Alveg nýtt fyrirbæri, en standa þarf vaktina.

Það er alveg nýtt að virkjanakostir séu dregnir til baka vegna þess að þeir hafi áhrif á friðuð svæði eins og Orkustofnun hefur gert varðandi þrjá virkjunarkosti á norðausturhálendinu. 

Í nýlegum bloggpistli hér á síðunni var fjallað um það að þarna væri enn verið að pressa fram þá virkjanakosti íslenska, sem hefðu mestu mögulegu óafturkræfu neikvæðu umhverfisáhrif hér á landi.

Það vafðist ekki fyrir þeim Siv Friðleifsdóttur og Valgerði Sverrisdóttur á sínum tíma að aflétta friðun Kringilsárrana til þess að koma Kárahnjúkavirkjun á koppinn. 

Því fylgdu yfirlýsingar þeirra um að hvaða friðun sem væri mætti aflétta að vild, sama var og er uppi á teningnum varðandi Þjórárver og meðal um það bil 100 virkjanakosta sem kynntir voru fyrir nokkrum árum, voru að sjálfsögðu Geysir, Gullfoss, Landmannalaugasvæðið, Kerlingarfjöll og Askja.

Ekkert er heilagt, þótt Bandaríkjamenn líti á mesta orkubúnt sinnar álfu sem "heilög vé."

Ég hygg að það, að Orkustofnun dragi til baka þrjá virkjanakosti, sé nánast einsdæmi hér á landi.

Og ástæðan sem gefin er upp er sú, að vegna rangra upplýsinga hafi stofnunin haldið að virkjanirnar myndu ekki ná inn í Vatnajökulsþjóðgarð en úr því að svo væri, yrðu kostirnir dregnir til baka. 

Guð láti á gott vita sagði gamla fólkið stundum, en enda þótt að ekki megi gera lítið úr þessu hiki Orkustofnunar, verður að standa vaktina fyrir íslenska náttúru eftir sem áður. 


mbl.is Dregur þrjá virkjunarkosti til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins, loksins !

Vandi Ríkisútvarpsins á rætur að rekja meira en 30 ár aftur í tímann þegar ákveðið var að byggja þrjú risavaxin hús við Efstaleiti, eitt fyrir útvarpið, yfirstjórnina og skrifstofur, annað fyrir Sjónvarpið og hið þriðja sem tækjahús. 

Nefnd um opinberar framkvæmdir stöðvaði sem betur fer þessi áform, en í stað þess að láta hanna húsið frá grunni upp á nýtt, var ákveðið að halda sig við byggingu hússins fyrir útvarp og skrifstofur, en troða þar inn sjónvarpinu og tækjadeild. 

Ofan á allt of stórt hús varð til óhagkvæmt hús, að stórum hluta alls ekki hannað fyrir sjónvarp og háir það bæði starfseminni og skapar illa nýtt rými. 

Erfitt var að koma á framfæri gagnrýni á húsið, en sem fulltrúi í samráðsnefnd um það, varð mér ljóst í hvílíkt óefni var stefnt. 

Í sjónvarpi fékkst aðeins rökræn umræða um húsi í þriggja mínútna frétt, þar sem ég fékk 40 sekúndur til umráða til að koma sjónarmiðum starfsfólks, hollvina og listamanna á framfæri. 

Ástæðan var sögð sú að það svo erfitt að láta Ríkisútvarpið fjalla um sjálft sig! 

Nú loksins hillir undir að smá leiðrétting fáist á þessum afdrifaríku mistökum í boði íslenskra stjórnmálamanna, en eftir sem áður er húsið mislukkað hvað snertir tilhögun og ekki síst fáránlegt og dýrt loftræsti- og hitunarkerfi, sem tekur heilan aukakjallara undir kjallara hússins vegna þess að við hönnun hússins var brotið meira en þúsund ára gamalt lögmál um loftræstingu húsa allt frá dögum Rómverja, sem má meðal annars sjá í mörgum af þekktustu byggingum heims svo sem Louvre-safninu, byggingunum í London og Pentagon í Bandaríjunum.

Loksins! Loksins!  

 


mbl.is RÚV leigir Reykjavíkurborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað og þegar AF 447 fórst?

Í atvinnuflugi skiptast flugstjóri (pilot in command) og aðstoðarflugstjóri ( copilot) oft á að vera í stöðu flugstjóra, til dæmis með því að skipta um þegar flogið er til baka á áætlunarleið.

Að því leyti til getur það gerst að sá sem er í hlutverki aðstoðarflugmann (sem er dálítið misvísandi orð, - orðið "meðflugmaður" lýsir kannski betur merkingu orðsins "copilot") sé í raun reyndari flugmaður. 

Svo virðist hins vegar ekki hafa verið í síðasta flugi þotu AirAsia sem hrapaði í Javahaf í desember. Greint er frá því að flugstjórinn hafi haft mun meiri og fjölbreyttari reynslu en aðstoðarflugmaðurinn, sem var við stýrið. 

Þegar AF 447 fórst hér um árið á Suður-Atlantshafi í óveðri, rétt eins og þota AirAsia, var í skýrslu flugslysanefndar talið það geta hafa verið hluti af orsök þess hve illa fór, að flugstjórinn var sofandi aftur í vélinni þegar aðstoðarflugmaðurinn missti stjórn á vélinni og ringulreið og örvænting tóku völdin í stjórnklefanum. 

Meira en mínúta leið þar til flugstjórinn kom fram í og það tók hann svo langan tíma að byrja að átta sig á því hvað var að gerast í raun, að þá var það um seinan. 

Fróðlegt verður að vita hvort svipað hefur gerst um borð í þotu AirAsia. 


mbl.is Aðstoðarflugmaðurinn var við stýrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband