Fjárskortur (níska) veldur fjártjóni.

Vegna fjárskorts, sem kalla má nísku öðru nafni, hefur þurft að loka miklu fleiri leiðum og stærri svæðum vegna Bárðarbungueldanna en annars hefði verið nauðsynlegt. 

Það þarf mannskap og peninga til að loka leiðum og halda uppi vörslu og til þess að einfalda viðfangsefnið hefur verið hyllst til að finna einföldustu og ódýrustu leiðirnar til lokana, en það hefur oft leitt til þess að lokunarhliðin eru miklu fjær hættusvæðinu en þörf er á.

Fyrir bragðið eru margar fallegar og áhugaverðar hálendisleiðir lokaðar vegna þess eins að hugsanlegt er talið að ferðafólk gæti læðst bakdyramegin um þær, ef svo má að orði komast, of nærri hættusvæðum.

Nefna má að til einföldunar er hálendinu á vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum skellt í lás við Kárahnjúkastíflu að austanverðu og við Möðrudal og Hrossaborg að norðanverðu.

Hægt væri að ná sama árangri með því að loka á Dyngjuhálsi við Álftadalsdyngju.

Með slíkum lokunum yrði hægt að halda opnum leiðum, sem hafa notið sín vel í bjartviðrinu, sem hefur ríkt að mestu á norðausturhálendinu síðustu þrjár vikur.

Sem dæmi má nefna Álftadalsleið, Brúardalaleið, Þríhyrningsleið og leiðinni í Grágæsadal.  

Til þess að flóð í Jökulsá á Fjöllum gæti komist inn á þessar leiðir eða inn á Sauðárflugvöll, þyrfti flóðvatnið að klifra upp á hálsa og fjöll.  

Sauðárflugvöllur er sem sagt að sjálfsögðu ekki á hættusvæði, en til þess að aka frá vellinum til byggða þarf samt að fá leyfi til þess að fara um lokunarhlið út af svæðinu!

Ferðaþjónustan skilar meira en 300 miiljörðum af gjaldeyri í þjóðarbúið í ár og því er ofangreint enn eitt dæmið um það að hrein níska á smápeninga vinni gegn henni. 


mbl.is Hættulegasti staður á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandræðaleg svör og svipbrigði sögðu mikið.

Augljóst var á svipbrigðum forsætisráðherra þegar Sigmar Guðmundsson spurði hann ágengra spurninga í Kastljósi kvöldsins varðandi mál Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að honum leið ekki vel, heldur lá við að hann engdist í vandræðunum við að svara þeim. 

Þetta var síst til þess að styrkja stöðu hennar ef það var ætlunin með þessari fumkenndu vörn, heldur þvert á móti.  

Um "fyrirvarana" og "prinsippin" varðandi matarskattinn má segja það að ef ætlunin er að einfalda skattkerfið með hækkun skattsins má alveg eins búast við því að mótvægisaðgerðirnar, sem gefið var í skyn að yrðu mótaðar í meðferð þingnefndar og þingsins verði til þess að flækja málið enn frekar.

Bæði þessi mál, mál Hönnu Birnu og matarskattshækkkunin virðast ætla að verða stjórnarflokkunum og stjórnarsamstarfinu erfið í skauti.  


mbl.is Fyrirvarar fylgdu samþykkinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáa grunaði þetta fyrir þremur árum.

Þegar uppreisn gegn Assad Sýrlandsforseta var komin á flugstig fyrir þremur árum vakti það ánægju Bandaríkjamanna og Breta, sem vildu gjarna að þessum spillta harðstjóra og óþæga ljá í þúfu þeirra um árabil yrði velt úr sessi. 

Uppreisnarmenn fengu því stuðning til að byrja með og ekkert var hlustað á aðvörunarorð Rússa vegna þess að þeir höfðu verið bandamenn og stuðningsmenn Assads um árabil. 

Uppreisnin var talin tákn um "arabíska vorið", byltingu lýðræðissinnaðra og nútímalegra Araba, sem færi um Líbíu, Egyptaland og fleiri Arabalönd.

Fljótlega fóru þó að koma fram efasemdir um að þetta væri rétt mat og nú er komið í ljós að það var beinlínis kolrangt.

Öfgafylltu Íslamistar, sem um getur, hafa reynst vera potturinn og pannan í uppreisninni og kenningar þeirra og aðgerðir minna helst á þá ógn sem heiminum stóð af nasistum á sínum tíma.

Það má líka minnast þess, að fagurgali Hitlers og falskur friðarvilji blekkti forystumenn Vesturveldanna á sínum tíma auk þess sem margir töldu það ekkert slæmt að hann yrði mótvægi við Stalín og kommúnistana í Kreml.  

Nú sjá menn það sama og þá, að gegn slíkum glæpamönnum sem nasistar voru og hinir hörðu 'Islamistar eru nú, duga engin vettlingatök.   

  


mbl.is Boðar loftárásir á Sýrland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband