Förum varlega með samlíkingar við býsn.

Hitler og menn hans drápu 6 milljónir Gyðinga á svo kaldrifjaðan, úthugsaðan og tæknilegan hátt að bæði hugsunin á bak við Helförina og framkvæmdin sjálf eiga sér engan líka í mannkynssögunni.

Eichmann, handbendi Hitlers,  sagði síðar í útlegð í Suður-Ameríku að verst hefði verið að ekki hefði tekist að drepa alla Gyðinga veraldar, 10,5 milljónir alls.

Það er ekki hægt að líkja neinu við svona aðfarir og nöfn eins og Auschwitz eiga ekki við. Með slíkri líkingu er verið að gera lítið úr einstæðu haturs- og morðæði Hitlers og örlögum þeirra, sem urðu fyrir barðinu á því.

Það er að vísu hægt að taka ýmis atriði út úr sem bera má saman þegar talað er um hrikalegustu atburði sögunnar og eiginleika manna.  En fara verður varlega með samlíkingar þegar það allra svakalegasta á í hlut sem er langt umfram allt annað.

Á sjöunda áratug síðustu aldar datt nokkrum mönnum það í hug í hita leiks íslenskra stjórnmála að nefna áhrif umdeildra efnahagsaðgerða Viðreisnarstjórnarinnar "móðuharðindi af mannavöldum."  

Í móðuharðindunum dó fjórðungur þjóðarinnar og 70% búsmalans. Í öðrum heimsálfum kostuðu afleiðingar Skaftáreldanna milljónir mannslífa.

Skelfingar móðuharðindanna á Íslandi eiga sér enga hliðstæðu í sögu þjóðarinnar og það var móðgun við minningu þeirra, sem þá þjáðust og létu lífið, að taka sér þetta orð í munn um eitthvað sem ekki er einu sinni í neinni líkingu við slík ósköp, heldur voru þau ár, sem þessir menn sögðu að móðuharðindi af mannavöldum stæðu yfir, uppgangstími hér á landi.

Það er því ráðlegt að fara varlega með samlíkingar við eitthvað sem ekki er hægt að finna neinn samjöfnuð við.   


mbl.is „Auschwitz Miðjarðarhafsins“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigum við að hætta að laða ferðafólk til landsins?

Þessari áhugaverðu spurningu var varpað upp í viðtali við Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðing í ágætum útvarpsþætti í dag, sem ber nafnið "Áfangastaður: Ísland"

Ástæðan fyrir spurningunn hefur oft heyrst: Flugvélar menga mest allra samgöngutækja og með því að bægja flugvélum og skemmtiferðaskipum frá landinu leggjum við okkar skerf til minni útblásturs gróðurhúsalofttegunda.

Þessi fullyrðing stenst enga skoðun. Í fyrsta lagi menga flugvélar aðeins 12% af mengun allra faratækja heimsins, en bílarnir blása út 74% og skipin 16%.

Í öðru lagi eiga flugvélar aðeins þátt í 2% af heildarútblæstri gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og jafnvel þótt tekið sé með í reikninginn að þær blása þessu út ofar í loftlögunum, getur þessi prósenttala ekki samsvarað hærri tölu en 3%.

En aðalatriðið er þetta og það kom ekki fram í þættinum: Menn gefa sér það fyrirfram að ef straumur ferðamanna til landsins yrði stöðvaður myndu þeir ekki hreyfa sig spönn frá rassi í sumarleyfi sínu.

Það er fráleit forsenda. Að sjálfsögðu myndu skemmtiferðaskipin bara sigla annað og fólkið fljúga til annarra landa en Íslands eða fara í langa bílferð ef þeim væri bægt frá landinu.

Margir þeirra sem hafa horn í síður ferðamannaþjónustunnar gera það til að bægja athyglinni frá því að hér heima höfum við enn mest mengandi bílaflota Evrópu, en þar væri hægt að taka verulega til hendi, ekki hvað síst með tilliti til notkunar okkar eigin mengunarlausu orkugjafa.

Einnig gerir vöxtur ferðaþjonustunnar erfiðara fyrir um að halda fram taumlausri sókn eftir því að sem mest af "orkufrekum iðnaði" sé komið hér á þar sem ágóðinn rennur úr landi til erlendra eigenda en virðisaukinn í hagkerfinu er meira en tvöfalt minni en í sjávarútvegi og ferðaþjónustu.  


mbl.is Bílaleigan Enterprise á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu sinni voru í gildi lög um fundarlaun.

Fyrir hálfri öld var í gildi lagagrein um fundarlaun, þess efnis, að finnandi ætti rétt á 10% af virði hins fundna.  

Ekki veit ég hvort þessi lagagrein er enn í gildi. Hún bar ekki í sér skyldu til að eigandi hins fundna greiddi fundarlaun; aðeins það að finnandinn gæti farið fram á fundarlaunin en þó ekki meira en 10% af virði hins fundna.

Og að sjálfsögðu var eigandanum heimilt að bjóða betri fundarlaun en 10%. 

Tilgangurinn með lagaákvæðinu var að virkja hvetjandi á finnendur að skila hinu fundna til eigandans ef honum fannst sanngjarnt að honum yrði launuð ráðvendnin.

Misjafnt er hvernig hlutir eða fjármunir týnast. Stundum man eigandinn vel hvar hann skildi hlutinn eftir þannig að það eru augljóslega afar fáir eða jafnvel aðeins einn maður, sem getur verið finnandinn.

Í slíku tilfelli er matsatriði hvort fundarlaun eigi við þótt að sjálfsögðu sé þakkarverður sá heiðarleiki að halda hinu fundna til haga fyrir eigandann þangað til hann vitjar þess.

Öðru máli gegnir um fund eins og þann, sem greint er frá í tengdri frétt á mbl.is.

Í því tilfelli var finnandanum í lófa lagið að grípa til hverra þeirra ráðstafana sem hann kysi án þess að upp um það kæmist.

Að lokum þetta: Bílþök eða vélarhlífar á bílum eru verstu staðir til að setja hluti á. Af því hef ég afar slæma reynslu.

 

 


mbl.is Skilaði 50.000 króna veski
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband