Nei, nei, nei. Það getur ekki verið að "eitthvað annað" sé svona merkilegt.

Daglegir vitnisburðir úrlendinga um kynni sín af einstæðri náttúru Íslands varpa ljósi á þá þröngsýni, sem við Íslendingar höfum verið haldnir gagnvart henni um aldir.

Í okkar augum hafa hraun verið ljót, eldfjöllin hræðileg, víðátturnar með söndum, auðnum, vinjum og hrollköldum jöklum fráhrindandi, en þykkir skógar, "bleikir akrar og slegin tún" hámark fegurðarinnar.  

Enginn einn atburður hefur breytt eins mikið viðhorfi útlendinga til Íslands og gosið í Eyjafjallajökli 2010. Síðan kom Grímsvatnagosið árið eftir og hnykkti á því.

Vorið 2010 voru viðbrögðin hér heima við gosinu í Eyjafjallajökli samkvæmt rúmlega 1100 ára gamalli hefð, almennir kveinstafir og sjálfsvorkunn.

Ferðaþjónustan, hluti af því sem hafði verið í háðungarskyni kallað "eitthvað annað", "fjallagrasatínsla", "leið inn í torfkofana" o. s. frv., væri á leið í hundana á meðan stóriðja og virkjanir væru það eina sem gætu "bjargað þjóðinni."  

Að vísu bitnaði gosið mjög óþyrmilega á næstu nágrönnum þess og var full ástæða til þess að sýna þeim samúð. Það erfiða ástand stóð þó tiltölulega stutt yfir og innan árs hafði það allt unnist upp og vel það með alveg nýjum möguleikum í upplifunarferðamennsku. 

En mér sýndist frá upphafi vera ástæða til að hafa uppi kröftugt andóf gegn barlómnum hér á síðunni og fullyrða að aldrei fyrr í sögu landsins hefði landið og náttúra þess fengið jafn gríðarlega kynningu, sem myndi reynast lyftistöng fyrir okkur.

Samstarf mitt við erlent fjölmiðlafólk, ljósmyndara, kvikmyndargerðarmenn vegna þessara eldgosa sannfærði mig um það, hvaða möguleikar voru að opnast.  

En í þessu efni var talað fyrir jafn daufum eyrum hér á síðunni og í heilan áratug á undan frá því að allt var lagt í sölurnar fyrir stefnuna "áfram árangur - ekkert stopp", en þar var átt við áfram árangur við að framfylgja stóriðjustefnunni til hins ítrasta.

Nú, fjórum árum síðar, hefur ferðaþjónustan næstum því tvöfaldast, þetta sem átti að vera svo vonlaust af því að það væri "eitthvað annað."

Raunar eru um 99% starfa í þjóðfélaginu við eitthvað annað en störf í álverunum, en það er eins og engin leið sé að koma þeirri staðreynd á framfæri né heldur þvi að vegna nálægðar okkar við íslenska náttúru sjáum við alls ekki einstætt gildi hennar á heimsvísu, af því að okkur finnst hún svo hversdagsleg.  


mbl.is Einstök náttúra Snæfellsness
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frétt á Íslandi: Engin bjórdós á svæðinu.

Það þykir stórfrétt á Íslandi, að á útisamkomu hafi ekki fundist ein einasta bjórdós á mótssvæðinu eftir að mótinu lauk. 

Hvað hefur eiginlega komið fyrir landann? Sem hendir frá sér sígarettustubbum, karamellubréfum og hverju því smárusli sem vera skal, ef það hentar honum þá stundina? 

Erlendis, meira að segja í Ameríku, þar sem sakamálakvikmyndir gefa þá mynd, að þar sé enn meiri ómenning og sóðaskapur en hér tíðkast, er það reynsla mín af því að koma á stórar hátíðir, þar sem milljónir manna hafa verið á ferð, að ekki sést svo mikið sem karamellulbréf, sígarettustubbur eða bjórdós eftir jafnvel vikulanga hátíð. 

Í Bandaríkjunum, sem margir Íslendingar dýrka sem land hins óhefta og eftirsóknarverða frelsis, mætti ætla að alger lausung og frelsisdýrð ríkti í þessum efnum, en það er nú eitthvað annað.  

Ég spurði einu sinni mótshaldara milljón gesta móts í Bandaríkjunum, hverju þetta sætti, og hann glápti á mig undunaraugum.  

"Hvaðan kemur þú?" spurði hann. 

"Frá Íslandi," svaraði ég.

"Og hvers vegna spyrð þú svona spurningar?"

Nú fann ég að ég var kominn út í horn en reyndi að afsaka mig með því að á Ísland hefði verið numið í öndverðu af mönnum, sem undu ekki ófrelsinu í Noregi og því teldu margir það hluti af sjálsögðu frelsi í mínu landi að henda rusli þar sem þeir væru staddir, ef það hentaði þeim.

"En einhver verður þá að taka ruslið upp, samt sem áður" svaraði Bandaríkjamaðurinn.

"Já, en það er ekki okkar vandamál, heldur mótshaldaranna og opinberra aðlila," útskýrði ég.

"En þegar þú ályktar svona," svaraði Kaninn, "gleymirðu því að þeir sem á endanum hreinsa ruslið upp, eru líka fólk og þeir eiga rétt á því að njóta frelsis án þess að vera skikkaðir til þess að hreinsa upp eftir aðra. Og það er klár sósíalismi að velta afleiðingunum af tillitslausum gerðum einstaklinga yfir á aðra og taka það með sköttum af þeim, sem ekki báru ábyrgð á þessum siðlausu gerðum.  

Er ekki kennt í skólunum ykkar að frelsi eins endar þar sem frelsi annars byrjar?"

"Það hef ég aldrei heyrt fyrr" svaraði ég. "Þú ætlar þó ekki að segja mér að slíkt sé kennt hér í skólunum hjá ykkur"?

"Jú," svaraði hann. "Að minnsta kosti hér í Wiscounsin-ríki. Þann dag sem fólk myndi byrja að henda rusli frá sér hér, myndi þessi vinsæla milljón manna hátíð verða lögð niður."  


mbl.is „Ekki ein bjórdós á svæðinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misskilningur hjá jöklinum?

Þrátt fyrir flóð upplýsinga frá kuldatrúarmönnum um að loftslag hafi ekki hlýnað neitt í 14 ár, sé ekki að hlýna og allra síst af mannavöldum styttast jöklar landsins jafnt og þétt, enda kunna þeir ekki að lesa skrifin um kuldann.

Nú er kvartað yfir því að engar aðvörunarmerkingar séu við sporð Sólheimajökuls, sem hefur hörfað og lækkað stórlega, og þess vegna eru jökulstykki farin að falla í lónið.

En ef loftslag er frekar að kólna en hlýna eins og fullyrt er í ítarlegum skrifum um það, er engin ástæða til þess vera að gera ráð fyrir neinum breytingum á jöklinum, sem stafað gætu af hlýnun, heldur treysta því að jökullinn og jöklarnir hætti að haga sér svona heimskulega.

Verst er að ekki skuli vera hægt að kenna jöklunum að lesa svo að þeir taki mark á þeim, sem best vita um loftslagsmálin. 


mbl.is Óvissustig við Sólheimajökul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband