"Kók og Prins" og "Kók og pylsa."

Fyrir mér eru Cola-gosdrykkir svipað fyrirbæri og mismunandi víntegundir eru vínáhugamönnum. 

Í gamla daga drakk ég jöfnum höndum Kók, Pepsi, Spur og Jolly cola. Það var líklega svona álíka fyrirbæri og þegar vínsmakkararnir skipta á milli víntegunda við drykkju sína, án þess að ég geti þó dæmt um það af eigin reynslu, hvað áfengið snertir. 

Núna eru Spur Cola og Jolly cola fyrir löngu úr sögunni, en í staðinn er komið RC cola, sem fæst sums staðar fyrir afar hagstætt verð, og nýtist RC light nokkuð vel sem mótvægi við hið sykraða Cola úr lágvöruverslunum. Ég hef aldrei verið fyllilega sáttur við Pepsi Max vegna eftirkeimsins, og heldur ekki Coke light. Skást hefur Coke Zero komið út, en nú gæti RC light sótt að því. 

Sem dæmi um þessa sundurgerð í drykkjunautn naut ég þess afar vel, eftir að hafa verið án hefðbundinnar morgunhressingar minnar, þegar ég krækti mér í Pepsi í apótekinu, sem ég þurfti að fara í upp úr hádeginu. Ég naut þessarar flösku í botn í dag. 

En frá hinu er varla að komast, að gamla góða Kókið heldur enn efsta sætinu hjá mér, en þó við vaxandi samkeppni RC cola og Pepsi cola.

En ekki er fyrirsjáanlegt að hugtökin "Kók og Prins" og "Kók og pylsa" falli af stalli í málfari landsmanna hvað varðar séríslensk fyrirbæri í mataræði, einkum Kók og Prins sem á sér enga hliðstæðu um víða veröld en lýsir vel hinni einstæðu stöðu í verslunarviðskiptum okkar við aðrar þjóðir beggja vegna Járntjaldsins á tímum fyrstu Landhelgisdeilunnar.

Og þess vegna hefði það verið á skjön við þetta ef Bæjarins bestu hefðu hætt að bjóða Kók með pylsum sínum.  


mbl.is Áfram kók með „þjóðarréttinum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt öruggt ljós í myrkrinu ? Nei, tvö!

Það blæs ekki byrlega í leik okkar við Dani sem sigla fram úr okkur strax í upphafi. Íslendingar eiga að vísu skot á danska markið, en flest þeirra örvæntingarskot og skjóta einfaldlega danska markvörðinn í stuð. 

Nú er kominn kafli þar sem Björgvin Páll Gústafsson heldur okkur á floti og leikurinn að skána, en alltaf sami markamunurinn, 5-7 mörk. 

Eins og er, er aðeins eitt ljós í myrkrinu, sem sé það, að það er alveg sama hvernig leikurinn fer, - íslenskur þjálfari fer áfram.

Og sömuleiðis er ljóst að tveir íslenskir þjálfarar halda áfram, því að menn Dags brilleruðu í dag á móti Egyptum.  


mbl.is Ísland á heimleið eftir tap gegn Dönum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Átti aldrei að koma til greina.

Aron Pálmarsson varð fyrir alvarlegri líkamsárás í miðborg Reykjavíkur aðeins rúmum hálfum mánuði fyrir HM, hlaut svo þungt höfuðhögg að kinnbein brákaðist.

Hugsanlega fékk hann líka heilahristing eða snert að honum, en beinbrotið og blóðgunin tóku alla athygli.

Í áhugamannahnefaleikum fer keppanandi sjálfkrafa í þriggja mánaða keppnisbann eftir slíkt atvik.

Þrátt fyrir þetta reyndi Aron að gera allt sem hugsanlegt var til að nýtast landsliðinu sem maðurinn sem dregur vagninn, líkt og besti maður Tékka gerði í sigurleik þeirra.

Og eftir fyrstu leikina var Aron með hæstu samanlagða tölu marka og stoðsendinga á mótinu og lék snilldarvel eins og þetta sýnir.

En það kostaði fórnir, endalausa pústra og högg og í fyrri hálfleik í leiknum við Tékka var ljóst að eitthvað hafði orðið undan að láta, Aron ekki nema skugginn af sjálfum sér.

Eftir þungt höfuðhögg af svipuðum toga og rúmum þremur vikum fyrr var ljóst að hann hafði fengið heilahristing, líklegast öðru sinni á þremur vikum, auk allara annarra högga og pústra.

En kröfurnar til hans frá okkur öllum eru slíkar að ætlast hefur verið til þess síðustu daga að hann spili samt strax í dag, eftir öll þessi áföll, úrslitaleik um það hvort við teljumst í hópi átta bestu handknattleiksþjóða heims.

Og hér á blogginu má sjá ásakanir um að hann sýni landsliðinu og þjóð sinni ekki "lojalitet", eins og það er kallað, heldur bregðist á örlagastundu og sé svikari við málstaðinn.

Það er sárt þegar slíkur afreksmaður, sem Aron er, lendir í þeim hremmingum sem hann hefur lent undanfarnar vikur, - en enn sárara er þegar ráðist er á hann fyrir það að gera ekki hið ómögulega núna, að fara í slagsmálaleik, - nokkuð sem aldrei átti að koma til greina. 

Já, hart að slíkur afreksmaður sé grátt leikinn með tilefnislausri líkamsárás, en enn sárara að sjá ásakanir á hendur honum um aumingjaskap og sérhlífni. 


mbl.is Aron ekki með gegn Dönum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband