Fjórhjóladrifið er gott en þarf aðgæslu.

Tvö orð hafa verið felld í gildi með ofnotkun hér á landi, orðin frábær og jeppi, eins og minnst hefur verið á áður hér á síðunni. Sönghofs-dalur

Flesta svonefndra jeppa, jepplinga eða sportjeppa, sem seldir eru hér á landi, skortir veghæð þegar þeir eru hlaðnir, og þarf því sérstaka aðgæslu ef ekið er á erfiðum slóðum.  

Fjórhjóladrif er hins vegar afar nytsamlegt hér á landi á vegakerfinu sjálfu og því fagnaðarefni að bílaframleiðendur skuli ekki hörfa meira til baka en orðið er varðandi það, því að á sumum svonefndum sport"jeppum" sem nú eru í boði, er fjórhjóladrif ekki einu sinni í boði. 

Þetta kom vel í ljós á leið til Akureyrar í gærkvöldi í hálku og hríð á síðari hluta leiðarinnar. 

Á fundi Ferðafélags Akureyrar í kvöld verður brugðið upp ýmsum myndum af stöðum norðan jökla, sem eru afar vel geymd leyndarmál. 

Myndin hér á síðunni er einmitt af einum þessara staða á norðurhálendinu, sem ekki er einu sinni merktur með nafni á nokkru korti, en stendur til að gera skil í einum Ferðastikluþáttanna, sem verða á dagskrá á útmánuðum. 


mbl.is BMW X6 frumsýndur hjá BL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndir eru vísindaleg og sagnfræðileg gögn.

Ragnar Axelsson lýsir vel hlutskipti fjölmiðlamanna þegar stórir atburðir verða, og varðandi öflun mynda lærðu menn fyrir vestan af mistökunum í Súðavík, þar sem engum var leyft að fara. 

Meginatriði myndatöku eru einföld og eru í tveimur skrefum:

1. Það á að taka eins mikið af myndum og mögulegt er. Enginn veit fyrirfram hverjar þeirra hafa mest gildi fyrir rannsóknir á atburðum og fyrir framtíðina. 

2. Aðalatriðið: Að taka ákvörðun um hvaða af myndir er birtar, hvernig og hvenær. Sumar er rétt að birta ekki fyrr en eftir 100 ár. 

Kvikmyndir og ljósmyndir eru ekki bara vísindaleg gögn heldur hluti af heimildum um sögu lands og þjóðar. 

Á Flateyri voru í ljósi mistakanna í Súðavík, valdir þeir reyndustu í hópi myndatökumanna, Ragnar Axelsson ljósmyndari og Friðþjófur Helgason kvikmyndatökumaður, til þess að taka myndir á vettvangi frá byrjun fyrir alla fjölmiðlana. Það reyndist vel. 

Á síðustu árum hefur orðið afturför hvað þetta varðar. Hverjum myndi detta í hug að banna vísindamönnum að fara inn á hamfarasvæði en láta í staðinn fjölmiðlamenn vinna störf þeirra? 

En það er hliðstætt því þegar björgunarsveitarmenn og vísindamenn, sem eiga alveg nóg með sín mikilvægu störf, eru einir á svæðinu en ljósmyndurum og kvikmyndatökumönnum bannaður aðgangur. 


mbl.is Verða að fá að skrá söguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En Íslendingar eru áfram með dollaraglampa í augunum.

Grænlendingar standa frammi fyrir nýjum veruleika í stað þess sem var nýr fyrir örfáum árum þegar þá dreymdi um að verða rík þjóð vegna gríðarlegra fjárfestinga stórra erlendra olíufyrirtækja og málmfyrirtækja. Nú kippa þessi erlendu fyrirtæki að sér hendinni. 

Á Íslandi hefur hins vegar ekki heyrst um neitt svipað. "Heimshöfn" í Finnafirði eða jafnvel Loðmundarfirði, "miðstöð sjóflutninga á Norður-Atlantshafi", jarðgöng og hraðbrautir frá olíuhöfnunum um þvert og endilangt hálendið eru enn á dagskrá hjá okkur svo að dollaraglamparnir skína úr augum hér á landi. 


mbl.is Gefast upp á olíuleit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki skoðanakönnun og langt til kosninga.

Tæplega hálft annað ár er til forsetakosninga. Það er mjög langur tími í stjórnmálum. 

1967, 1979 og 1995 hefði engan órað fyrir þeim úrslitum sem urðu í kjöri síðustu þriggja forseta 1968, 1980 og 1996.  Raunar hefði engan órað fyrir því fimm mánuðum fyrir þær kosningar hver sá yrði í framboði sem yrði forseti. 

Þar að auki er ekki hægt að sjá að greiningin, sem nú er flaggað með skiptingu kjósenda í annars vegar þá sem eru með sjónarmið sjötugra og hins vegar þá sem eru yngri, hafi falið í sér sérstaka skoðanakönnun um fylgi hugsanlegra forsetaframbjóðenda, enda liggur ekkert fyrir um það hverjir það verða.

Þar að auki er það mikil einföldun og hæpið að draga kjósendur í dilka eingöngu eftir aldri. 


mbl.is Ólafur myndi tapa fyrir Jóni Gnarr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamli brandarinn er ónýtur.

Nokkrum sinnum kom það fyrir í erlendum kvikmyndum eða sögum, að þegar finna þurfti eitthvað fyndið og viðeigandi um refsingu eða stöðulækkun viðkomandi var sagt að hann yrði sendur til Íslands. 

Ísland var ekki eina landssvæðið sem nothæft var til þessa. Þannig var það mjög umtalað hve svakalega Molotov einn af helstu ráðamönnum Sovétríkjanna hefði verið refsað með því að gera hann að rafstöðvarstjóra í Síberíu. 

Síðasttalda atriðið, Síbería, er enn í gildi, en Ísland er það ekki lengur. Nú er það spennandi að vera sendur til Íslands og þarf ekki einu sinni valdboð til, því að frægustu persónur heims sækjast eftir því að eyða til þess bæði tíma og miklum fjármunum að koma hingað og upplifa einstæða íslenska náttúru, land og þjóð. 


mbl.is „Sjáumst á Íslandi!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband