Fáránleiki tilgangslausra styrjalda.

Heimsstyrjöldin fyrri sem hófst fyrir réttum 100 árum var ekki aðeins einhver tilgangslausasta styrjöld sögunnar heldur voru mannfórnir hennar oft á tíðum fáránlegar. 

Þannig gerðist það oft þegar fótgönguliðum tókst að komast einhverjar vegalengdir í stórárásum stríðins eins og við Somme og Verdun, án þess að óvirnirnir gætu sallað þá alla niður með vélbyssum sínum og rifflum nægilega fljótt, að framsókn þessara hermanna kom þeim sjálfum í koll þegar þeir hlupu inn í stórskotahríð eigin stórskotaliðs að baki þeim og voru stráfelldir af landsmönnum sínum.

Hersveitirnar, sem byrjuðu að marséra þennan dag fyrir öld í þáttökulöndum stríðsins voru kvaddar með gleðisöngvum og uppörvandi hrópum þjóða, sem hver um sig hélt að sigurför sinna manna yrði lokið með glæstum sigri fyrir jól. 

Það er ógleymanlegt hverjum, sem það hefur fengið að upplifa, að ganga um grafreitina endalausu við Verdun og gera sér í hugarlund líf og sögu allra þeirra milljóna ungra hermanna, sem voru murkaðir niður í stríði, sem gerði ekkert annað en að kveikja neista og eldsmat fyrir enn verra framhaldsstríð tuttugu árum eftir lok stríðsins, sem átti að binda enda á allar styrjaldir.

Millistríðsárin voru aðeins ígildi leikhlés í knattspyrnuleik eftir fyrri hálfleikinn, og síðari heimsstyrjöldin ígildi seinni hálfleiks, sem leysti raunar ekki úr vandamálunum, sem skópu þennan mikla ófrið, heldur tók Kalda stríðið við eins og framlenging og árin eftir það eins og vítaspyrnukeppni. 

Kalda stríðið kostaði tugi milljóna manna lífið, ekki aðeins í Kóreustríðinu, Vietnamstríðinu og fleiri styrjöldum um allan heim, heldur einnig í ofbeldi Maós, Rauðu Kmeranna og ýmissa harðstjóra og einræðisherra, sem stóðu fyrir fjöldamorðum og "hreinsunum".   


mbl.is 8 börn meðal látinna á Gaza
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hlýnunin sem hvarf." "Loftlagsbreytingar eru blekking."

Í hvert skipti sem það kemur fram í fréttum að hver mánuðurinn af öðrum sé hlýrri en í meðalári, að hiti sjávar fyrir norðan land sé með því hæsta sem sést hefur, að íslenskir jöklar minnki jafnt og þétt, að Kínverjar og Rússar séu að seilast hér til áhrifa og valda vegna minnkandi íss og þar með aukinna umsvifa á heimsskautssvæðinu, og að hlýrra veðurfar hafi stórfelld áhrif á gróður á landinu og lífríki sjávarins, rekur hópur manna upp ramakvein og afneitar þessu öllu. 

Ég hef kosið að kalla þessa menn "kuldatrúarmenn". Þeir trúa því að síðustu 14 ár hafi ekki verið hlý heldur köld. "Hlýnunin sem hvarf" er yfirskrift pistils eins þeirra. Og annar skrifar: "Loftslagsbreytingar eru blekking."

Þessir menn virðast trúa því statt og stöðugt að breytingar á hafís og jökulís á Grænlandi séu lygar einar. Að makríllinn hafi sótt hingað norður Íslands fyrir misskilning.

Þeir virðast trúa því að gróður landsins þjóti nú upp í skjóli blekkingar, - gróður, fiskistofnar og íslenskir jöklar láti vonda vísindamenn plata sig, því að í gangi séu hagsmunapot og gróðasjónarmið þeirra, sem hafa með rannsóknum sýnt fram á hlýnunina og afleiðingar hennar og lifi á þessu starfi og því að halda fyrirlestra um niðurstöðurnar.

Í fyrra sögðu þeir að það ár hefði verið kuldaár hér á landi því að ef hlýindin í janúar og febrúar hefðu verið dregin frá í útreikningi meðaltalsins, hefði árið ekki orðið hlýrra en í meðalári. Sem sagt: Kalt ár. 

Samkvæmt þessu stöndum við frammi fyrir því að draga að minnsta kosti allan fyrri hluta ársins í ár frá í útreikningunum til þess að eiga von um að árið 2014 verði kuldaár.

Tengdadóttir mín segir frá því í afmælisboðum að undanfarnar vikur hafi verið eindæma hlýindi í Nuuk, þar sem hún hefur dvalið. 20 stig dag eftir dag. Ekki orð að marka hana né það að hitinn hefur verið um 30 stig í gervallri Skandinavíu að undanförnu. 

Þegar dregin er heil lína í gegnum meðalhitatölur hér á landi síðan um 1850 koma fram sveiflur, sem sumar hafa staðið í allt að aldarfjórðung, en heila línan í gegnum meðaltalssveiflurnar hefur samt hækkað allan tímann, botnanir á niðursveiflunum orðið sífellt hærri og sömuleiðis topparnir á uppsveiflunum.

Aumingja Trausti Jónsson veðurfræðingur hefur glapist til að birta þessar tölur og línur unnar úr þeim og verður fyrir bragðið að teljast ómarktækur, vegna þess að hann hefur atvinnu af því að vinna úr veðurfarstölum og gögnum á Veðurstofunni.

Ekkert fær haggað kuldatrúnni og trúnni á dýrð þess að breyta helst engu í bruðlinu með olíu, gas og kol, stórfelldustu rányrkju í sögu mannkynsins. Enda gríðarlegir hagsmunir bruðlaranna og stórfyrirtækjanna í húfi.  

 


mbl.is Byggir verk á loftslagsbreytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband