Takmörk fyrir því að "gefa séns" ?

Sofandahátturinn, tilliitsleysið og eigingirnin hjá okkur Íslendingum í umferðinni er þekkt fyrirbrigði. 

Allir tapa á þessu en samt breytist lítið.

Eitt afbrigði eigingirninnar er að hvert og eitt okkar, sem venjulega sýnir ekki snefil af hugsun eða tilitssemi, geti tekið upp á því að eigin vali að að söðla alveg um einstaka sinnum og gera það sem heitir á okkar máli "að gefa séns" og þykir að sjálfsögðu afar göfugt og gott.   

En því miður má nefna dæmi má nefna um að þetta hafi þveröfug áhrif miðað við að sem hinn örláti bílstjóri ætlast til og auki enn meira á glundroðann í umferðinni. 

Á einbreiðum brúm á Íslandi gildir sú regla að sá eigi að hafa forgang sem fyrr kemur að brúnni. Þetta er svipuð regla og gildir víða í Bandaríkjunum um forgang á gatnamótum.

Sama regla gildir þar sem tvær akreinar verða að einni.

Oft gerist það hins vegar að einhver bílstjóri tekur upp hjá sér að verða örlátur og "gefa séns", stöðva "tannhjólið" eða "rennilásinn" í umferðinni, þar sem aðrein mætir akrein, og valda með því vandræðum og öryggisleysi.

Einnig að "gefa séns" á brú þannig að reglan "fyrstur kemur fyrstur fær" er brotinn og ringulreið skapast.

Eitt sinn ók ég á eftir stórum sendibíl eftir Álfheimum, þar sem græn eyja var á milli tveggja tvöfaldra akbrauta, hvorri í sina áttina.

Allt í einu hægir sendibíllinn á sér og stöðvast inni við grænu eyjuna, líkt og hann hafi orðið bensínlaus eða bilað.

Ég beygði þá til hægri og ók áfram meðfram honum. Birtist þá ekki allt í einu við hægra framhorn sendibílsins kona með barnavagn og gangandi barn á undan vagninum.

Á örskotsbragði sveigði ég til hægri og ók áfram, enda of seint að hemla.

Skömmu síðar fékk ég símtal frá öskureiðum manni, sem skammaði mig fyrir að hafa valdið lífshættulegu ástandi á götunni með því að stöðva ekki bíl minn fyrir aftan hans bíl á meðan hann var að "gefa vesalings konunni séns". 

Þetta var sendibílstjórinn góði.  

Ég benti honum á að konan hefði verið í aðeins 20 metra fjarlægð frá merktri gangbraut, sem lægi yfir götuna, en ákveðið að stytta sér leið með því að aka barnavagni yfir tvær tvöfaldar akbrautir og græna graseyju og hafa gangandi barn með sér.

Sendibíll hans hefði skyggt á konuna og börnin og mér verið ómögulegt að vita það að sendibílsstjórinn fyrir framan mig hefði tekið að sér allsherjar umferðarstjórn til að styðja konuna í lögbroti sínu.

Með framferði sínu hefði það einmitt verið konan með dyggri aðstoð hans sem hefði valdið hættu á götunni.  

En sendibílstjórinn sat fastur við sinn keip: 

"En við eigum alltaf að sýna tillitssemi og gefa séns í umferðinni þegar við getum og hjálpast öll við það í stað þess að þjösnast áfram og valda stórhættu eins og þú gerir" svaraði hann. 

Og með þeim orðum endaði samtal okkar.  

   


mbl.is Gæsir ollu fjögurra bíla árekstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurningin um mismunandi mikið afsal fullveldis.

Sjálfstæðissinnar í Skotlandi lögðu á það áherslu í kosningabaráttu sinni að kosningar stæðu aðeins um það hvort landið yrði áfram hluti af Stóra-Bretlandi en ekki um aðra samvinnu Skota á alþjóðavettvangi. 

Ef Skotland yrði sjálfstætt yrði það áfram í NATO, áfram í ESB, áfram með enska pundið og áfram aðilar að margvíslegum alþjóðasáttmálum, þar sem þjóðirnar afsöluðu sér ríkisvaldi að hluta til alþjóðasamtaka.

Sambandssinnar töldu sumt af þessu óvíst, eins og til dæmis með það að nota enska pundið.

Þegar við Íslendingar stofnuðum lýðveldi 1944 afsöluðum við sama ár hluta af ríkisvaldi okkar til Alþjóða flugmálastofnunarinnar, til Sameinuðu þjÓðanna 1946, NATO 1949, EFTA 1970, EES 1994.

Aðild að Sþ og Evrópuráðinu gerði það að verkum að við urðum aðilar að margvíslegum sáttmálum á sviði hafréttar-, mannréttinda- siglingamála- og dómsmála.

En rofin á þjóðhöfðingjatengslum við Danmörku og stofnun sjálfstæðs lýðveldis, sem gulltryggði þá alþjóðlegu viðurkenningu á fullveldi landsins, sem væri jafnrétthátt fullveldi annarra þjóða, var langstærsta atriðið fyrir okkur.

Sá er munurinn á nær einróma ákvörðun okkar 1918 og 1944 og úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Skotlandi.  

Þótt Skotar muni fá aukin sjálfsréttindi eftir kosningarnar nú, meðal annars með tilliti til lítils atkvæðamunar, verða þau mun minni en annars hefði orðið.  


mbl.is Skotar hafna sjálfstæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband