Hefur farið nærri spánni.

Fljótleg eftir upphaf blóðbaðsins á Gaza spáði ég því að í þetta sinn yrði ekki hætt fyrr en hátt í tvö þúsund Palestínumenn hefðu verið drepnir, eða að minnsta kosti mun fleiri en síðast, þegar þetta dundi yfir.

Ástæðan er einföld. Með hverri svona hrinu vex hatrið á milli stríðsaðila. Fyrir Ísraelsmenn virðist vera lágmark að drepa nokkra tugi Palestínumanna fyrir hvern drepinn Ísraelsmann.

Allir íbúar Gaza virðast vera skilgreindir sem óvinahermenn, börn, gamalmenni, fjölskyldur. Hundruð drepinna barna er skerandi staðreynd. En kannski eru þau skotmark af því að þar muni annars vaxa upp hatursfullir Hamasmenn sem þekkja ekkert nema blóð og limlestingar. 

Allir staðir á Gaza virðast líka skilgreindir sem hernaðarmannvirki, barnaleikvellir, sjúkrahús, húsakynni Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegra hjálparaðila.

Röksemdin er væntanlega sú að hver eldflaug, sem Hamas liðar skjóti upp geti drepið hvern sem er Ísraelsmegin og lent á hverju sem er.

En munurinn á eyðileggingarmættinum er óendanlega mikill, því að aðeins hefur einn fallið þeim megin fyrir eldflaugunum en nær allir fallnir Ísraelsmenn hafa verið hermenn úr hópi þeirra sem sendir voru inn á Gaza.

Það þarf töluvert til þess að Bandaríkjamenn fordæmi aðfarir Ísraelsmanna en nú virðist þeim nóg boðið.

En þetta eru bara orð en ekki gerðir. Magnleysi umheimsins virðist algert. Staðan er nefnilega flókin eins og og sést á þögn og aðgerðarleysi valdamanna í Arabaríkjunum umhverfis.

Þeir líta á Hamas sem hluta af ofsatrúarmönnunum, sem hafa farið geyst í Líbíu, Sýrlandi og Írak.

En hið grátlega er að vaxandi harka eykur mátt þessara samtaka vegna hatursins og heiftarinnar sem vaxa með hverri hrinu.

Í næstu hrinu virðist vera hægt að spá því að ekki verði hætt fyrr en 3000 liggja í valnum.  


mbl.is Eyðileggingin kemur í ljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfitt í íslenskri umferð.

Sparakstur og hagkvæmur akstur, sem einnig gerir umferðina greiðari og öruggari er afar erfiður í framkvæmd hér á landi, því að þannig aka Íslendingar yfirleitt ekki.

Mér finnst það skemmtilegt verkefni að reyna svona akstur, einkum vegna þess hve það getur verið fyndið á fylgjast með hinu almenna aksturslagi, sem er þessu alveg andsnúið.

Síðustu mánuði er ég einn af þeim tugum þúsunda bilstjóra sem koma margsinnis í viku akandi úr austurátt eftir Miklubrautinni í áttina að umferðarljósunum við Grensásveg.

Þegar um er að ræða tugþúsundir ferða flestra, sem eiga erindi þessa leið, mætti ætla að þeir huguðu að því hvernig hægt er að spara bensín, tíma og hemla með því að "lesa" umferðarljósin áður en komið er að þeim.

Tvær brýr liggja yfir Miklubrautina á þessum kafla og ef grænt ljós kviknar við Grensásveg áður en maður er kominn að þeim, lendir maður á rauðu ljósi áður en komið er að gatnamótunum.

Ef maður er kominn vestur fyrir austari brúna kemst maður yfir á grænu með því að halda góðum hraða.

En svo er að sjá sem að enginn pæli í þessu og allra síst í þeim möguleika, að sé maður hvort eð er orðinn of seinn til að ná að gatnamótunum, áður en rauða ljósið kviknar, er hægt að spara sé eldsneyti, tíma og hemla með því að hægja á sér það tímanlega og leyfa bílnum að rúlla í hlutlausum án þess að hemla þannig að grænt ljós kvikni í þeim svifum sem maður kemur að gatnamótunum svo að bíllinn renni ljúflega yfir án þess að hemlum hafi verið beitt.

Ef einhver umferð er, er þetta yfirleitt vonlaust, því að þeir sem eru á eftir manni, eru svo stressaðir og spenntir, að þeir troða sér fram fyrir mann, stundum fleiri ein einn, bara til þess eins að þurfa að reka hemlana niður og stoppa við ljósin, einmitt rétt áður en þau verða græn, og þurfa síðan að rykkja sér aftur af stað upp brekkuna.

Þannig tapast bæði tími, eldsneyti og möguleiki á að spara hemlana.

Eitt sinn var ég á leið suður í Hafnarfjörð og lét bílinn rúlla þannig að umferðarljósunum í Garðabænum að hann fór alltaf áreynslulaust yfir á nýkviknuðu grænu ljósi.

Maður á stórum og dýrum jeppa þoldi þetta ekki, heldur rykkti sér fram úr mér á hinni akreininni í hvert sinn sem hann sá ljós framundan bara til þess eins að þurfa að reka hemlana niður þegar hann kom að ljósunum, nokkrum bíllengdum á undan mér.

Og einmitt þegar hann stóð þar grafkyrr rúllaði ég fram úr honum í þann mund sem græna ljósið kviknaði.

Svona gekk þetta á öllum umferðarljósunum sem framundan voru alla leið suður í Fjörð og alltaf varð gaurinn á stóra jeppanum æstari og æstari yfir því að ég skyldi alltaf fara fram úr honum á hverjum ljósum!   


mbl.is Sparakstur reynir á heilabúið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband