Hin endanlega og fullkomna tækni.

Það lítur vel út á pappírnum að hafa enga glugga á flugvélum, skoða allt umhverfi hennar á tölvuskjám og getað stjórnað þeim hvaðan sem er innan úr flugvélinni.

Þegar notkun á flóknum tölvukerfum, vökvakerfum, "fly-by-wire" tækni er komin á það stig má gamli Murphy fara að vara sig með sitt "úrelta" lögmál.

Það verður spennandi að fljúga í slíkum flugvélum og toppurinn á öllu að heyra dásemdum tækninnar lýst með róbótsrödd í hátalarakerfi hennar: 

"Þessi þota er búin fullkomnustu og altækustu tækni sem völ er á, betri en nokkur önnur önnur þota í heimi.  Í henni er ekkert sem getur bilað....urg...urg...ekkert sem getur bilað....urg....urg...ekkert sem getur....urg....urg....ekkert sem ....urg....urg....ekkert.....urg....urg.....urg......urg."


mbl.is Gluggalausar flugvélar framtíðin?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæmar fréttir og góðar fréttir.

Þegar fólk verður fyrir áföllum, smáum eða stórum, getur oft verið huggun harmi gegn að leita að bjartri lið á málinu. "Fátt er svo með öllu illt, að ei boði gott."

Það, að ná botninum, hefur hent marga, meðal annars okkur Íslendinga, þegar við töpuðum fyrir Dönum 14:2, sem er sama markahlutfall og 7:1.

Svona endemis tap og það að hafa náð botninum er að vísu slæm frétt, en góða fréttin er sú, að frá botninum liggur aðeins ein leið, þ. e. upp á við.

Íslendingar tóku þrjú ár í að vinna úr 14:2 tapinu og gerðu jafntefli við Dani þremur árum síðar.

Önnur góð frétt sem hin hliðin á slæmu fréttinni: Ósigrar eru til að læra af þeim, og því stærri sem ósigurinn er, því meira er hægt að læra af honum.

 


mbl.is Botninum hefur verið náð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Holurnar stækka og dýpka sífellt og þeim fjölgar.

Í meira en 40 ár hefur Kjalvegur aldrei verið eins slæmur og nú.Það get ég fullyrt eftir kynni við hann öll þessi ár, nú síðast í gær.

Þessa dagana er miklu meiri umferð um veginn en áður og fjöldinn allur af rútum fer reglulega um hann.

Ástæðan er sú að vegurinn er, þrátt fyrir allt, fær öllum fólksbílum, ef ekið er hægt og með mikilli aðgát, og það er því auðveldara fyrir ferðafólk, sem vill aka um islenska hálendið, að velja Kjöl heldur en Sprengisand, enda ekki lengur yfir neinar úbrúaðar ár að fara á Kili og leiðin mun styttri en Sprengisandsleið.

Þar að auki er ekkert svæði við Sprengisandsleið, sem hægt er að aka að og líkist Hveravöllum eða Kerlingarfjöllum.   

Gamli vegurinn, sem liggur frá Hvítárbrú við Hvítárvatn og norður fyrir Hveravelli, er kominn á það stig að það er ekki hægt að hefla hann, nema rífa hið þjappaða undirlag hans upp og velta með því steinum upp á yfirborðið.

Sums staðar eru holurnar ekki holur heldur gímöld.

Spurningin er hvaða markhópi eigi að þjóna. Ef sá markhópur er fólk, sem þráir ögrandi og tvísýnt viðfangsefni í akstri um íslenska hálendið og hefur nægan tíma til að hossast á lafhægri ferð um óveg, er Kjalvegur í núverandi ástandi eitthvað sem getur gefið því slíka upplifun.

En sá markhópur kann að vera stærri sem myndi vilja fá ögn þægilegri og ánægjulegri ferð um sléttan óupphleyptan malarveg.

Til þess að hægt sé að bjóða upp á slíkt þyrfti að bera ofan í núverandi veg heppilega ögn leirblandna möl, svipaða þeirri sem nú er á Bláfellshálsi.

Engin afsökun er fyrir því að hinn upphleypti vegur á nyrsta kafla leiðarinnar sé versti kaflinn og engin ástæða fyrir því að láta hið svakalega ástand hans líðast, svo fjölfarin sem þessi leið er orðin.   

 


mbl.is Kjalvegur sagður „skelfilegur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband