"Þurfum að losa okkur við þau" heilkennið.

"Þurfum að losa okkur við þau" heilkennið er líklega jafngamalt mannkyninu. Byggist á því að í samfélögum myndast andúð á ákveðnum hópi fólks, sem meirihlutinn eða ráðandi öfl telja sig þurfa að fjarlægja. 

Eftir að Gyðingar tvístruðust um lönd og Jerúsalem var lögð í rúst, varð smám saman til andúð á þeim vegna trúar þeirra og samheldni sem oft skapaði framgang, sem byggðist á dugnaði og nýtingu hæfileika þeirra. 

Það kom mér mjög á óvart að sjá í stórri handbók um sögu 20. aldarinnar frá degi til dags, að í byrjun þeirrar aldar var í alvöru fjallað um það meðal valdamestu manna heims að "gefa" Gyðingum Uganda, svo að þeir gætu stofnað sitt Zion eða þjóðarheimili þar. 

Enn í dag er því haldið fram að Hitler hafi farið dult með þær fyrirætlanir sínar að útrýma Gyðingum og að umheimurinn og jafnvel Þjóðverjar sjálfir og fylgjendur nasista annars staðar, svo sem í Noregi, hafi ekki haft hugmynd um það.

Þess vegna hafi til dæmis þeir 5000 Norðmenn, sem börðust fyrir Hitler á austurvígstöðvunum ekki haft hugmynd um að þegar væri byrjað að útrýma Gyðingum.  

Þetta fellur undir hugtak, sem nefna má nafninu "áunnin fáfræði", og byggist á því að menn leiða hluti hjá sér, hafa ekki áhuga á að vita um þá eða beinlínis bæla niður vitneskju um þá ef þeim finnst sú vitneskja óþægileg. 

Í ágætri samantekt Markúsar Þórhallssonar frá Djúpalæk sést að Hitler talaði fullum fetum um þá þjóðernishreinsun að "hreinsa" Evrópu af Gyðingum í ræðu í þýska þinginu strax í janúar 1939.

Þá þegar hafði hann líkt Gyðingum við meindýr eða rottur, sem þyrfti að uppræta. 

Hann vissi að ef hann átti að geta æst Arabaþjóðir upp á móti Bretum, eins og honum tókst mæta vel hjá Farúki Egyptalandskonungi, gæti hann ekki á sama tíma látið Gyðinga fá land í Palestínu.

Hann gældi við þá hugmynd að nota herferðina inn í Sovétríkin til að flytja "óæðri kynþætti" eins og Gyðinga og Slava austur í Síberíu þar sem þeim yrði þrælað út og þeir látnir deyja út, en þegar herförin gekk ekki sem skyldi var lausn "Gyðingavandamálsins" fundin í ársbyrjun 1942 með byggingu útrýmingarbúða.

Í samtíma okkar eru þjóðernishreinsanir eða "þurfum að losa okkur við þau" heilkennið enn á ferli hér og þar í heiminum. ISIS og Boko Haram eru það nýjasta, en ýmislegt var reynt í Balkanstríðunum í lok síðustu aldar. 

Hér á landi má sjá skrif á netinu um það að Ísland eigi aðeins að vera fyrir Íslendinga og að "við þurfum að losa okkur við" ákveðinn trúflokk, sem þegar stefni að því að gera samkomustaði sína að vopnabúrum og miðstöðvum fyrir herför á hendur okkur í sama stíl og ISIS samtökin standa nú fyrir í Írak.

Þegar Ebólufaraldur kom upp í Afríku stakk einn skrifari upp á því að blökkumönnum yrði bannað að fljúga í almennu farþegaflugi !

Vísa í facebook færslu mína og örstutt myndbrot af íslenskum þjóðernissinnum í Bankastræti.  

 

  


mbl.is Engin þýsk sjálfsmynd án Auschwitz
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður markvörður "étur" léleg skot.

Að sjálfsögðu er Niklas Landin afburða markvörður. En til þess að hann geti notið sín þarf vörnin fyrir framan hann að loka þannig fyrir skyttur andstæðinganna, að þeir séu þvingaðir til að skjóta í örvæntingu eða að loka þannig leið fyrir boltann að honum sé skotið þar sem Landin á best með að verja skotið. 

Ekkert af skotunum, sem sýnd eru í tengdri mynd af markvörslu Landins upp í stöðuna 5:0 stefnir í hornin uppi eða niðri eða fer í gólfið og síðan upp, en slík skot eru oft afar erfið fyrir markverði. 

Í engu af þessum skotfærum hefur verið byggt þannig upp fyrir skyttuna að hún fái góða atrennu til þess að stökkva hátt upp, "hanga" þar og fá tíma til að velja skotlínuna eða að láta vörn andstæðinganna fara niður á undan sér. (Hansi Schmidt var talinn upphafsmaður "hangsins" fyrir rúmri öld). 

Guðmundur Guðmundsson hefur greinilega unnið vel heimavinnuna sína varðandi skot af línunni og því er Landin "mættur" á staðinn þar sem skotin koma frá þeim. 

Mörkin fimm voru ódýr og Danir hefðu kannski ekki náð að sigla þessum fimm mörkum fram úr og halda 5-9 marka mun til enda ef Aron Kristjánsson hefði náð að sjá fyrr hvað var á seyði og taka leikhlé fyrr en gert var til að endurskipuleggja sókn og vörn. 


mbl.is Landin með strákana okkar í vasanum (myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og biskupinn í Vesalingunum.

Eigandi Bengal-kattanna, sem fundust í gærkvöldi, sýnir göfuglyndi og náungakærleik með orðum sínum í garð þeirra sem stúlu köttunum. 

Slíkt er ekki alvanalegt um þessar mundir ef marka má illt umtal og ljót ummæli sem grassera á netmiðlum. 

Þessi ljótu skrif þurfa þó ekki að vera vitni um versnandi samfélag heldur frekar hitt að nú er allt miklu opnara en áður var og því er það, sem áður var pískrað um og sagt á bak fólki, orðið meira opinbert.

Þetta mál minnir svolítið á atvikið í Vesalingunum eftir Hugo þar sem lögregla ætlar að taka fastan strokufanga, sem stal dýrindis kertastjökum frá biskupi, en biskupinn bregst þannig við, að í staðinn fyrir að láta málið ganga þá leið, gefur hann fanganum stjakana og biður honum blessunar.

Í það skiptið reyndist þetta göfuglyndi til góðs og vonandi verður það einnig svona í stóra kattamálinu.  


mbl.is „Ég vil ekki vera refsiglaður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

100 þúsund krónur árið 1977.

Það segir sína sögu um verðlagsþróun síðustu 38 ára að höfuðkrafa verkalýðshreyfingarinnar vorið 1977 var sú, að lágmarkslaun yrðu 100 þúsund krónur á mánuði. 

1981 var krónan stækkuð hundraðfalt og þess vegna hefur verðlagið í raun 300 faldast síðan 1977. 

Ólafur Jóhannesson þáverandi formaður Framsóknarflokksins og annar oddvita þáverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks "álpaðist til þess" að dómi sumra, að taka undir þessa kröfu í þingræðu. Enda voru allir sammála um að lægstu laun væru of lág og að bæta þyrfti kjör þeira sem minnst hefðu á milli handanna. 

Í svonefndum "sólstöðusamningum" 1977 var fallist á kröfuna um 100 þúsund kallinn eftir harðvítugt verkfall og vonuðu margir að með þessu væri náð áfanga í baráttu fyrir meiri jöfnuði og betri kjörum.

En það fór á aðra lund. Launaskrið fylgdi í kjölfarið upp eftir launastiganum auk verðbólgu, sem át upp launahækkunina, og á útmánuðum 1978 taldi þáverandi ríkisstjórn sig til neydda að grípa til efnahagsaðgerða til þess að ná tökum á verðbólgunni, sem komin var á fullt skrið.

Það kallaði hins vegar á stórfelld mótmæli verkalýðshreyfingarinnar sem fór út í mikla herferð undir kjörorðinu "samningana í gildi!"

Sumarið 1978 féll meira en hálfrar aldar gamall meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og í Alþingiskosningum biðu Sjallar og Framsókn mesta afhroð í sögu þeirra flokka og stjórn þeirra féll. Aldrei fyrr í meira en hálfa öld höfðu þessir flokkar verið með tæpari meirihluta atkvæða meðal kjósenda. 

Mynduð var vinstri stjórn sem mistókst í raun að ná því fram að setja "samingana í gildi."

Sagan um vel meinta viðleitni til að "bæta kjör þeirra lægst launuðu" hefur endurtekið sig oftar en tölu verði á komið á síðustu 100 árum.

Að sönnu hafa lífskjör stórbatnað á þessum tíma en dæmið frá 1977 hefur samt endurtekið sig æ ofan í æ með þeirri víxlverkun kaupgjalds og verðlags, sem hefur skapað 300 falda verðlagsskrúfu síðan 1977.

Hvers vegna?

Ætli skýringin sé ekki sú, að þegar á hólminn er komið hugsar hver um sig þegar einstakir atvinnurekendur og launþegar semja um kjör. Hegðun þess meirihluta þjóðarinnar sem ekki er með lægstu kjörin, verður yfirsterkari þeirri stefnu í orði að kjör þeirra verst settu séu ekki mannsæmandi og það verði að bæta þau og fá fram meiri jöfnuð.

Nú er sótt úr tveimur áttum í þá átt að hækka laun, - ofan frá og neðan frá.

Meirihluti launþega er með laun þarna á milli. Er meiri möguleiki nú en áður til að stórhækka laun og auka kaupmátt og kjarajöfnuð án verðbólguskriðu? 

Það er spennandi spurning.   


mbl.is Lægstu laun verði 300 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband