Enn nokkrir dagar í ný tíðindi af ánni.

Misskilingur komst á kreik í fréttum gær þegar sagt var að hraunið myndi fara yfir vestasta hluta Jökulsár á Fjöllum á einum sólarhring.

Hið rétta var að um var að ræða vestustu kvíslina af mörgum í þessum hluta árinnar og að það tæki að minnsta kosti nokkra daga fyrir hraunið að komast yfir ána.

Þetta blasti við úr lofti þegar komið var að ánni í hádeginu í gær.

Auk þess kólnar hraunið við snertinguna við ána og myndast fyrirstaða þannig að hraunstraumurinn leitar að miklu leyti áfram meðfram ánni.

Hinum megin við þennan hluta árinnar er bakki, svo að hugsanlega munu sprengingar aukast og byrja að myndast gjall, ef hraunið nær að komast alla leið yfir.

En það verður ekki strax, jafnvel þótt gosið haldi áfram með sama krafti og er á því nú.


mbl.is Ekki dregur úr gosinu í Holuhrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn af merkustu bílum bílasögunnar.

Á þriðja áratug síðustu aldar voru framleiddir nokkrir aldrifs fólksbílar, bæði rússneskir og japanskir.

En Willysjeppinn braut blað að því leyti að hann var fyrsti fjöldaframleiddi fólksbíllinn ef hægt var að gefa jafn litlum, höstum og grófgerðum bíl það nafn.

Á Íslandi byggðu menn furðu stór hús á þennan bíl og í nokkur ár var hann algengasti bíllinn hér á landi.

1947 hófu framleiðendur hans smíði á stærri aldrifsbil, sem var á stærð við meðalstóran fólksbíl og var lúxusbíll í 4x4 flokknum næstu ár á eftir, en hins vegar sjaldgæfur vegna tollalaga sem gáfu ríkulegan afslátt af Willysjeppanum og síðar Land Rover og Rússajeppanum vegna ákvæða um hámarks lengd á milli fram- og afturöxla.

Allir þessir bílar voru með höstum blaðfjöðrum, en Rússajeppinn var í sérflokki með það hve mjúkar blaðfjaðrir hans voru.

Næsta bylting var Ford Bronco 1966 sem var með gorma að framan og því mun þýðari en vestrænu keppinautarnir.

Áfram var haldið að smíða aldrifsbíla með blaðfjöðrum, meira að segja Jeep Wagoneer lúxusjeppann, sem var með þessar fjaðrir alla sína tíð langt fram eftir öldinni.

Range Rover var hins vegar bylting, með mjúka gormafjöðrun bæði að framan og aftan og meira að segja mýkri en flestir venjulegir fólksbílar. Lúxusfólksbíll með lygilega torfærugetu.

Hann var með læsanlegu sídrifi og til þess að auka torfærugetu hans var fjöðrunin höfð afar löng og án nokkurra jafnvægisstanga.

Þess vegna hallaðist hann geigvænlega í kröppum beygjum.

Ég prófaði nýlega torfærugetu 41. árs gamals Range Rovers á 38 tommu dekkjum, sem ég á, með því að fara með hann í torfæru þar sem leiðin var afar ójöfn svo að sums staðar stóð bíllinn að mestu á tveimur gagnstæðum hjólum horn í horn.

Síðan ók ég öðrum gömlum fornbíl, litlum 2ja manna Hilux sömu leið.

Sá bíll er með læsanlegum öxlum og í ljós kom að hann spólaði með tvö hjól á lofti og komst ekki þessa leið nema að öllum hjólum væri læst.

Ranginn át þessa leið upp til agna án slíkra driflæsinga að framan og aftan, því hann "sendi" lausu hjólin niður til jarðar svo að þau fengju grip án læsinga.

Margt fleira mætti segja um Range Rover en ég læt þetta nægja.  


mbl.is Fyrsti Range Roverinn falur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband