Dýrkeypt menningarslys.

Útvarpshúsið við Efstaleiti er glæsilegt hús, ekki vantar það. En undir glæsilegu yfirbragði leynist eitthvert dýrkeyptasta menningarslys í sögu landsins.

Hrafn Gunnlaugsson og fleiri sögðu réttilega á sínum tíma að eina hlutverk útvarpshúss væri að vera verksmiðja, sem framleiddi dagskrá.

Fyrstu húsakynni Sjónvarpsins var hús, sem reist var sem bílasmiðja, og því var erfitt að laga það hús að gerólíkri starfsemi sjónvarps.

Samt var það svo að þegar til stóð að flytja starfsemina í Útvarpshúsið nýja baðst starfsmannafélagið undan því hvernig ætlunin var að reisa hið rándýra, óhentuga og allt of stóra nýja hús og flytja starfsemina þangað.

Ein ástæða þessarar andstöðu var sú staðreynd að húsið var alls ekki hannað fyrir sjónvarp !

Það átti sem sé að flytja úr húsi, sem ekki var hannað fyrir sjónvarp, í annað miklu stærra og dýrara hús sem var heldur ekki hannað fyrir sjónvarp !

Í upphaflegu teikingunum átti sjónvarpið að vera í öðru sérhönnuðu húsi fyrir það við hliðina á núverandi útvarpshúsi þar sem hljóðvarp, skrifstofur og yfirstjórn áttu að vera og einnig átti að reisa þriðja húsið fyrir tækjastarfsemina.

Þegar samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir hafnaði þessum ósköpum hefði verið eðlilegast að setjast niður og láta hanna allt upp á nýtt í minna húsnæði en i staðinn var sjónvarpi og tækjahúsi troðið inn í hljóðvarpshúsið, allri starfseminni til hreinnar bölvunar.   

Ég var í svonefndri samráðsnefnd á sínum tíma um þessi endemi en engu varð um þokað.

Gæti rakið það  í löngu máli.

Í ofanálag voru tekin lán á lán ofan til þess að halda vitleysunni áfram. 

Sá hluti íslenskrar menningar, sem felst í ljósvakamiðlun, hefur tapaði tugum milljarða króna vegna þessa húss. Það er dýrkeypt menningarslys.

Nú er uppi nauðsynleg og lofsverð viðleitni til að reyna að bjarga því sem bjargað verður með því að leigja út fjórðu og fimmtu hæð hússins.

Þess má geta að ekki er hægt að leigja út þriðju hæðina því að alla tíð var aldrei gert ráð fyrir að hún væri nýtt fyrir skrifstofur!  Hún er bara þarna og hefur alltaf verið.

Eftir sem áður hvílir stór skuldabaggi á Ríkisútvarpinu og húsið er alveg einstaklega dýrt í rekstri, alltof, alltof dýrt.

En RÚV situr áfram uppi með það allt.

Núverandi Útvarpshús mun því miður aldrei getað orðið hagkvæmt svo að þar verði framleidd sem mest og best dagskrá fyrir skaplega fjármuni.

Þetta hús verður ævinlega til vandræða meðan ekki verður hægt að komast út úr því í hús, sem hannað er frá grunni af útsjónarsemi og raunsæi.  

   


mbl.is Efstu hæðir Útvarpshússins auglýstar til leigu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þar kona sem fór fræga hestaferð yfir þver Bandaríkin?

Landsmót hestamanna er haldið við erfið skilyrði við Hellu þessa dagana. Það er þó huggun harmi gegn að enn verr hefði farið ef það hefði verið haldið á norðanverðu landinu, svo arfaslæmt sem veðrið er þar núna.

Leit sem snöggvast á Holtavörðuheiði á vedur.is og sá að þar eru hviður upp á 23 metra á sekúndu, 100% raki og aðeins 7 stiga hiti. Spáð áfram mikilli rigningu yfir helgina.

Það sem er einna mest heillandi við landsmót hestamanna er það að þar er að finna fólk frá öllu landinu og líka útlendinga.

Meðal annars hef ég frétt af konu, sem þar er, og stóð á sínum tíma fyrir þátttöku íslenska hestsins í gríðarlegri hestaferð yfir þver Bandaríkin 1976. Í þeirri ferð stóð íslenski hesturinn sig víst alveg sérstaklega vel og sé þessi kona á landsmótinu hefur hún vafalaust frá ýmsu að segja. .  


mbl.is Hestakona í löggæslu á Landsmóti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hef aldrei áður heyrt um æfingabann.

Mike Tyson beit stykki úr eyra Evenders Holyfields og hlaut verðskuldaða refsingu fyrir í formi langs keppnisbanns. Honum var þó ekki banna að æfa sig og ekki heldur bannað að horfa á hnefaleikabardaga.

Þótt margir séu yfirleitt á æfingum í knattpyrnu þurfa hnefaleikarar líka að geta æft með æfingafélögum.

Æfingabann á Suárez hefði því verið talsverð nýjung hvað refsingar varðar.  


mbl.is Suárez heimilt að æfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband