Stefnir í óviðráðanlegt ástand ?

Manni líst ekkert á blikuna eftir ferð á hálendisslóðum í dag, annan daginn í röð. Utanvegaslóðirnar hrannast upp og það vantar ekki afsakanirnar, nú síðast í kvöld, samanber þetta samtal: 

"Þið hafið brotið lög með því að aka út fyrir veginn."

"Nei."

"Jú, þið hljótið að vita að það er bannað."

"Já, en við ókum út á slóð sem hefur verið farin áður."

"Þetta er ekki merkt eða viðurkennd slóð, heldur för eftir lögbrjóta eins og ykkur."

"Hvernig áttum við að geta séð það?"

"Með því að sjá muninn á leiðinni, sem er augljóslega fjölfarin og merkt með stikum. Þessi slóð er alveg ný og eftir lögbrjóta."

En þetta var ekki það eina. Frá því í gær hafði verið farið út fyrir veginn í einu fallegasta hrauni landsins til þess að spóla upp sléttu af gulum vikri á milli hraunkletta.  

Þetta voru ekki ein bílför heldur fjölmörg djúp og ljóst þannig að hin fallega gula slétta var eins hræðilega illa útleikin og hægt var í svörtum hjólförum í gulum vikrinum.

Á fjölmörgum stöðum á leið okkar mátti sjá ljót ummerki eftir akstur utan vega, þar sem leiðin lá um djúpa, stóra og langa polla, en landið virtist þurrara fyrir utan veginn.

Á tveimur af þessum ótal stöðum er nú búið að aka í ofaníburði þannig að hinir löngu pollar hafa verið fylltir upp.

Búið að setja upp stikur sem marka rétta leið og miða á þær með áletrunum, sem því miður var alls ekki hægt að lesa vegna þess að vindurinn feyktii þeim til og frá !

Um öll Bandaríkin, þetta mikla land frelsisins, sem svo margir Íslendingar telja að allt sé leyfilegt í, má víða sjá stór skilti þar sem ferðafólki er greint frá því að ef það kasti frá sér svo miklu sem sígarettustubbi eða karamellubréfi liggi 150 þúsund króna sekt við því.

Þetta er það eina sem dugar svo framarlega sem eitthvert eftirlit er með þessu.

Með þessu hafa hinir frelsiselskandi Bandaríkjamenn náð tökum á vandamálinu, enda endar frelsi hvers manns þar sem frelsi annnars byrjar.

Og það er réttur allra einstaklinga að náttúruverðmæti landsins séu ekki eyðilögð fyrir honum eða ánægja hans af umgengni við landið.

Ef sinnuleysið, stjórnleysið, aðgerðarleysið og nískan heldur hér áfram er þess kannski ekki langt að bíða, að slóðirnar utan merktra og viðurkenndra leiða verða orðnar svo margar að við ekkert verði lengur ráðið.

Þvi þá munu allir afsaka sig með því að segja: "Ég vissi ekki að það væri ólöglegt að aka þessa slóð, sem hér er þegar komin." 


mbl.is „Þeir stoppa bara í drullunni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband