Getur valdið hamfaraflóðum á fjórum vatnasviðum.

Undir öxlinum Bárðarbunga-Grímsvötn er miðja annars af stærstu möttulstrókum jarðar, en hinn er undir Hawai. 

Það er ekki aðeins að Bárðarbunga sé næst hæsta fjall landsins vegna þess hve mikil eldvirkni er þar, heldur tekur hún oft þátt í eldgosum sunnan og norðaustan við sig, ef svo má að orði komast, á þann hátt að mikil skjálftahrina er oft aðdragandi að þessum gosum.

Á undan Gjálpargosinu 30. september 1996 kom mikil hrina í Bárðarbungu.

Þetta minnir á miðjuhlutverk Leirhnjúks norðan Mývatns í Kröflueldum, en all urðu níu eldgos á línu, sem liggur í gegnum hnjúkinn, en aðeins eitt þeirra varð í hnjúknum sjálfum.

Hættan vegna eldgoss í og við Bárðarbungu er sú, að gjósi undir hinni þykku íshellu, getur það valdið stærstu hamfaraflóðum, sem verða á Íslandi.

1996 fór flóðið í skástu áttina, inn í Grímsvötn. Þar var fyrirstaða sem olli því að það tók nokkrar vikur að byggja upp nægilega mikið samansafnað bræðsluvatn til að það ryddist að lokum niður á Skeiðarársand.

Það var stærsta hamfararflóð hér á landi síðan í Kötlugosinu 1918.

Hamfaraflóðin af Bárðarbungu svæðinu geta farið niður í þrjú vatnasvið:

1. Undir Köldukvíslarjökul niður í vatnasvið Köldukvíslar, Tungaár og Þjórsár. Sjá mynd af Köldukvíslarjökli og Bárðabungu á facebook síðu minni. 

2. Niður í Skjálfandafljót.

3. Niður op Bárðarbunguöskjunnar og undir Dyngjujökul niður í Jökulsá á Fjöllum, en þar hafa orðið stærstu hamfaraflóð hér á landi, þó ekki eftir að land byggðist.

4. Niður í Grímsvötn og þaðan niður á Skeiðarársand.

Þrjú fyrstnefndu hamfaraflóðin eru lang varasömust og hættulegust, einkum niður um vatnasvið Jökulsár á Fjöllum.

Það er erfitt að ná góðum myndum af Bárðarbungu því að hún er svo umfangsmikil. Ég notaði því tækifærið í flugferð frá Hvolsvelli norður á Sauðárflugvöll hinn 3. ágúst síðastliðinn, eða fyrir 13 dögum, til þess að ná góðum myndum af henni.  Sennilega nýjustu myndirnar af henni. 

Er búinn að setja þrjár þeirra inn á fasbókarsíðu mína.  


mbl.is „Eitt hættulegasta eldfjall Íslands“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumt má gera betur, en sumt er ekki hægt.

Áður en Rás 2 kom til sögunnar var Rás 1 eina útvarpsrásin á Íslandi og varð því að sinna því sem er sameiginlegt hlutverk beggja rása nú. 

Ég er nógu gamall til að muna eftir því þegar beinar útsendingar voru frá Hótel Borg þar sem danshljómsveitir spiluðu, en það var popptónlist þeirra tíma.

Upp úr 1950 naut blandaður þáttur Péturs Péturssonar, "Sitt af hverju tagi" mikilla vinsælda.

Eftirminnilegast var þegar Sigfús Halldórsson frumflutti þar "smell aldarinnar", Litlu fluguna.  

Kanaútvarpið og Radíó Caroline voru fyrstu samkeppnisaðilarnir í poppinu og enda þótt Ríkisútvarpið reyndi að svara með "Þætti unga fólksins" byrjaði RÚV að dragast aftur úr á þessu sviði.

Mörg af vinsælustu lögunum í Kananum heyrðust aldrei á Gufunni og á þessum árum pikkaði maður upp mörg af þeim lögum, sem síðar rötuðu með íslenskum textum inn á Gufuna eftir að hafa farið í hring. 

Allt frá þessum tíima gildir það um Gufuna að þrátt fyrir ómetanlegt menningarlegt uppeldishlutverk hennar má ævinlega gera betur. Og það má hún eiga að þar er stunduð mjög vönduð dagskrárgerð þar sem fólk gefur sér tíma til að tvinna saman fróðleik og tónlist, sem annars væri ekki sinnt og myndi ella falla niður til mikils tjóns fyrir íslenska menningu.  

En sumt er ekki hægt að breyta: Hin hliðin að RUV snýr að tæknimálum og útsendingarbúnaði. Um það fimbulfamba margir stanslaust á vefsíðum og skamma Ríkisútvarpið blóðugum skömmum fyrir að sinna dreifingunni illa.

En RUV getur í engu haft áhrif á það lengur, því að dreifikerfið var selt á sínum tíma einkaaðilum að kröfu sömu manna og nú bölsótast mest og kenna RUV um lélegt ástand þess og klykkja út með að segja það sé dæmi um vangetu ríkisreksturs.  

Fjargviðrast er yfir því að sendingar RUV náist ekki um mestallt land og leggja eigi RUV niður vegna þess að með þessu ófremdarástandi vanræki það öryggishlutverk sitt.

Ég hef hins vegar sannreynt á ferðum mínum um landið þvert og endilang, frá útnesjum til miðhálendisins, að útsending þess á langbylgju næst um allt land.

Og til þess að ná henni þarf ekki dýran né flókinn búnað. Ég næ útsendingunni á lítið útvarpstæki, sem fellur inn í lófa manns og er aðeins 14 x 8 x 2,5 sentimetrar að stærð.  


mbl.is Rás 1 þarf að vera ákafari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hestar eru helmingi of margir.

Mig minnir að Sigurbjörn Bárðarson hafi einhvern tíma sagt að hestar væru helmingi of margir á Íslandi. 

Helmingurinn mætti alveg verða sleginn af.

Á ferðum mínum í sumar um allt land hef ég séð slæm dæmi um gróðurspjöll vegna of margra hesta og of mikillar umferðar hesta sums staðar.

Á einum stað í nágrenni höfuðborgarinnar er afar illa farið land vegna langvarandi ofbeitar hesta.

Ég fjallaði um það í sjónvarðinu fyrir 20 árum en ástand landsins hefur bara versnað síðan þá.

Égveit um hliðstæð dæmi annars staðar, en Landgræðslan, sveitarfélög og nágrannar fá ekkert að gert vegna þess að í áratugi hefur enginn vilji verið á Alþingi til að setja lög, sem stöðva þetta landníð.

Þetta ástand er enn dapurlegra fyrir þá sök að íslenski hesturinn er eitt af því dýrmætasta sem land og þjóð á og ræktun hans og meðferð þorra hestaeigenda er til mikils sóma.

En einmitt þess vegna er meiri þörf á að þvo þennan blett af hestahaldi á Íslandi.  


mbl.is Umferð hesta takmörkuð í Reykjadal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband