140 ár afturábak! Yfirgengileg þráhyggja!

Það liggur við að maður klípi sig í handlegginn til að vera viss um að það sé rétt að enn þann dag í dag eigi að fara að eyða stórfé í að undirbúa virkjanir á stöðum eins og Hveravöllum og á vatnasvæði Jökulsár á fjöllum, vatnasvæði sem býr yfir fjölbreyttasta og magnaðasta eldvirka svæði í heimi samkvæmt rannsókn Magnúsar Tuma Guðmundssonar jarðfræðings.100 Great Wonders, bók

Varla væri verið að gera þetta nema vegna þess að þeim, sem fara nú á fulla ferð við þessi ósköp, ætla sér að ganga í skrokk á hverri þeirri náttúruperlu á Íslandi sem þjónar virkjanafíkn þeirra.

Það kemur fram í því að færa hverja perluna af fætur annarri úr verndarflokki (sem ætti að heita verndarnýtingarflokkur) yfir í nýtingarflokk (sem ætti að heita orkunýtingarflokkur).North-America

Fyrir 140 árum friðlýstu Bandaríkjamenn fyrsta þjóðgarð veraldar, Yellowstone, og síðan þá hefur hin gríðarlega jarðvarma- og vatnsorka þjóðgarðsins, langstærsta orkubúnt Norður-Ameríku, verið friðhelg, "heilög vé" svo að notuð séu orð eins fremsta vísindamanns þeirrar álfu á sviði jarðvarmavirkjana.

Um aldur og ævi verður ekki virkjaður svo mikið sem einn hver af 10.000 hverum garðsins og þar að auki er boranabann á 100 þúsund ferkílómetra svæði, svonefndu Greater-Yellowstone, umhverfis sjálfan Yellowstoneþjóðgarðinn.IMG_4683

Sá Bandaríkjamaður, sem vogaði sér að leggja til virkjanainnrás í þjóðgarðinn yrði ekki talinn með réttu ráði.

 En hér á landi eru valdaöfl sem ætla sér greinilega ekki að eira neinu og engin takmörk virðast vera fyrir virkjanagræðginni. 

Yellowstone er ekki á alþjóðlegum lista yfir 40 stærstu náttúruverðmæti heims eða á listanum yfir undur Norður-Ameríku.

Það sést þegar gluggað er í vandaða bók um "100 Great Wonders of the World", þar sem 40 eru náttúrugerð en um 60 manngerð, svo sem Kínamúrinn, Stonehenge og Tach Mahal.IMG_4685

Á listanum yfir undrin í Norður-Ameríku finnst Yellowstone ekki þar.

"Does not qualify" eins og Kaninn myndi orða það.   

Af um 40 náttúruundrum bókarinnar eru aðeins sjö í Evrópu.

Þar er má sjá hinn eldvirka hluta Íslands tróna á einni opnu.

Og ekkert annað undur í bókinni fær viðlíka ummæli: "Iceland is a land like no other".IMG_4681

En innrás vinnuvélanna og skriðbeltatækjasveitanna inn í magnaðasta og fjölbreyttasta eldfjallasvæði heims til að umturna einstæðri náttúru þess, sem þar að auki er hluti af Vatnajökulsþjóðgarði, er orðinn að fáránlegri þráhyggju, sem er 140 ára afturhvarf aftur í tímann.   

 

 

 

 

 


mbl.is Segja Orkustofnun ógna friði rammaáætlunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn hlýtur að ráða þessu sjálf, er það ekki?

Framsóknarmenn og flugvallarvinir ákváðu fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar hver yrði oddviti þeirra í Reykjavík. Strax kom upp andstaða ýmissa áhrifamanna í flokknum, svo sem fyrrverandi formanns flokksins, við þessa ákvörðun á þeim forsendum að stefna listans væri ekki alveg í samræmi við stefnu flokksins í mannréttindamálum, en skipan listans var ekki breytt, enda er slíkt á forræði Framsóknarmanna í Reykjavík.

Nú hafa Framsókn og flugvallavinir fengið kjörinn varamann í mannréttindaráð og þeirri stöðu sinni mun hann gegna þar til þeir hinir sömu Framsóknar og flugvallarvinir skipta um mann ef þeir kjósa svo.

Svona einfalt er þetta. Að stilla þessu máli upp sem "samræmdri aðför" og "rafrænni múgsefjum sem veki hroll" er undarleg nálgun.

Þegar það virðist vera komið í ljós að Gústaf Níelsson sé gersamlega ósammála stefnu Framsóknar í mannréttindamálum, ítreki þá afstöðu sína og sé hugsanlega félagi í Pegidasamtökunum, sem setja andúð á múslimum og innflytjendum á oddinn, hlýtur það að vera innanflokksmál Framsóknarmanna í Reykjavík að meta það hvort Gústaf geti unnið í mannréttindaráði sem fulltrúi fyrir allt önnur sjónarmið en felast í stefnu flokksins.

Og sé það rétt að hann sé hrifinn af stefnu Pegida ætti það að vera lýðræðislegur réttur hans og skoðanasystkina hans að fara í framboð fyrir þau samtök, er það ekki?

 

P.S. Ég sé því haldið fram annars staðar á netinu, að það sé ofmælt að Gústaf sé félagi í Pegida, enda séu það erlend samtök. Ástæðan fyrir því að hans nafn hafi verið nefnt sé sú, að hann hafi "lækað" á samtökin. Sé svo, er það ekki í fyrsta skipti sem það að "læka" sé túlkað sem samþykki viðkomandi við þeim skoðunum sem komi fram. En í flestum tilfellum er lækað bara til þess að lýsa yfir áhuga á umræðuefninu og geta tekið þátt í umræðunni. Hitt blasir við að bæði Pegida og Gústaf berjast gegn því sem kallað er "múslimavæðing" Evrópu og Gústaf hefur talað um innflytjendur frá múslimskum ríkjum sem eins konar dreggjar þeirra þjóðfélaga.         


mbl.is Dæmi um „rafræna múgsefjun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynslóðabil, sígilt fyrirbæri.

Kynslóðabil er vafalítið eitt þekktasta og algildasta fyrirbærið í menningu þjóða. 

Frank Sinatra sagði í upphafi ferils Elvis Presley, að tónlist hans væri viðbjóðsleg.

Bono sagði það sama um tónlist ABBA. Át það hraustlega ofan í sig 20 árum síðar.  

Eitthvað voru þeir Bubbi og Bo ósammmála um hlutina hér um árið en héldu þó saman tónleika nýlega. 

Í skoðanakönnun meðal skólanemenda upp úr 1950 fékk Haukur Morthens flest atkvæði sem merkasti maður heims, og Kristur og Jón Sigurðsson áttu ekki séns í Hauk. 

Í dag myndu flestir um fermingu gata á því hver Haukur Morthens hefði verið. 

Hermann Gunnarsson fékk létt sjokk 1994 þegar strákarnir á 800 stráka pollamóti á Sauðarkróki höfðu ekki minnstu hugmynd um að Hemmi hefði spilað knattspyrnu, hvað þá sem landsliðsmaður. 

Ég spurði Hemma hvort hann vissi hver Garðar Gíslason hefði verið og fyrir hvað hann hefði orðið þekktastur.

"Heildsali" svaraði Hemmi. 

"Nei, Hemmi minn, hann var besti spretthlaupari Íslands á fjórða áratugnum og Íslandsmethafi í 100 metra hlaupi", svaraði ég. 

"Hvernig á ég að vita það. Ég var ekki fæddur þá", sagði Hemmi. 

"Og strákarnir hérna voru líka ófæddir þegar þú varst í boltanum", svaraði ég.

Fyrir um tuttugu árum voru margir unglingar yfir sig hrifnir af Bogomil Font.

"Það eru svo flott lögin og textarnir sem hann hefur samið" sagði einn við pabba sinn, þegar hann kom að syni sínum við að hlusta á lagið "Pabbi kýs mambó."

"En hann gerði hvorki lögin né textana" sagði faðirinn.

"Nú, hver gerði það?" spurði strákurinn.

"Loftur Guðmundsson gerði suma, til dæmis þennan sem þú ert að hlusta á."

"Hver var Loftur Guðmundsson?"

"Hann var blaðamaður fyrir meira en 40 árum. Þetta er 40 ára gamalt lag, sem þér finnst svona flott." 

Það var létt sjokk fyrir drenginn að fá að vita að þessi "spánýju" lög væru lög afa og ömmmu. 

"En Bogomil Font er flottur", segir hann loks. 

"Hann heitir ekki Bogomil Font. Það er listamannsnafn."

"Hvað heitir hann þá?"

"Sigtryggur Baldursson." 


mbl.is Þekktu hvorki Wu Tang Clan né Prodigy
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn nýi veruleiki í tilveru listamanna.

Hinn nýi veruleiki í heimi listamanna blasir við bæði Björk, Madonnu og öðru tónlistar- og kvikmyndagerðarfólki. 

Plötum og kvikmyndum er "lekið" á netið og niðurhalað á netinu út um allar koppagrundir, þannig að hin gamla fjáröflunarleið listamanna að fá endurgjald fyrir kostnað og vinnu sem fylgir slíkum verkum með sölu platna og sýningum í bíóum og í sjónvarpi er að hverfa hratt og miskunnarlaust. 

Það er talið sjálfsagt og eðlilegt að efninu sé ýmist "lekið" eða það hreinlega tekið traustataki án endurgjalds, - nú, eða þá að fyrirtæki, sem ekkert komu nálægt gerð efnisins, græði á því að dreifa því á netinu, oft án þess að listamaðurinn fái neitt í sinn hlut.  

Þetta gerist líka vegna þess að svo virðist sem það sé afar algengt viðhorf meðal almennings, að listafólk sé ekki "vinnandi fólk" og "skapi atvinnu", heldur hent á lofti ummæli eins og "lattelepjandi kaffilhúsalýður", "ónytjungar", "afætur" og "það getur hver sem er farið út í bílskúr og tekið upp eitthvern söng og glamur á gítar."

Í umræðuþætti um þetta fyrirbæri á einni útvarpsstöðvanna var yfirgnæfandi hluti í viðhorfskönnun á þessari eða svipaðri skoðun, svo sem að listamenn ættu ekki skilið að fá neitt í sinn hlut af veltunni í kringum tónlist á netinu. 

Þótt upplýst sé að milljarða velta sé nú til komin vegna framlags skapandi listgreina bæði hér og erlendis og að þetta sé orðin gjaldeyrisskapandi atvinnugrein, virðist það ekki breyta neinu. Þetta er hinn nýi veruleiki, sem listafólk verður að horfast í augu við og finna svör við. Aðrir munu ekki gera það fyrir það.  

 


mbl.is Plötu Bjarkar lekið á netið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband