Hundar Pavlovs og besta stemningin.

Á þessari bloggsíðu hafa hundar Pavlovs stundum verið nefndir sem samlíking við það hvernig stundum verður tll þensla hér á landi bara við það eitt að skrifað er undir samninga um stóriðju- og virkjanaframkvæmdir, þótt framkvæmdirnar byrju kannski ekki fyrr en ári síðar. 

Þetta byggisgt á því að hundarnir fengu nógu oft gott að éta jafnframt því sem eitthvað annað, orð eða gerningur fylgdi með, tengdu þeir smám saman þetta tvennt saman, þannig að þeir fóru að slefa við það eitt að heyra orðið, þótt enginn kjötbiti fylgdi með.

Þegar ég var í menntaskóla þurftum við nemendurnir ekki mikið til þess að fara að hlæja og fyndni og grín var sjálfsprottið. 

Síðan liðu árin og þegar við hittumst á fimm ára fresti varð maður var við það að gamla sjálfsprottna grínið, glensið og hláturinn hurfu smám saman.

Maður fór að efast um það að við hefðum verið eins skemmtileg og hláturinn eins mikill og hann virtist hafa verið í minningunni.  

Síðan gerðist það í lautarferð á 45 ára afmælinu að hópur af körlunum settist sér niður í laut og teknar voru upp pyttlur og dreypt hressilega á, svo að menn urðu flestir vel hreyfir.

Brá þá svo við að menn urðu þetta litla skemmtilegir, spaugsyrðin og fyndnin leiftruðu sem og tilheyrandi hlátrasköll.

Já, við höfðum þá greinilega verið svona fjörug, fyndin og skemmtileg á menntaskólaárunum.

Það sem hafði breyst var að með árunum vöndust flestir þeirra, sem tóku sig saman um að setjast niður út af fyrir sig til að dreypa á víni og verða vel hreifir, á það að það væri ekki fyrr en búið var að komast á ákveðið vímustig að skemmtilegheitin fóru að lifna og dafna. 

Áfengið var hliðstæða orðanna, sem fengu hunda Pavlovs til að slefa áður en nokkur kjöt sást.  

Hjá áfengissjúklingum er þetta komið lengst og þeim finnstl að þeir verði helst að lenda á hressilegu fylleríí og æ meira fylleríi eftir því sem árin líða, til þess að verða nógu skemmtilegir, fyndnir og "hátt uppi".

Margir alkanna hafa lýst því hvernig svona ölvun var með árunum orðin að leiðinlegri kvöð og drykkjan orðin hundfúl þegar þeir voru orðnir langt leiddir af áfengisfíkninnni, auk þess sem þeir mundu ekkert eftir því þegar rann af þeim, hvað hafði verið svona skemmtilegt.

Þessu lýsti Flosi Ólafsson óborganlega í ræðu eftir að hann gerðist "þorstaheftur" og mín reynsla í 56 ár er sú, að það er auðveldara að skemmta edrú fólki en því sem ekki verður almennilega móttækilegt fyrr en á 3ja - 5. glasi.

Á hefðbundnum kvöldsamkomum Íslendinga er það stundum ekki nema innan við klukkustund um kvöldið sem bestur hljómgrunnur næst. Ef skemmtiatriðið er fyrr, er fólkið ekki komið í stuð, og ef það er á eftir þessari gullnu klukkustund, sem þarf að ná til fólksins með skemmtiatriði, er að það komið yfir strikið og farið að verða leiðinlegt.

Þetta hefur verið eitt helsta viðfangsefnið við að hitta á réttu stundina í 56 ár, en hefur raunar skánað aðeins hin síðari ár eftir að neysla sterkra vína hefur minnkað.  

Edrúfólkið er hins vegar jafn móttækilegt allt kvöldið.

Þegar ég hef þurft að raða niður á kvöldið stöðum, sem ég kem fram á, hafa "fylleríssamkomurnar" því oftast notið forgangs varðandi það að hitta á bestu stundina, en samkomur sem hafa verið meira edrú teknar annað hvort fyrr um kvöldið eða síðar um kvöldið.  

 


mbl.is Miklu skemmtilegra án áfengis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Svo mikið erlendis."

Eitt af orðtökum Björgvins Halldórssonar varðandi það sem er á heimsmælikvarða á Íslandi er að lýsa því þannig, að það "sé svo mikið erlendis". Merking setningar Björgvins hefur reyndar orðið víðari með árunum. 

Ég ók í gegnum gamla miðbæinn í gær og fannst það "svo mikið erlendis", þekkti ekki kjaft, því að ég sá ekkert nema útlendinga.

Stundum gerast svona breytingar svo hratt að maður áttar sig ekki á þeim fyrr en í einu vetfangi einn daginn.

Ég áttaði mig til dæmis ekki á hlut útlendinga og þá einkum Póverja í þjóðlífi okkar og efnahagslífi fyrr en dag einn fyrir mörgum árum, þegar ég kom niður að Patreksfjarðarhöfn eftir að langur tími hafði liðið síða ég kom þangað síðast.

Mig rak í rogastans þegar ég áttaði mig á því að ég hitti engan innfæddan Íslending við höfnina í þetta sinn. Og þá skildi ég gamansöguna af því þegar kennari einn fyrir vestan spurði nemendur í einum af efri bekkjum grunnskólans þessarar spurningar: "Hver eru mest verðmæti Íslands".

Eftir alllanga þögn lyfti stúlka aftarlega í bekknum upp hönd.

"Já, hver eru mestu verðmæti landsins okkar?" endurtók kennarinn. 

"Pólverjarnir" svaraði stúlkan.  


mbl.is Breytt ásýnd miðborgar Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þarf margar kynslóðir til að breyta?

Um daginn sá ég að karl einn kvartaði yfir því í netmiðli að vegna þess hve konum hefði fjölgað í háskólanámi og vegna þess að meirihluti þeirra, sem lyki háskólaprófi, væru konur, væru konur með þessu framferði sínu að "verðfella háskólanám". 

Rétt eins og að konur hefðu "verðfellt" kennarastörf, gjaldkerastörf og fleiri störf með því að flykkjast í þau, drægju þær nú niður heilu langskólagengnu stéttirnar með því að hasla sér þar völl og ná góðum árangri! 

Heyrið þið nú aðeins!  Á maður að trúa því að tæpri öld eftir að konur fengu kosningarétt og tæpum 40 árum eftir kvennafrídaginn sé enn í fullu fjöri svona hugsanagangur?

Meðan hann viðgengst mun ekkert þokast í átt til þess að réttlæti og jafnræði fái að ríkja kjaramálum og hvers kyns mannréttindamálum. Áfram verði aðeins spurt um kyn, uppruna, þjóðerni, litarhátt og trúarbrögð en ekki um mannkosti, menntun eða framlegð þegar ákveðið verði um kjör, aðstöðu, reisn og virðingu. 

Þar skuli áfram tróna sem eins konar forréttindahópur hvítir íslenskir kristnir miðaldra karlmenn komnir með smá ístru og búnir að koma sér í aðstöðu til að græða á daginn og grilla á kvöldin og hafa völd og áhrif.   

Það hefur stundum verið sagt að það þurfi nýja kynslóð eða jafnvel tvær til að breyta rótgrónum fordómum. En hvað þarf margar kynslóðir til að breyta því hugarfari sem tekur því sem lögmáli að hvar sem konur hasla sér völl "verðfelli" þær viðkomandi starfsgrein eða vettvang? 

Fyrir 22 árum setti ég í söngtexta þessa hendingu um íslensku konuna: "Hún enn í dag fórna sér endalaust má".

Sú hending var sett inn til umhugsunar um hlutskipti margra kvenna og von um að einhver breyting þar á. Því miður miðar grátlega seint í því efni.   


mbl.is Karlaklúbburinn í tekjublaðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband