Hinir ósnertanlegu, - "the untuchables".

Við Helga komum til bæjar í Klettafjöllum í Koloradó fyrir rúmum áratug, sem heitir Avon og setti sér það takmark með atbeina Geralds Fords, fyrrum Bandaríkjaforseta, sem þá bjó þar, að komast fram úr Aspen sem Mekka skíðamanna. 

Íbúarnir lýstu því fyrir okkur stórhneykslaðir hvernig krónsprinsinn af Sádi-Arabíu hegðaði sér í nýlegri heimsókn þangað. 

Tók hótel með 100 herbergjum á leigu fyrir sig og hirð sína, notaði þyrlur og glæsibíla í hrönnum og var í hverfi efnafólks, sem er sérstaklega afgirt með öryggisverði.

Einn Kaninn þarna svaraði spurningum mínum öðruvísi en hinir, benti á lúxusjeppana, sem stóðu í röðum á bílastæðinu þar sem við vorum og sagði:

"Þetta verður að vera svona. Hann heldur þessum bílaflota okkar og ameríska lífsstílnum uppi. Með því að hætta að fara á skíði í Alpafjöllum og koma hingað í staðinn færir hann okkur hér í Avon mikla viðurkenningu, sem við þurfum nauðsynlega á að halda til að komast í fremstu röð. Þetta eru kaup kaups, báðir aðilar græða peninga." 

Upplýst hefur verið hvernig ráðamenn í Sádi-Arabíu áttu stærstan utanaðkomandi þáttinn í að fella Sovétríkin á valdatímabili Ronalds Reagans. Þeir einfaldlega juku framboðið af olíu á heimsmarkaði nógu mikið til að verðfall á olíunni kæmi olíuútflutningsríkinu Sovétríkjunum á kné.

Þeir eru að gera nákvæmlega það sama núna fyrir Bandaríkin og Vesturlönd til að koma Pútín á kné. Að launum fá þeir afskiptaleysi okkar gagnvart stórfelldum mannréttindabrotum, alræði og kúgun í Sádi-Arabíu.

Þeir eru "The untuchables", hinir ósnertanlegu, enda af nógu að taka fyrir lýðræðisþjóðirnar að verjast hryðjuverkamönnum annars staðar og hafast lítið sem ekkert að á meðan samtök eins og Boko Haram drepa og limlesta þúsundir múslima í Nígeríu, því að eins og Einar Björn Bjarnason hefur bent á í bloggi sínu, eru nær allir þeir, sem hinir morðóðu múslimsku öfgamenn drepa í Nígeríu og í "Ríki Íslams", aðrir múslimar.   


mbl.is Kona hálshöggvin fyrir morð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurning um eðli máls og skynsamlegar reglur.

Sú var tíðin þegar skíðafimi í formi heljarstökka og svipaðra kúnsta var að ryðja sér til rúms að háværar raddir voru uppi um að banna allt slíkt og gera refsivert vegna þess hve hættulegt þetta athæfi væri. 

Smám saman komst samt ákveðið form á þessa íþrótt og þrátt fyrir ákveðna áhættu sem tekin er, var það niðurstaðan, að slysatíðnin hjá þeim sem stóðu rétt að æfingum, þjálfun og keppni, væri ekki það meiri en af hefðbundinni skíðaiðkun að hrein boð og bönn væru réttlætanleg. 

Það tók nokkur ár að brjótast í gegnum fordómamúr varðandi keppni í bílaralli hér á landi og virtist engu skipta, þótt reynt væri að sýna fram á að í öðrum löndum væri slík keppni komin í fast og viðurkennt form sem fæli ekki í sér meiri slysatíðni en í flestum öðrum íþróttagreinum. 

Júdó varð að ganga í gegnum ákveðið fordómatímabil hér á landi og má nefna alls konar mótbárur varðandi "hengingartök" og fleira sem sagt var gefa slæmt fordæmi, auk þess sem brögð sem enduðu með því að fella andstæðinginn harkalega til jarðar voru harðlega gagnrýnd. 

Flokkur júdómanna, sem setti upp skemmtilega sýningu til að sýna íþróttina á sviði, sýndi fram á að harðir dómar á íþróttina áttu ekki við rök að styðjast.  


mbl.is Bannað í Bláfjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markatölur úr fortíðinni, öfugar þó.

Eftir að reglum handboltans var breytt til að auka hraða leiksins og spennu með því skylda ekki lið, sem fær mark á sig, til þess að byrja frá miðju eftir að andstæðingarnir eru komnir til baka, hækkuðu markatölurnar um 50% að meðaltali. 

Undir venjulegum kringumstæðum á lið, sem fær aðeins á sig 24 mörk, að eiga ágæta sigurmöguleika. 

En það var svo langt frá því að það væri nóg í kvöld. Fróðlegt væri að vita hve mörg ár eða jafnvel áratugir eru síðan íslenskt handboltalandslið hefur skorað færri mörk í einum leik. 

Leikurinn í kvöld minnir óþyrmilega á landsleik í kringum 1970 þegar gerð var einhver mesta breyting allra tíma á landsliðinu, og við unnum Dani í fyrsta sinn með ótrúlegri markatölu, 15-10. 

En miðað við reglurnar, sem þá voru, og miklu færri mörk skoruð að meðaltali, er það álíka markatala og nú, og meira segja nákvæmlega sama hlutfall, 3:2.

En því miður öfug fyrir okkur, stórtap okkar manna í stað stórsigurs þá.

Stærstan þátt í 15:10 sigrinum átti nýr og kornungur landsliðsmarkvörður okkar, Ólafur Benediktsson, sem varði svo meistaralega, að hann fékk strax viðurnefni, Óliver.

 

Í leik okkar við Svía nú var það sænski markvörðurinn sem var Óliver þeirra. 

Ólafur "Óliver" var síðasti íslenski markvörðurinn, sem gat varið hörkuskot niðri við gólf út við stöng með því að kasta sér niður í hornið með höfuðið og höndina á undan skrokknum svipað og knattspyrnumarkvörður.

Mig minnir að síðasti danski markvörðurinn sem gat þetta og gerði með árangri hafi heitið Mortensen eða eitthvað líkt því.

 

 

 


mbl.is Lentum á vegg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband