Sama svar og hjá þeim gamla?

Faðir minn heitinn var orðinn sjúkur maður og var tekinn til bæna í viðtalstíma hjá lækni, sem lagði honum nýjar og strangar lífsreglur. 

"Þú verður að forðast sterkt áfengi og drekka bara veikt", sagði læknirinn og pabbi svaraði að bragði: 

"O,hver andskotinn. Þarf maður nú að byrja að drekka með þessu?" 

Ég hef verið veikur fyrir kókinu alla tíð og hef drukkið kynstur af því og allt of mikið. 

En gleðifréttirnar um það að kók sé gott við timburmönnum koma full seint fyrir mig, ef ég á að nýta mér þær, því að ég hef aldrei bragðað áfengi og hef alla tíð verið óvirkur alki. 

Viðbrögð mín við gleðitíðindum um það að kók sé gott við timburmönnum gætu því orðið þau sömu og hjá pabba: "O, hver andskotinn. Þarf maður nú að byrja að drekka með þessu?"

Þess má geta að pabbi nýtti sér það að læknirinn þekkti hann ekki og vissi því ekki um að hann neytti víns en hafði farið þó farið einu sinni í meðferð, sem hrökk skammt. 


mbl.is Lagar kók timburmenn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örlög Houdinis auka á spennuna.

Dean Gunnarsson fetar þessa dagana hér á landi í 90 ára fótspor Harrys Houdinis, frægasta töframanns og undankomulistamanns sögunnar. Örlög Houdinis hljóta að vera ofarlega í huga allra sem fást við svona iðju.

Hann sá ekki fyrir að eitt af brögðum hans myndi verða honum óbeint að falli, sem sé það að þola þung skrokkhögg.

Þegar áheyrandi að fyrirlestri hans kom til hans og sló hann að honum óviðbúnum tvö högg undir beltisstað olli það skaða, sem dró Houdini til dauða á sviplegan hátt.

Rétt eins og hjá Muhammad Ali löngu síðar, varð sá, sem slík högg fékk, að vera því viðbúinn svo að líkaminn gæti brugðist við.

Í dag tóku hinar erfiðu íslensku aðstæður á þessum tíma árs fram fyrir hendurnar Gunnarssyni og skópu óvænta undankomu um sinn og þar með örugga lífgjöf.

Sagt er að um tilviljun hafi verið að ræða, þ. e. að gangsetning báts hafi mistekist.

Ef svo er geta tilviljanir ráðið úrslitum á báða vegu varðandi svona áhættuatriði. Og spurning er hvort það verði alltaf tilviljanir í rétta átt. Örlög Houdinis auka á spennuna og óvissuna.

Áhættan sem svona menn taka, er það sem kallað er "útreiknuð áhætta" og erfitt fyrir aðra en þá, sem eru þaulkunnugir slíku að meta hve mikil áhættan er.

Stundum, og vonandi sem oftast, er hún miklu hættuminni en hún lítur út fyrir að vera.      


mbl.is Frestað á síðustu stundu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áramót eru hentugt viðmið.

Þegar líður á ævina áttar maður sig á því hvernig tíminn æðir áfram, þannig að liðnir áratugir virðast eins og nokkrir mánuðir í minningunni. Ástæðan er sú að hvert ár á efri árum er ekki nema 1,4% af þeim tíma, sem maður man eftir, en um fermingu var hvert liðið ár 10 sinnum stærri hluti af þeim tíma, sem munað var eftir þá.

Þessi breyting á meðvitundinni um tímann á gerist hægt og bítandi alla ævina og um síðir hefur meðvitundin um gildi tímans slævst, einmitt þegar hvert lifað ár verður æ stærri hluti af þeirri ævi, sem ólifuð er og þar af leiðandi mikilvægara.

Þótt gildi þess sé mikið að lifa sem best í núinu, af því að fortíðinni verður ekki breytt og ekkert fast í hendi með framtíðina, þýðir það þó ekki það að fásinna sé að hugsa um framtíðina, bæði til lengri og skemmri tíma og íhuga gildi reynslu liðins tíma.

Þá getur verið ágætt að fara yfir stöðuna um hver áramót og setja niður þau atriði, sem mestu skipta til þess að geta lifað sem best í núinu á hverjum tíma, það sem eftir er af lífinu.

Það, að bera saman stöðuna um hver áramót, getur verið hentugt og nauðsynlegt til að hrista upp í manni og brýna til verka. Það þarf ekki endilega að kalla þetta áramótaheit, heldur kannski frekar áramótaáherslur.

Þetta getur verið enn nauðsynlegra þegar mörg járn eru í eldinum og margt hefur verið á döfinni, kannski allt of lengi á döfinni án þess að klárast.

Og gott er, þegar litið er yfir það hverjar hafa verið áramótaáherslur liðinna áramóta, að átta sig á því hverju mætti miða hraðar þegar í ljós kemur og blasir við, hve margt hefur dregist úr hömlu vegna þess hvernig tíminn og æviárin æða áfram.    

  


mbl.is „Hver í ósköpunum fann upp á þessari vitleysu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bakaradrengurinn man ekki svipað.

Ég er bakarasonur, og afi var líka bakari, fyrst í Bernhöftsbakaríi en síðast í Hlíðabakaríi. Ég segi stundum í gamni að ég hafi verið alinn upp á vínabrauðsendum. Sem voru reyndar líka verðmæti eins og vínarbrauðslengjurnar, - endunum safnað saman og gefnir hænsnunum í hinu stóra hænsnabúi Bakarameistarafélags Íslands rétt ofan við Múlakamp. 

Siggi heitinn póstur, sérkennilegur maður með hvellan og norðlenskan talanda hér í miðri flatmælgi borgarbúa auk þess sem s-ið hans fossaði fram af vörunum líkt og foss, blanda af íslensku s-i og þýzkri zetu, enda mikill aðdáandi alls sem þýszzkT var, kom oft í Hlíðabakarí og hafði gaman af að spjalla við bakarana í önn og svækju dagsins.

Ofan á þessi sérkenni bættist álkulegt og langleitt andlit sem vakti svipað bros hjá manni og andlit gamanleikarans Alfreðs Andréssonar.  

Þegar hann kom eitt sinn niður í kjallarann, þar sem bakað var, var ég líka í heimsókn þar, á að giska átta ára, að háma í mig vínabrauðsenda, sem voru þar í hrúgu á borðsendanum.

Siggi starði á mig og spurði pabba, hvað gert væri við alla þessa vínabrauðsenda, sem til féllu. Sá hann í hendi sér að varla gæti ég, þessi krakki, étið þá alla.

Pabbi sagði að þeir væru gefnir hænsnum.

"Og þrífaszzt þau virkilega á svona szzæTindum?" spurði Siggi áhyggjufullur, með sitt hvella sz-hljóð og harða norðlenska T í síðasta orðinu og virtist hafa minni áhyggjur af bakarabarninu en hænunum.    

Hvað um það, rúnnstykkið í Bernhöftsbakarí ku hafa hækkað um 60% og kostar nú 80 krónur. Gamall bakarasonur man ekki eftir meiri hækkun á rúnnstykkjum í 70 ár, jafnvel þótt brýnt tilefni til hækkunar hafi verið tíundað og verðið sagt það lægsta í bransanum.

En líklega hefur verðið á rúnnstykkjunum bara verið rúnnað af.

Nú bíður maður eftir því hvort verð á vínarbrauðum lækki í takt við afnám sykurskattsins þannig að ódýrara verði að fæða bakarabörn nútímans.

Nema að nýjustu bakstursaðferðirnar séu þannig að vínarbrauðsendum hafi verið útrýmt.

Enda hænurnar ofan við Múlakamp fyrir löngu úr sögunni.    


mbl.is Rúnstykkin hækka um 60%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband