Metrugl ?

Stutt frétt á mbl.is í kvöld inniheldur sennilega metrugl, þ. e. fleiri villur miðað við lengd texta en lengi hefur sést. Setjum númer á þær. 

1. Strax í fyrirsögninni er villa, sem fór um fjölmiðla í kvöld. "Árekstur í Hveradalsbrekku." Bull. Það er engin Hveradalsbrekka til á Reykjanesskaga og heldur enginn Hveradalur. Hins vegar eru Hveradalir til og skíðaskáli er þar sem og brekka, sem kennd eru við Hveradali.

2. Sagt er að Hveradalsbrekka sé ofan við Hveragerði. Það er steypa. Í fyrsta lagi er engin Hveradalsbrekka til eins og áður sagði og í öðru lagi eru Hveradalir og brekkan við þá hinum megin, á vesturjaðri Hellisheiðar, þrettán kílómetra frá Hveragerði. 

3. Birt er mynd af brekku með textanum "af Hellisheiði". Það er bull. Brekkan er Draugahlíðarbrekka við Litlu kaffistofuna og sést yfir flatneskjuna vestan við Svínahraun en á henni eru Fóelluvötn og Sandskeið, fjarri Hellisheiði. 

4. Ég sá fyrr í kvöld einhvers staðar á prenti að áreksturinn hefði orðið í Hveradalsbrekkku í Kömbunum, sem er auðvitað enn eitt bullið, því að Kambar eru fyrir ofan Hveragerði, Hveradalsbrekka ekki til, og Hveradalabrekka er hinum megin við Hellisheiði, 10 kílómetrum frá Kömbum. 

Áður hafa birst fréttir þar sem Sandskeið var fært upp að Litlu kaffistofunni, Reykjadalur í Þingeyjarsýslu færður austur fyrir Mývatn, Fimmvörðuhálsi skutlað norður á Fjallabaksleið syðri og Eldhraun fært vestur yfir Kúðafljót að Hrífunesi.  


mbl.is Harkalegur árekstur í Hveradalsbrekku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú reynir á.

Gott var að sjá íslenskt lið með "nýja kennitölu" inni á vellinum í dag á móti Egyptum svo notað sé orðalag fyrirliðans eftir sneypuleikinn í gær. Síðari hluti kennitölu Guðjóns Vals var 1314 í dag, það er 13 mörk úr 14 skottilraunum. 

Sagt var að lykilmenn vantaði í egypska liðið en það vantaði líka lykilmanninn Aron Pálmarsson í íslenska liðið. Á tímabili var hann með hæstu samanlagða tölu skoraðra marka og stoðsendinga allra leikmannanna á HM. Sannkallaður afburðamaður.

En aðrir leikmenn risu bókstaflega upp í hinum mikilvæga leik í dag á sama og fyrrum handboltastórveldið Rússland var rassskellt og lenti langt á eftir efstu fjórum liðunum í sínum riðli.

En nú reynir á íslenska liðið fyrir alvöru. Nú má ekki tapa einum einasta leik hér eftir og heldur ekki treysta á það að lykilmenn vanti í lið andstæðinganna.

Íslenska liðið hefur nú, sem oftar, farið nokkurn veginn erfiðustu leiðina sem fannst til að koma sér áfram og því er afar mikilvægt að ekki sé búið að sóa öllu púðrinu og úthaldinu á hinni erfiðu leið.  


mbl.is Ísland í 16-liða úrslit á HM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fordæminu um Austurbæjarbíó verði fylgt.

Nasa, áður Sigtún og Sjálfstæðishúsið, er ekki eina samkomuhúsið í Reykjavík, sem til hefur staðið að umturna eða rífa. Svipað átti sér stað varðandi Austurbæjarbíó fyrir tæpum áratug. 

Þegar það mál kom upp datt út úr mér í útvarpsviðtali, að undarleg væri sú sjálfseyðingarhvöt í menningar- og minjamálum, sem réði í þessum efnum og strax í kjölfarið fylgdi umræða, þar sem meðal annarra Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi, beitti sér afefli.

Svo fór að hætt var við áform verktaka um miklar framkvæmdir á lóðinni í stíl fyrirhrunsáranna, sem augsjáanlega kostuðu stórfellda ofnýtingu svæðisins, og húsið hefur fengið að vera í friði síðan og komið að notum sem leikhús og samkomuhús.

Vonandi tekst að finna svipað hlutverk fyrir gamla Sjálfstæðishúsið svo að notað sé hið upprunalega heiti hússins. 

Listinn yfir menningarhús í Reykjavík, sem hafa verið rifin, er þegar orðinn langur. Má þar nefna hús eins og Báruna, Fjalaköttinn, Gúttó, Tripolibíó, Hafnarbíó, Hálogaland, Skátaheimilið við Snorrabraut, og Stjörnubíó. Alls átta hús. 

Nú er ekki með þessu sagt að öll þessi hús hefðu átt að standa, en betra hefði verið að fyrirfram hefði verið ákveðið að varðveita til dæmis Fjalaköttinn, fyrsta bíóhús Norðurlanda, og eitt braggabíó.

Íþróttahús MR var í hættu á tímabili sem og Gamla bíó, sem er að ganga í endurnýjun lífdaga sem betur fer.  

  


mbl.is Margir hafa sýnt Nasa áhuga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Urðu ekki Heródes og Pílatus vinir ?

Sagan sýnir að í utanríkispólitík þjóða gilda oft grimmari lögmál en í viðskiptum einstaklinga. Gamla orðtakið að á aftökudegi Krists hafi þeir Pílatus og Heródes orðið vinir hefur margsannast. 

Það hefur árum saman verið á kreiki orðrómur um furðulega samvinnu og næstum því vináttu á milli Gaddafis og breskra ráðamanna, og má það furðu gegna í margra augum, sem muna hryðjverkið sem sprengdi farþegaþotu upp yfir bænum Lockerby í Bretlandi. 

Nú virðast vera að koma fram gögn um að þessi samvinna hafi verið jafnvel meiri en menn grunaði.

Ástæðan er hugsanlega tengd olíuhagsmunum eins og sagan sýnir að ráðið hefur meira en flest annað í viðskiptum og samskiptum þjóða á olíuöld.

Ein af ástæðunum að Ronald Reagan felldi Jimmy Carter af forsetastóli var misheppnuð tilraun til að frelsa gísla sem rænt var í bandaríska sendiráðinu í Teheran 1979.

Ýmis gögn voru dregin fram síðar sem bentu til þess að klerkarnir í Íran hefðu viljað stuðla að valdatöku Reagans með því að draga afhendingu gíslanna þar til að eftir að hann var kosinn.

Heimurinn stóð á öndinni þegar Stalín og Hitler gerðu með sér griðasamning 23. ágúst 1939, en þó voru, ef grannt var skoðað, ákveðin "Machiavellisk"rök fyrir því, vegna þess að báðir högnuðust á því, þótt yfirlýst markmið beggja hefðu fram að því verið þau að knésetja hvorir aðra.

Á sama hátt þótti sumum, sem gátu vitnað í hinar hatrömmustu fjandskaparorð Winstons Churchills í garð Stalíns og kommúnistanna í Kreml, með ólíkindum hvernig hann gæti sama daginn og Hitler réðist á Sovétríkin, svarist í órofa fóstbræðralag með Stalín og hans hyski.

En Churchill svaraði með því að segja að svo mikið væri í húfi að kveða niður villimennsku nasista, að ef á þyrfti að halda myndi allt eins gera bandalag við kölska sjálfan á móti Hitler og ekki eiga í vandræðum með að segja nokkur vinsamleg orð um kölska í Neðri málstofunni ef á þyrfti að halda. 

Í fyrri heimsstyrjöldinni áttu vopnaframleiðendur í viðskiptum yfir víglínuna til þess að græða á stríðinu og í Seinni heimsstyrjöldinni komst GM upp með það að láta Þjóðverjum hergögn í té allt fram til ársins 1943, enda hafði Henry Ford ekki verið feiminn við svipuð viðskipti við bæði Rússa og Þjóðverja allt fram til 1941. 

Nú síðast hefur myndast bandalag á milli fyrrum fjandmanna í Miðausturlöndum gegn ISIS-samtökunum og skondið er að heyra við upptöku stjórnmálasambands við Kúbu kröfur Kana á hendur Kúbumönnum vegna mannréttindabrota þar í landi á sama tíma sem vestrænar þjóðir blaka ekki við mannréttindabrotamönnum í olíuríkjunum við Persaflóa. 


mbl.is Blair lagði lag sitt við Gaddafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband