Dæmi um ógöngur varðandi íslenskan eignarétt.

Aldrei hafa hrannast upp jafnmörg vandræðamál varðandi eignarrétt hér á landi og sumar. Á þetta sérstaklega við um íslenskar náttúruperlur sem eru undirstaða þess atvinnuvegar sem nú er orðinn stærstur hér á landi. 

Ástandið við Jökulsárlón er nýjasta dæmið um þetta, en við Mývatn, Kerið og á fleiri stöðum blasa við þær ógöngur sem gildandi lög um eignarétt hafa leitt okkur út í.

Dæmin eru raunar miklu fjölbreyttari en virðist í fljótu bragði. Sveitarfélög með örfáa íbúa hafa mikinn hluta af valdinu til þess að ráðstafa ómetanlegum náttúruverðmætum á heimsvísu þannig, að þau séu eyðilögð í þágu mikilla skammgróða og einkagróðahagsmuna.

Oft eru þessi fámennu byggðarlög í engri aðstöðu til að fást við ofurvald erlendra stórfyrirtækja sem eruu því vön í þriðja heiminum að hlunnfara heimamenn.

Nokkur hundruð manns í einu sveitarfélagi hafa vald til að koma í veg fyrir hagkvæmustu vegaframkvæmd á Íslandi með því að neita að setja veginn í gegnum sveitarfélagið þar sem þjóðleiðin milli Akureyrar og Reykjavíkur styttist um 14 kílómetra.

Sem þýðir það að það kostar 3000 krónum meira en ella fyrir hvert ökutæki að aka fram og til baka í gegnum sveitarfélagið.    


mbl.is Gert að fjarlægja eignir frá lóninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðmundar- og Geirfinnsmál Norður-Karólínu?

Dómsmorð, sem framið var í Norður-Karólínu fyrir 30 árum, byggðist á því að fyrir hendi var lík, ummerki og líffsýni, hugsanleg ástæða til morðs og játningar hinna sakfelldu. Nú kemur í ljós að þeir voru saklausir. 

Dómar yfir sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum fyrir 37 árum byggðust ekki á nema einu atriði af þeim fjórum sem nefnd eru hér að ofan.

Í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum fundust aldrei lík, engin ummerki eða lífssýni, engin ástæða til morðsins, engin sönnun um að sakborningar hefðu verið á morðstöðunum og ekkert morðvopn, aðeins margþvældar og mótsagnakenndar játningar sem fengnar voru fram með margfalt lengri og aðgangaharðari þvingunum og harðræði en í málinu í Norður-Karólínu og voru í raun ólöglegar pyntingar, sem ekki eiga að líðast í siðuðu vestrænu samfélagi.

Samt vefst það enn fyrir okkur að hreinsa þetta mál út af borðinu svo að afmáður verður sá blettur á íslensku samfélagi, sem það er.  


mbl.is Sátu saklausir inni í 30 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarastríð eru oft flókin.

Í borgarastyrjöldum er ástand mála oft mun flóknara en í hefðbundnum styrjöldum, þar sem ríkin, sem takast á, hafa gefið út gagnkvæmar stríðsyfirlýsingar.

Ýmislegt af því, sem nú má sjá í Austur-Úkraínu, minnir á sumt af því sem einkenndi Spænsku borgarastyrjöldina 1936-1939.

Þó er þar munur á hvað varðar það, að í spænsku styrjöldinni var hvorugur stríðsaðilinn aðskllnaðarsinni, heldur var gerð uppreisn innanlands gegn rétt kjörinni ríkisstjórn í landinu. 

En frá mörgum öðrum löndum fóru "sjálfboðaliðar" til að taka þátt í styrjöldinni.

Þjóðverjar og Ítalir studdu Falangistaher Francos en Sovétmenn studdu einkum Lýðveldisherinn og allar þessar þjóðir sendu hergögn til landsins auk "leiðbeinenda".

Á þessum árum vildi enginn stofna til átaka sem gætu leitt til Evrópustyrjaldar eða heimsstyrjaldar, og Bretar og Frakkar reyndu að halda sig til hlés.

Hitler og Mussolini telfdu hins vegar djarft og fóru eins langt og þeir gátu, án þess að um beina stríðsþáttöku væri að ræða. Illrænd var hersveit Þjóðverja, sem meðal annars gerði hina grimmilegu loftárás á þorpið Guernica.

Í styrjöldinni fengu Þjóðverjar tækifæri til að þróa hergögn sín, tól og róttækar nýjungar í hernaðarlist sem lögðu grunninn að "leifturhernaðir" ("blitzkrieg") sem var grunnurinn að sigurgöngu þeirra 1939-41.

Þátttaka Hitlers og Mussolini í Spánarstyrjöldinni reyndi á þanþol Vesturveldanna en þeir gengu eins langt og unnt var án þess að Evrópustyrjöld brytist út.  

Stalín dró sína menn út úr átökunum á Spáni þegar sigur Falangista var fyrirsjáanlegur.

Átökin í Úkraínu eru hernaðarlega "öfugu megin" í landinu fyrir NATO og Vesturveldin, þ. e. í austurhlutanum og vígstaðan því töpuð nema með því að taka allt of mikla áhættu.

Pútín gætir þess að fara ekki lengra í stuðningnum en sem nemur því minnsta sem hægt er að komast af með til að hafa örugglega vinninginn.

Það virðist stefna í það að aðskilnaðarsinnar hafi sitt fram.

Nú eru uppi raddir um það í Vestur-Evrópu að læra af mistökunum, sem fólust í eftirgjöf fyrir landakröfum Hitlers á Munchenarfundinum 1938.

En hér á Vesturlöndum vill það oft gleymast að í Rússlandi eru líka uppi raddir um að læra af þeim mistökum á árunum fyrir innrás Þjóðverja í Sovétríkin að leyfa hinu vestræna herveldi þess tíma að skapa sér leppstjórnir og bandamenn í löndum Austur-Evrópu sem ógnuðu öryggi Rússlands þá, rétt eins og Pútín finnst að NATO geri nú í sömu löndum.    


mbl.is Telur Úkraínuher sigraðan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband