Hlýjasti tími ársins er í kringum 20. júlí.

Fyrir mánuði var sól hæst á lofti á Íslandi og lengstur sólargangur. En vegna tregðulögmálsins tekur það um það bil einn mánuð fyrir veðurfarið og meðaltalshitann að ná hámarki hvers sumars. 

Hlýjasti tími hvers árs að meðaltali eru síðustu 10 dagar júlí.

Skekkjan á milli hámarks sólargangs og hámarkshitans sést vel á því að í Reykjavík er meðalhiti í maí, mánuði fyrir sólstöður, um 7 stig en er hins vegar í hámarki eða yfir 11 gráður mánuði eftir sólstöður.

Meðalhitinn í september, þremur mánuðum eftir sólstöður, er svipaður og mánuði fyrir sólstöður. 

Þessa dagana er varla hægt að sjá votta fyrir bláma á veðurkortunum í sjónvarpinu, allt er gulbrúnt eða rautt.  12 stiga hiti syðst á Grænlandi og 30 stiga hiti í Stokkhólmi.

Já, nú er sumar, gleðjist gumar.  


mbl.is Hlýtt þrátt fyrir sólarleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styður kenningu Jóns Jónssonar um afdrif Knebels og Rudloffs 1907.

Jón Jónsson jarðfræðingur setti fram í hárri elli kenningu um hið dularfulla hvarf Þjóðverjanna vísindamannanna Walters von Knebels og Max Rudloffs sumarið 1907.

Þeir voru í vísindaleiðangri, sem kenndur var við Knebel þegar þeir og bátur þeirra hurfu sporlaust, en af þeim fannst aldrei tangur né tetur, þrátt fyrir leit, bæði 1907 og í leitarleiðangri árið eftir. 

Jón taldi að flóðbylgja frá hruni niður í vatnið hefði hvolft veigalitlum báti þeirra og þeir drukknað.

Vatnið var kalt og likin hafa sokkið til botns.

Jón taldi mögulegt að sjá, hvar jarðfall hefði orðið, og taldi að ekki hefði þurft stórt hrun til að granda bátnum, sem var úr segli og lekur.  

Minnisvarði um Knebel og Rudloff er í Öskju og þykir hafa verið reimt af þeirra völdum á þessum slóðum æ síðan.

Líkt og varðandi hvarf Reynistaðabræðra og fund vettlings Jóns Austmanns fóru strax af stað miklar sögur og kenningar um hvarfið, meðal annars þess efnis að hinir horfnu hefðu verið á lífi hálfum mánuði eftir að talið var í upphafi að þeir hafi horfið.  

í Öskju þykir mörgum sem þeir séu komnir í návígi við frumsköpun jarðarinnar og þangað var farið með bandarísku tunglfarana til æfinga áður en þeir fóru í fyrstu ferðina til tunglsins.

Ég reyndi að orða þetta í einu erindanna í ljóðinu "Kóróna landins" á þennan hátt:

 

Beygðir í duftið dauðlegir menn

dómsorði skaparans hlíta.

Framliðnar sálir við Öskjuvatn enn

sig ekki frá gröf sinni slíta.

Tunglfarar upplifa ósköpin tvenn;

eldstöð og skaflana hvíta.

Alvaldsins sköpun og eyðingu´í senn

í Öskju þeir gerst mega líta.

 

Höll íss og eims,

upphaf vors heims,

djúp dularmögn,

dauði og þögn.  


mbl.is 50 milljóna rúmmetra skriða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingur mælti fyrir tveimur frjálsum ríkjum í Palestínu.

Vinátta Íslendinga og Ísraelsmanna átti upphaf sitt í því að Thor Thors hjá Sameinuðu þjóðunum bar þar fram tillögu um stofnun tveggja jafn rétthárra ríkja í Palestínu, ríki Gyðinga og ríki Palestínumanna.

Þetta er staðreynd sem ekki má gleymast, þótt liðinn sé hálfur sjöundi áratugur síðan.  

Það var því fyllilega rökrétt þegar Íslendingar voru í fararbroddi þjóða sem viðurkenndu sjálfstæði og tilvist Palestínu í hitteðfyrra.

Þess vegna er núverandi ástand óviðunandi að aðeins annað ríkið njóti raunverulegs sjálfstæðis og sé með hitt hernumið og/eða í herkví og haldi því í heljargreipum kúgunar fádæma hernaðarlegra yfirburða.  

Það var ekki sú skipan mála sem Thor Thors mælti fyrir á sínum tíma.  

 


mbl.is „Krefjumst frjálsrar Palestínu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband