Sigur sykursins og ósigur þjóðarinnar um áramótin.

Það hefur lengi verið vitað að hvítasykur er að verða skæðasta fíkniefni heims og í þann veginn að skáka tóbakinu sem böl. Eins og breski sjónvarpskokkurinn Jamie Oliver bendir á vex kostnaðurinn í heilbrigðiskerfinu vegna óhóflegrar neyslu sykur jafnt og þétt. 

Þess vegna vill hann að sykurinn sé skattlagður eins og tóbak, sem "næsta tóbakið" og bendir á Frakka sem fordæmi.

Hann hefði getað tínt til fleiri rök en kostnaðinn í heilbrigðis- og velferðarkerfinu. Afleiðingar óhóflegrar sykurneyslu koma líka fram í skertum lífsgæðum og líkams- og vinnugetu vegna ofþyngdar, áunninar sykursýki og hjartasjúkdóma og ótímabærra örkumla og dauða.   

Fyrir áramót hefði hann líka getað bent á Íslendinga,sem fyrirmynd og framsýna þjóð, sem hefði hafið baráttuna gegn hinum vaxandi vágesti.  En sykurskatturinn, sem búið var að koma á, var felldur niður. 

Hvað næst?  Verðlækkun á tóbaki?  


mbl.is „Sykur ætti að skattleggja eins og tóbak“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Með landnemum sigldi´hún um svarrandi haf..."

Nógu slæm var hegðun víkinganna oft á tíðum þótt ekki sé reynt að ýkja hana frekar, þótt rannsóknir geti í fyrstu ýtt undir það. 

Til landnáms á Íslandi var að mestu efnt í samræmi við það sem sagnir og sögur greina og ef eitthvað var, var þáttur keltneskra manna og kvenna og norrænna manna sem komu frá Bretlandseyjum kannski hafður minni en vert var. 

Ég hyggst því standa við þá lýsingu sem gefin er í ljóðinu um íslenskku konuna í eftirfarandi erindi:

"Með landnemum sigldi´hún um svarrandi haf. 

Hún sefaði harma, hún vakti´er hún svaf. 

Hún þerraði tárin, hún þerraði blóð. 

Hún var íslenska konan sem allt á að þakka vor þjóð."


mbl.is Norrænar konur sigldu líka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það eru dæmi um að mælieiningar skópu stórhættu.

Það er augljóst óhagræði af því að nota ekki sömu mælieiningarnar í öllu og alls staðar á okkar miklu tækniöld. 

Það eru til dæmi um það að misskilningur varðandi mælieiningar hafi valdið slysum og jafnvel munað minnstu að stórslys yrði. 

Þessi hætta á stórslysi kom upp þegar menn héldu að nægt eldsneyti væri til flugs á Boeing 767 á leið vestur eftir Kanada af því að þeir rugluðu saman lítrum og gallónum. 

Þotan varð eldsneytislaus á stað, þar sem eini mögulegi nauðlendingarstaðurinn var aflagður flugvöllur við Gimli, sem notaður var fyrir ýmsar íþróttir. 

Þangað tókst flugmönnunum að svífa vélinni afllausrir og lenda henni klakklaust, þótt litlu munaði að hjólandi strákar á vellinu yrðu fyrir þotunni. 

Í fluginu eru menn enn að burðast með þrjár mælieiningar varðandi vegalengdir, kílómetra, landmílur og sjómílur. Einnig tommur og fet. 

Fyrstu árin sem ég ferðaðist um landið sem farþegi hafði ég gaman að fylgjast með hvernig gengi og finna út hraða vélarinnar miðað við jörð út frá því sem ég sá út um gluggann. 

Notaði þá alltaf kílómetra. Síðan lærði ég að fljúga sjálfur og þá komu landmílur og sjómílur til sögunnar. Ég vildi ekki kveðja kílómetrana og hef alla tíð síðan haft gaman af því að breyta þessum þremur mælieiningum í hverja aðra í huganum, sitt á hvað. 

Til að breyta sjómílum í kílómetra margfaldar maður fyrst með tveimur, dregur síðan einn tíunda frá og bætir síðan einum fjórða af mismuninum við. 100 = 100x2 sem eru 200. Einn tíundi eru 20, og þá er við komin í 180. Bætum síðan einum fjórða af mismuninum, (20) við, sem sagt 180 plús 5 og útkoman er 185.

Ef maður vill síðan vera hárnákvæmur er gott að vita að 100 sjómílur eru 185,2 kílómetrar.

Munurinn á sjómílum og landmílum er sá, að 100 sjómílur eru 115 landmílur, sem sagt 15% fleiri. Og 100 landmílur eru 87 sjómílur, sem sagt 13% færri.  

Og síðan er hægt að leika sér fram og til baka á milli allra mælieininganna og ég nota þær sitt á hvað eftir aðstæðum. 

Hef fyrir löngu lært utan að að 10 mílur á hraðamælum bíla eru 16 km, 20 mílur eru 32, 30 eru 48, 40 eru 64, 50 eru 80 og 60 eru 97 (hækkað upp af því að mílan er 1,609 km) o. s. frv. 

En það er samt bara til vandræða að vera að burðast með þetta svona og láta Kanann um að flækja þetta með tommum, mílum, gallónum, ekrum o.s.frv.

Í ofanálag geta engilsaxnesku þjóðirnar ekki komið sér saman um gallónin, heldur er amerískt gallón 3,785 lítrar en breskt gallón 4,53 lítrar og þarf stundum að breyta þar á milli þegar bornar eru saman upplýsingar hjá þessum tveimur þjóðum. 

Svo er breska pundið (lbs) ekki hálft kíló heldur 0,453 og þyngdareiningin stone er síðan notuð til að flækja málin enn frekar, til dæmis í þyngd manna í bardagaíþróttum. 

Auðvelt hugarreikningsdæmi að breyta enskum pundum í kíló, deila með tveimur og draga í viðbót einn tíunda frá útkomunni.   

En það ruglar bara fólk þegar talað er um fjölda hektara á sama tíma og flestir myndu frekar átta sig á flatarmálinu ef það væri sett fram í ferkílómetrum, þótt það sé afar fljótlegt hugarreikningsdæmi að í einum ferkílómetra eru 100 hektarar.

Nú síðast í morgunfréttum útvarpsins var talað um 11 þúsund hektara lands, sem hefðu brunnið í Ástralíu. Og hverju er venjulegur útvarpshlustandi nær sem ekki hefur vanist því að átta sig á flatarmáli mældu í þúsundum eða jafnvel milljónum hektara? 

Þarna hefði verið í lófa lagið fyrir útvarpsmanninn að segja að 110 ferkílómetrar lands hefðu brunnið, því að flestir vita nokkurn veginn hvað einn ferkílómetri er stór. 

En það er víst ekki hægt að ætlast til þess að allir séu sömu nördarnir og ég er, ekki heldur fréttamenn.  


mbl.is Kenndi metrakerfinu um flugslysið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband