Presley kom hvorki nálægt hönnun JetStar né Convair 880.

Elvis Presley var og verður rokkkóngurinn þótt ekki semdi hann lög í líkingu við Lennon og McCartney. Honum var samt nógu mikið til lista lagt til að bera kóngstitilinn.Lockheed Jetstar 

Á tengdri frétt segir að hann hafi hannað tvær einkaþotur sínar. Það er nú kannski full mikið í lagt, því að flugélahönnuðir Locheed verksmiðjanna hönnuðu Lockheed JetStar og hönnuðir Convair áttu heiðurinn af Convair 880. Convair 880

Á hinn bóginn má ætla af myndum af innréttingu þotnanna, að Presley hafði í sér hæfileika góðs innanhússarkitekts þótt ekki lyki hann háskólanámi i þeim fræðum. 

Þótt rekstur svona þotna sé stjarnfræðilega dýr fyrir einstakling sýnist Presley þó hafa búið yfir ákveðnum hæfileikum varðandi rekstur flugvéla, því að ef treysta á því að þær séu til taks, þurfa þær helst að vera þrjár og ekki færri en tvær. 

Báðar fyrrum einkaþotur Presleys eru fyrir löngu orðnar úreltar, hvað vélbúnað snertir, en það er hins vegar þekkt fyrirbrigði, að á gamlar flugvélar eins og DC-3 og Beechcraft 18 séu settir nýtískulegir hreyflar með aðferðum sem flugmálayfirvöld hafa viðurkennt og samþykkt. 

Ekki liggur fyrir hvort viðurkenndar breytingar á JetStar og Convair 880 í þessu efni séu fáanlegar og verður að telja það frekar ólíklegt. 


mbl.is Einkaþotur Presley til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðhetjur smáþjóða.

Finnar hafa löngum haft lag á því að eignast stórkostlega afreksmenn í íþróttum sem hafa varpað ljóma á landið. 

Á öðrum og þriðja áratug síðustu aldar voru "Fljúgandi Finnarnir" Nurmi og Kolehmainen yfirburðamenn í millivegalengdar- og langhlaupum, einkum Nurmi, og vörpuðu ljóma á land sitt og þjóð, sem nýlega hafði fengið sjálfstæði og þurfti að sanna sig í samfélagi þjóðanna.

Á Ólympíuleikunum í Helsinki 1952 lyftu þeir saman kyndli til að kveikja Ólympíueldinn.  

Að því leyti var hlutverk þeirra svipað og hlutverk Clausensbræðra, Huseby, Torfa, Vilhjálms Einarssonar og Alberts Guðmundssonar, á fyrstu árunum eftir lýðveldisstofnun, þegar Íslendingar þurftu á því að halda að stimpla sig inn sem gjaldgeng þjóð á alþjóðavettvangi.

Á Ólympíuleikjunum 1972 vann Lasse Viren hug og hjörtu allra og endurvakti, ásamt rallökumönnum Finna, hugtakið "Fljúgandi Finnarnir" með því að falla á hlaupabrautinni í 10 kílómetra hlaupinu, og lenda aftast í hópnum, en standa upp og hlaupa fram úr öllum til sigurs og nýs heimsmets.

Á þennan hátt getur afreksfólk sem einstaklingar, eins og Björk Guðmundsdóttir, gert ómælt gagn fyrir smáþjóðir og örþjóðir eins og Finnar og Íslendingar eru.  


mbl.is Stökkvari sem missti fótanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostir og gallar á Skólavörðuholti.

Síðustu árin hefur verið að myndast íslensk hliðstæða við þá staði í erlendum stórborgum þar sem eru stórar og skipulegar flugeldasýningar á áramótum. 

Sú íslenska er þó ólík öllu öðru á byggðu bóli vegna þess hve hún er óskipulögð, frjáls og stórbrotin í senn. 

Jafnvel Íslendingar, sem ekki hafa áður upplifað ástandið við Hallgrímskirkju, eru að uppgötva svolítið nýtt. 

Spyrja má hvort staðurinn sé sá heppilegasti í þessum efnum.

Kosturinn við Skólavörðuholtið er sá að þangað er stutt að ganga frá verustöðum ferðamanna.

Ókosturinn er sá að það er byggð allt í kringum staðinn sem skyggir á mestan hluta sjóndeildarhringsins, þannig að mjög takmarkað útsýni er út fyrir svæðið. 

Þar með missa til dæmis útlendingarnir af því að sjá nógu vel yfir þetta einstaka íslenska uppátæki nema þeir séu þeim mun meira á ferðinni um borgina jafnframt því sem þeir staldra lengst við hjá Leifi heppna. 

Kannski myndi svæðið við Perluna henta betur, gefa rými bæði á staðnum sjálfum og fyrirtaks útsýni yfir skoteldaæðið í borginni. 


mbl.is Sjónarspilið á miðnætti séð úr lofti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband