Óeðlileg ráðstöfun vildarpunkta.

Það er óeðlilegt að einstakir starfsmenn hjá hinu opinbera fái persónulega til sín vildarpunktana hjá Icelandair fyrir flugmiða sem ríkið borgar fyrir ferðir þeirra á sínum vegum.

Slíkt fyrirkomulag getur virkað eins og persónulegur hvati fyrir þá sem vinna hjá opinberum fyrirtækjum til þess að fljúga sem mest með Icelandair á opinberan kostnað og uppskera jafnvel ókeypis flugfargjöld fyrir sjálfa sig síðar meir þegar þeir nýta þá í einkaerindum. 

Það má furðu gegna hve lengi þetta fyrirkomulag hefur verið í gildi án þess að nokkuð hafi verið hróflað við því. 

 


mbl.is Gæti sparað hundruð milljóna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt og varanlegt afbrigði af handboltafrægð Íslands?

Silfurverðlaun Íslendinga á Ólympíuleikum vakti athygli og undrun á því hvernig örþjóð getur komist svo langt í hópíþrótt þar sem tefla þarf fram á annan tug leikmanna í hæsta gæðaflokki.

Nú blæs ekki byrlega hjá íslenska landsliðinu en þá kemur upp alveg ný staða á HM, sem sé sú að fjórir af landsliðsþjálfurunum á mótinu eru íslenskir og að þrír þeirra geti fylgt liðum sínum áfram upp í úrslitakeppnina.

Raunar voru þrír af fjórum landsliðsþjálfurum einn keppnisdaginn við stjórn sinna liða á sama tíma.

Tveir þjálfaranna hafa tekið við að frægum þjálfurum hjá tveimur af helstu handboltaþjóðunum, Þýskalandi og Danmörku, og það eitt að stýra liði stórveldis á öllum sviðum segir mikið um getu og álit Dags Sigurðssonar.  

 


mbl.is Sjálfstraustið geislar af Degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilahristingur er ekkert grín.

Í áhugamannahnefaleikum er gert það skilyrði að leikmaður, sem er rotaður í keppni (sem er sjaldgæft vegna höfuðhlífa) megi ekki keppa aftur næstu þrjá mánuði og þurfi á að undirgangast nákvæma læknisrannsókn. 

Kinnbeinsbrot og andlitsmeiðsli Arons Pálmasonar rúmum mánuði fyrir HM hlutust af þungu höfuðhöggi, og ef til vill hafa beinbrotið og sjáanleg meiðsli dregið athyglina frá innri afleiðingum höggsins.

Í handbolta verða menn fyrir hörðum pústrum í hverjum leik og ef til vill var Aron veikur fyrir og þess vegna orðinn dasaður áður en stóra höggið kom í Tékkaleiknum. 

Hvað sem því líður er hart við það að búa að Íslendingar séu hvergi í meiri hættu en í miðborg Reykjavíkur.   


mbl.is Aron spilar ekki gegn Egyptum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Versti virkjanakostur landsins enn á dagskrá !

Skömmu áður en Alþingi samþykkti að ráðast í Kárahnjúkavirkjun lá fyrir sú bráðabirgðaniðurstaða í Rammaáætlun að tveir virkjanakostir á Íslandi hefðu mestu mögulegu óafturkræf neikvæð umhverfisáhrif, annars vegar Kárahnjúkavirkjun og hins vegar virkjun Jökulsár á Fjöllum.

Séð var til þess að þetta mat kæmist ekki í hámæli fyrr en síðar á árinu 2003 þegar Alþingi var búið að afgreiða málið.

Nú hefði maður haldið að þegar meira en hundrað virkjanakostir væru komnir á blað í allt, myndu menn láta það vera að ætla að fara út í þann ónotaða virkjanakost, sem nú er sá versti sem mögulegur er. 

Ónei. Nú er virkjun Jökulsár á Fjöllum og færsla hennar alla leið yfir í Fljótsdal sett á dagskrá eins og ekkert sé sjálfsagðara en að sökkva stórum hluta hinnar frábæru leiðar frá Möðrudal inn í Kverkfjöll og eyðileggja ásýnd og upplifun Vatnajökulsþjóðgarðs, þurrka Dettifoss upp lungann úr árinu og ljúga því að ferðamönnum á sumrin að leifarnar af honum sem fá að renna síðsumars, sé aflmesti foss Evrópu. 

Á vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum einu og sér er magnaðasta og langfjölbreyttasta eldfjallasvæði heims, með tíu tegundum af helstu fyrirbærum eldfjallasvæða, en við samburð við tíu helstu önnur eldfjallasvæði heims kemst ekkert þeirra nema að vera rétt hálfdrættingar.

Ég vísa að öðru leyti í bloggpistil frá í fyrradag með nánari útlistun á sérstöðu Íslands, en á sama tíma og öðrum þjóðum dettur ekki í hug að svo mikið sem athuga virkjanir í þjóðgörðum sínum, eru hérlend valdaöfl á fullu við að bollaleggja hernað gegn einu af helstu náttúruundrum veraldar.  

Síðustu tveir dagar hafa verið sem martröð fyrir náttúruverndar- og umhverfisverndarfólk. 

Hafið er leifturstríð í hernaðinum gegn landinu á breiðustu víglínu, sem hægt er að skapa, bæði með takamarkalausu virkjanakappi hjá Orkustofnun og daginn eftir að ráðast til atlögu á dæmalausan hátt í boði meirihluta atvinnumálanefndar á víðernin við jaðar bæði Langjökuls og Vatnajökuls og fara fram hjá rammaáætlun og umhverfisráðherra.

Skrokkölduvirkjun þýðir einfaldlega 70 kílómetra framrás háspennulínu og upphleyptrar hraðbrautar inn að miðju hálendisins auk annarra virkjanamannvirkja svo sem stöðvarhúss, stíflu, miðlunarlóns og veituskurðar.

Í fyrra lýsti forstjóri Landsvirkjunar því yfir að það væri ekki spurning um hvort, heldur hvenær sæstrengur yrði lagður milli Íslands og Skotlands. 

Þegar strengurinn verður kominn mun hernaðurinn gegn landinu verða hertur enn frekar en nú og engu eirt í taumlausri skammtímagræðgi fyrr en gengið hefur verið milli bols og höfuðs á náttúru Íslands.

 

 

 


mbl.is Fordæmir tillögu Orkustofnunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband