvæmara, því betra.

Fróðlegur pistill Haraldar Sigurðssonar um fyrirhugaða sólarselluverksmiðju á Íslandi og viðbrögðin í athugasemdum við honum ættu ekki að koma neinum á óvart. 

Í fimmtíu ár hafa verið predikuð nokkurs konar trúarbrögð hér á landi gagnvart hinum ginnheilaga "orkufreka iðnaði".

Með aðferð Orwells í bókinni 1984 er búið að breyta raunverulegri merkingu orðsins, sem þýðir að sjálfsögðu iðnað með eins miklu orkubruðli og mögulegt er, í svo jákvætt hugtak, að Íslendingar bjuggu til efahagsþenslu með kreditkortum sínum 2002 og stórir ameríski pallbílar streymdu til landsins við undirskrift samninga við Alcoa, þótt ár væri þangað til framkvæmdir hæfust við Kárahnjúkavirkjun.

Um leið og útlendingur birtist með hugmynd um að reisa hér skítuga og orkubruðlandi verksmiðju slefum við eins og hundar Pavlovs, sem sýndu slík viðbrögð bara við það að nafnið kjöt væri nefnt.

Sólarselluverksmiðjan er alls ekki fyrsta slíka hugmyndin sem við viljum stökkva samstundis á.

Fyrir sex árum hófst mikil gyllingarherferð fyrir því að reisa tvær risaolíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum sem myndu "bjarga Vestfjörðum."

Ég fór til Noregs til að kynna mér málið og kvikmynda dýrðina og þar kom í ljós að í 20 ár hafði engin vestræn þjóð vilja reisa slíka verksmiðju. Það vildi enginn hafa slíkt skrímsli nálægt sér.

Um svipað leyti slefuðu menn yfir hugmyndum um súrálsverksmiðjur hér á landi. Þær eru að vísu botninn á sóðaskap í iðnaði, sem enginn vill reisa hjá sér í nágrannalöndunum. 

1995 sendu íslensk stjórnvöld bænaskjal til helstu stóriðjufyrirtækja heims þar sem grátbeðið var um að selja þeim orku "á lægsta orkuverði heims með sveigjanlegu mati á umhverfisáhrifum".

Þokkalegur bísness það.

Í athugasemd við pistil Haraldar er þrætt hressilega fyrir eðli sólarsellufyrirtækisins og skuggalegan feril þess. og fullyrt að sólarselluverksmiðja þess hér á landi myndi ekki menga meira en meðal kúabú og nota sáralitla orku.

Slíkt kemur heldur ekki á óvart.

Fyrir rúmum áratug var fullyrt að búið væri að ganga tryggilega frá því að Hellisheiðarvirkjun myndi ekki menga neitt, og starfsemin felast í "hagkvæmr nýtingu hreinnar og endurnýjanlegrar orku."

Í dag er virkjunin mest mengandi fyrirtæki Íslands með meiri mengun en álverin, aðeins 15% orkunnar nýtist en 85% fer ónýtt út í loftið, og aflið er þegar byrjað að dvína, enda aldrei gert ráð fyrir meiri endingu þess en í nokkra áratugi.  


Við veljum okkur ekki náttúruhamfarir og vá.

Síðan í Kröflueldum 1975-1984 hefur verið fremur rólegt á eldvirka svæðinu fyrir norðan Vatnajökul. Það hafa að vísu komið hlaup í Jökulsá á Fjöllum, - eitt þeirra tók af brú niður í Öxarfirði, og alvarlegt hópslys varð í Hólsselskíl norðan við Grímsstöðum á Fjöllum fyrir um 17 árum, en að öðru leyti hefur ekkert gerst þar í líkingu við Öskjugosið 1875.

Flugbraut við Grímsstaði á Fjöllum sannaði gildi sitt í hópslysinu þegar ekki var hægt að fá þyrlu til björgunarstarfa, og Twin Otter flugvél frá Akureyri flaug með slasaða frá Grímsstöðum til Akureyrar.

Að öðru leyti hefur engin sérstök náttúruvá verið eða stórslys orðið á svæðinu og því allt með kyrrum kjörum þar árum og áratugum saman. Þó kom löng djúpskjálftahrina 20 kílómetra frá vellinm 2007-2008 og síðan hafa verið viðvarandi skjálftar á því svæði fjölmargra og fjölbreytilegra eldstöðva. 

En skriðan mikla í Öskju sýnir að á Íslandi er ekki hægt að velja sér náttúruvá eða hamfarir.

Hekla getur hvenær sem er gosið með aðeins klukkustundar fyrirvara og umferð ferðamanna er orðin það mikil um allt land, að huga þarf að öryggi þeirra hvar sem er.

Flugbraut er í Herðubreiðarlindum en þegar vindur stendur af fjallinu getur hún verið hættuleg eða ófært til lendingar þar. Brautin er þar að auki á flötum bakka Jökulsár á Fjöllum  sem flóð getur farið um.

Hvorugt, sviptivindar né flóð ógna hins vegar eina skráða og viðurkennda flugvellinum á svæðinu, Sauðárflugvelli, og fimm flugbrautir hans, alls 4,7 kílómetra langar þar af tvær nógu langar fyrir Fokker F50, Lockheed Hercules og Boeing C-17 Globemaster, tryggja að hliðarvindur geti ekki orðið til trafala. 

Allt í kringum völlinn móta eldvirkni og hamfarir landið og stórir atburðir geta orðið hvenær sem er.  

Enginn opinber aðili telur sér skylt að viðhalda þessum flugvelli í sem bestu standi og uppfylla ströngustu kröfur um svo stóran flugvöll.

Ég veit ekki hve lengi einn aldraður einstaklingur getur það, svo langt frá Reykjavík sem völlurinn er og kostnaðarsamt að vera bæði ábyrgðarmaður og umsjónarmaður hans.

Völlurinn er í kjördæmi forsætisráðherrans en það hefði líkast til verið flokkað undir spillingu ef leitað hefði verið til ráðuneytis hans um styrk, hvað þá ef svar hefði fengist með sms-skilaboðum.  

 

 

 

  

 


mbl.is Vígalegur mökkur steig til himins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband