Mini Cooper er 53ja ára, ekki 55.

Mini Cooper og Mini Cooper S komu fyrst fram árið 1961. Þess vegna getur þessi gerð Mini ekki átt 55 ára afmæli núna eins og sagt er ítrekað í tengdri frétt á mbl.is. 

Mini Cooper var ávöxtur af samvinnu Alec Issigonis, hönnuðar Mini, þess Mini, sem á 55 ára afmæli í ár, og John Cooper, sem var kappaksturbílasérfræðingur og sá möguleikana sem hinn upprunalegi Mini bjó yfir til þess að geta valdið byltingu í smábílaheiminum hvað snerti snerpu og hraða.

Upprunalega var Mini með 998 cc vél, en sú vél gaf bílnum meira en 130 kílómetra hámarkshraða, sem var 30-40 % meiri hraði en hjá smábílum af svipaðri stærð á þeim tíma.

Mönnum óaðii við þessu og létu því minnka vélina niður í 848cc og hámarkshraðann niður í 116 km/klst.

Eini örbíllinn, sem náði slíkum hraða þá var NSU Prinz 30, sem hafði 120 km hámarkshraða og var vinsæll meðal kappakstursmanna.

John Cooper kappakstursbílafrömuður, tókst að telja Issigonis á að framleiða Mini Cooper og Mini Cooper S, sem hófu sigurgöngu sína árið 1961. 

Mini Cooper S var með þá með tvöfalt meira vélarafl en venjulegur Mini, 1275 cc 77 hestaflla vél, sem spyrnti bílnum upp í 100 kílómetra hraða á innan við 9 sekúndum og gat skilað Mini upp í meira en 150 kílómetra hraða.

Framundan næstu ár var einstæð sigurganga þessa bíls í ralli og ökukepppnum af ýmsu tagi.

Finnskir rallökumenn eins og Timo Makinen þróuðu aksturstækni á 130 hestafla Mini Cooper, sem byggðist á því að aka bílnum á hámarksafli í gegnum beygjur en standa samt það mikið á hemlunum með vinstri fæti, að bíllinn dró afturhjólin en vélaraflið yfirvann hemlunina á framhjólunum.  

Með þessari aðferð var hægt að láta bílinn "flatreka" út á hlið í gegnum beygjur að vild með samspili hemla og vélarafls þannig að framhjólin drógu bílinn á nær fullu afli í gegnum beygjurnar en afturhjólin skrikuðu nægilega til að bíllinn héldist í "flatreks"-stöðu. 

Aðferðina var hægt að nota á öðrum kraftmiklum framdrifsbílum, en mér fannst best að kasta Renault 5 Alpine rallbílnum til með stýrissveiflum til að láta hann flatreka.  

 

 


mbl.is 55 ára afmæli Mini Cooper fagnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þráðurinn að ofan.

Ein af undistöðum ferðaþjónustunnar, sem gefur nú mest af sér í þjóðarbúið, er samgöngukerfið sem flutningar og ferðalög ferðamanna byggist á. 

Keflavíkurflugvöllur nýtur góðs af auknum tekjum af umferð, en innanlandsflugvellirnir ekki. Samt eru þeir nauðsynlegir fyrir ferðaþjónustuna og tekjur af henni.

Það er orðið ansi hart í ári þegar grípa þarf til þess að loka ódýrustu flugvöllunum vegna fjárskorts.

Flugið og mannvirkin sem því tengjast, eru þráðurinn að ofan svo að tekin sé líking af þekktri dæmisögu,  í þeim stækkandi vef, sem spunninn er í kringum ferðaþjónustuna.

Sé aðeins hugsað um að ná sem mestum peningum af ferðamönnum án þess að gefa neitt á móti til þess að bæta og auka þjónustuna við þá og vernda jafnframt náttúru landsins, mun það hefna sín.

Við svo búið má ekki standa.  


mbl.is Vantar fé til reksturs flugvalla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miklar draumfarir - hegðun dýra.

Í hundruðum flugferða milli Suðvesturlands og Sauðárflugvallar á Brúaröræfum undanfarinn áratug hefur flugleiðin legið oft yfir eða sitt hvorum megin við Bárðarbungu.

Smám saman hefur mikilleiki þessa næst hæsta fjalls Íslands seytlað æ dýpra inn í vitundina.

Staða þess í eldstöðvakerfi landsins er likust stöðu drottningar eða guðmóður í fjölskyldu eða röð eldstöðva, sem spannar allt frá Hrafntinnuskeri í suðri og norður undir Öskju, jafnvel allt norður til Herðubreiðar.

Hún virðist hvað eftir annað senda aðrar eldstöðvar til verka líkt og mafíuforingi og ferillinn undanfarin ár bendir til þess að hún hafi smám saman verið að búa sig og sína til mikilla verka.

Þetta leiddi af sér myndatökur af henni  og nágernni hennar skömmu áður en hún fór að hrista sig og skjálfa handa fyrir þremur vikum.

Ekki hefur dregið úr áhrifamætti þessa mikla fjalls, að ég hef fjórum sinnum ekið upp á bunguna og einu sinni lent flugvél á henni. Tilvist hennar sest í sálina.

En fjallið virðist geta haft áhrif á fleiri vegu á fólk. Fólk, sem hefur áður sýnt af sér dulræna hæfileika. spágetu og draumspeki, hefur haft samband við mig að undanförnu og sagt mér frá draumförum, sem boðað gætu mikil tíðindi, miklu meiri en áður hafa gerst.

Einnig fólk, sem hefur tekið eftir óvenjulegri hegðun dýra, til dæmis því að gæsir séu óvenju snemma að hafa sig á brott frá svæðum austan við Bárðarbungu. Það rímar við mína reynslu á Brúaröræfum þar sem ég hef aldrei séð eins fáar gæsir á flugi og nú.

Fréttir kvöldsins um áhyggjur jarðvísindamanna eru ekki draumfarir eða ósjálfráð viðbrögð í ætt við hrædd dýr, heldur blákaldur veruleiki mælinga og talna, sem stinga í augu.

Hvort þetta boðar jafn mikið og það virðist geta gert skal ósagt látið.

En mér finnst rétt að greina frá þessu, hvað sem koma mun í ljós.

 

P.S. Þess má geta að ekki hafa öll dýr eða fuglar farið af Brúaröræfum. Einn hefur bæst við, sjá mynd á facebook síðu minni af nýjum vini mínum, sem hefur gert sig heimankominn á Sauðárflugvelli nú siðsumars. 

 


mbl.is Líkur á stórtækum breytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband