Norðmenn í her nasista voru fleiri en andspyrnumenn heima.

Hvernig má það vera að ungt fólk skuli þúsundum saman fara frá nágrannalöndum okkar til Íraks til þess að berjast með glæpahyski ISIS samtakanna? Ætla mætti að menntun og umhverfi þessa fólks í heimalöndum þeirra kæmi í veg fyrir slíkt. En svo virðist ekki vera. 

Og margt af þessu fólki virðist hafa verið utangarðsfólk heima í ýmsum skilningi, svo sem vegna atvinnuleysis, fátæktar og skorti á menntun.

En lítum á fordæmi úr fortíðinni.   

Barátta Norðmanna gegn innrás og hernámi nasista í Heimsstyrjöldinni síðari hefur löngum verið sveipuð dýrðarljóma. Ýmsum óþægilegum staðreyndum hefur þó lítt verið haldið á lofti. 

Ein þeirra er sú að fleiri ungir Normenn en nam fjölda þeirra, sem voru í andspyrnunni heima, fóru til Rússlands til að berjast með nasistum, jafnt her þeirra sem hinum illræmdu SS-sveitum.

Hitler gaf út þá dagskipun til hermanna á austurvígstöðvunum, að vegna þess að Sovétríkin væru ekki aðilar að Genfarsáttmálanum, hefðu hermenn nasista leyfi til þess að skjóta hvern sem væri á færi og allir kommissarar og yfirmenn væri réttdræpir. 

Í samræmi við þetta háðu nasistar margfalt grimmilegri hernað á austurvígstöðvunum en nokkurs staðar annars staðar. 

Eftir á er það feimnismál hve margir Norðurlandabúar, þeirra á meðal einstaka Íslendingar, gengu í lið með nasistum og morðsveitum þeirra. 

Norðmenn eiga annað feimnismál, sem sé það að norskur sjávarútvegur græddi vel á stríðinu á svipaðan hátt íslenskur sjávarútvegur. 

Ég hef áður sagt frá frásögn konu frá Demyansk í Rússlandi af því að finnskir hermenn í innrásarhernum hefðu verið miklu grimmari en þeir þýsku.

Ástæðan hlýtur að vera sú að Finnarnir voru að hefna fyrir árásarstríð Rússa ári fyrr, en hinir ungu þýsku hermenn vissu naumast hvers vegna þeir voru komnir langt norður í rússneska veturinn, umkringdir af Rauða hernum.  

 

P.S. Páll Vilhjálmsson bendir á í bloggpistli að í "Milorg", norsku andspyrnuhreyfingunni, hafi verið margfalt fleiri en fóru á austurvígstöðvarnar. Sjálfsagt er að hafa sem réttastar tölur í þessu efni, og þegar tími gefst, vonandi síðar í dag, 27. jan, skal ég skoða þetta betur, en þetta kom fram á fundi í fyrra i Churchill-félaginu.

En nefna má þrjár aðrar tölur, sem segja sitt:  Í Milorg voru um 20 þúsund 1942. En í NS, flokki Quislings, voru 43 þúsund. 

Ein tala er þó mest sláandi. Miðað við fólksfjölda Noregs og Íslands 1941 og fólksfjölda landanna nú samsvara 5000 Norðmenn á austurvígstöðvunum eftir innrásina í Sovétríkin 1941 því, að um 3-500 Íslendingar væru nú í Sýrlandi að berjast fyrir ISIS samtökin. Þetta er athyglisvert. 


mbl.is Þúsundir til liðs við öfgahreyfingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rafbíl fyrir forsetann ?

Nú hefur bæjarstjórinn í Newcastle gert það sem íslenskur embættismaður í svipaðri stöðu, hefði getað gert, gert Nissan Leaf að borgarstjórabíl borgarinnar, en íbúar þar eru álíkta margir og íbúar Íslands.Nissan Leaf Newcasle

Fyrir Ísland er það miklu mikilvægara að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir innlenda orku, vegna þess að raforkan, sem flestir rafbílar ganga fyrir erlendis, fela aðeins í sér tilfærslu á nýtingu óendurnýjanlegra orkugjafa og spara því aðeins hvað varðar það að orkunotkunin á hvert farartæki hefur miklu minni endanlega mengun í för með sér en þegar henni er brennt beint í bílnum sjálfum. 

Á Íslandi er hins vegar um að ræða orku, sem að að miklu meira leyti bæði hreinni og endurnýjanlegri en sú, sem er á boðstólum erlendis.

Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, eru það sérstakir menn sem velja bíl fyrir forsetaembættið og vinnureglan hefur verið sú að forsetabíllinn sé ekki endurnýjaður nema á meira en áratugs fresti.Tesla_Model_S_Japan_trimmed

Núverandi bíll er hvergi nærri orðinn það gamall og því lítur ekki út fyrir að forseti Íslands geti orðið fyrsti þjóðhöfðingi heims, sem er með rafbíl sem þjóðhöfðingjabíl.

Í þeim efnum er að sögn forsetans ekki á hans valdi að hafa áhrif á bílakaupin og ekki til nein lagaregla sem er hliðstæð við 26. grein stjórnarskrárinnar varðandi málskotsrétt forseta.

Þess má geta að meðal rafbíla á boðstólum er Tesla S sem er lúxusbíll með aksturseiginleika sem eru hvað snertir hröðun og afl samkeppnisfærir við hefðbundna lúxusbíla, sem hingað til hafa verið forsetabílar, auk þess sem akstursdrægið er allt að 400 kilómetrar á einni hleðslu og tekur aðeins um hálftíma að hlaða inn um 80% af orkunni í hraðhleðslustöð. 


mbl.is Leaf leysir af hólmi limúsínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumir velja sér slæma ráðgjafa.

Það er vafalaust rétt að góðir ráðgjafar geti oft reynst gulli betri. Um það geymir sagan mörg dæmi.

Eitt þessara dæma er sú hugmynd sem nokkrir ráðgjafar Harry S. Trumans lögðu til eftir að hann tók óvænt og óundirbúinn við embætti Bandaríkjaforseta 12. apríl 1945, að best væri að knésetja Japani með því að varpa fyrstu kjarnorkusprengjunni á Kyoto vegna þess að sú borg væri svo sérstaklega mikilvæg í hugum Japana, að japönsku þjóðinni myndi falla allur ketill í eld og gefast samstundis upp. 

Einnig ætti ekki að taka annað í mál en að fangelsa Japanskeisara og draga hann fyrir dóm fyrir stríðsglæpi. Það væri í samræmi við það aðalatriði fyrir uppjöf Japana að hún yrði skilyrðislaus. 

Sem betur fór hlustaði Truman betur á ráðgjafa með betri yfirsýn, þekkingu og framsýni og eyddi ekki Kyoto, en það hefði verið fáheyrt gerræði gegn borg ómetanlegra menningarminja og helgs gildis í augum Japana, auk þess sem borgin hafði enga beina hernaðarlega þýðingu. 

Eyðing Kyoto hefði haft þveröfug áhrif á Japani og raunar umheiminn, sem aldrei hefðu geta fyrirgefið slíkt ódæðisverk. 

Svipað var að segja um keisarann sem hafði einstakt trúarlegt gildi og helgi í augum þjóðarinnar sem Vesturlandabúar eiga erfitt með að skilja. Hugsanlega hefði verið hægt að komast hjá beitingu kjarnorkuvopnanna ef strax hefði fallið frá kröfunni um fangelsun keisarans og dóms yfir honum.

Raunar var það keisarinn sjálfur sem tók af skarið og bauð uppgjöf, þegar borgir landsins stóðu í ljósum logum með mannfalli meðal almennra borgara sem skipti hundruðum þúsunda á hverjum degi.

Það er gott að eiga góða ráðgjafa en verra er þegar menn beinlínis laða að sér vonda ráðgjafa eða vilja hafa þá sem harðdrægasta. Þegar horft er á gjörðir sumra ráðamenna bæði hér á landi og erlendis er engu líkara en að svo sé.

Einkum er þar um að ræða ráðríka valdamenn sem búa til það ástand meðal fylgismanna sinna og aðstoðarmanna, að sá þeirra nær mestum frama sem smjaðrar mest fyrir foringjanum sem forðast að gagnrýna hann og mælir upp í honum offors og ofurkapp.

Í hugann kemur einn af helstu stjórnmálaforingjum þjóðarinnar á fyrri hluta síðustu aldar sem oft var afar harðskeyttur og jafnvel ófyrirleitinn og hefði þurft á eiginkonu að halda sem hefði mildandi áhrif á hann þegar hann fór fram úr sér. En því var víst þveröfugt farið. 

Að lokum var þessum stjórnmálamanni ýtt til hliðar af eigin flokksmönnum.

Tveir ráðherrar veittu mér harðar ákúrur og voru með alvarlegar ásakanir í minn garð fyrir 15 árum. Ég sagði þeim báðum frá því að ítarleg rannsókn á þessum sakarefnum á vegum þáverandi útvarpsráðs hefði sýnt fram á að ásakanirnar hefðu ekki við rök að styðjast. 

Annar ráðherrann hlustaði á mig og viðurkenndi að þetta væri víst rétt hjá mér. En bætti síðan við brosandi: "Jæja, fyrst svo er, látum svo vera, - en vertu nú þægur." 

Hinn ráðherrann færðist allur í aukana í löngum reiðilestri sínum yfir bæði mér og kvikmyndatökumanninnum, sem var með mér, hnykkti á ásökununum, sagði að ég og mitt samstarfsfólk værum óalandi og óferjandi, og endaði með því að segja að annað segðu hans heimildarmenn honum og að hann tæki mark á þeim en ekki mér. 

Þegar ég gekk af fundi hans hugsaði ég með mér: "Mikið óskaplega hefur þessi maður valið sér slæma ráðgjafa. Og enn verra er ef hann vill hafa þá svona."  


mbl.is Myndi alltaf ráða sér ráðgjafa í krísu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband