Bankar ríki í ríkinu?

Bankar og fjármálafyrirtæki reyndust vera ríki í ríkinu í ótal löndum í aðdraganda Hrunsins. Þrátt fyrir stór orð var fjármálakerfið ekki stokkað upp að neinu ráði í kjölfar hrunsins heldur lagðar miklar byrðar á almenning til þess að helstu orsakavaldar kreppunnar gætu náð vopnum sínum og lagt í aðra vegferð. 

Írar og Íslendingar voru í hópi þeirra þjóða sem gengu í gegnum miklar hremmingar og ganga raunar enn.

Ég sá athyglisverða fréttaskýringu á bandarískri sjónvarpsstöð varðandi völdl og áhrif bankanna. Var sú fréttaskýring síst af öllu til að gefa von um að vantraust bandarísks almennings á Bandaríkjaþingi minnkaði, en þingið nýtur nú aðeins trausts 7% þjóðarinnar.

Sjónvarpsmaðurinn nefndi tvo atburði, sem gerðust um svipað leyti, og vekja spurningar um það hvort um tilviljun var að ræða að þetta gerðist á svipuðum tíma.

Annars vegar það, að tillögur þingsins í málefnum bankanna fólu í sér svo stórfelldan flótta frá upphaflegum fyrirætlunum, að engu var líkara en að tillögur bankanna sjálfra hefðu orðið ofan á.

Hins vegar það, að þingið samþykkti að framlög fyrirtækja til framboða þingmanna mættu verða tíu sinnum hærri en hingað til.

Sjónvarpsmaðurinn upplýsti að bankarnir væru í hópi þeirra fyrirtækja sem styrkja stjórnmálamenn mest.

Hann þurfti því ekki að bæta við þeirri spurningu að úr því að bankarnir gætu tífaldað styrki sína hér eftir, var það þá tilviljun að þetta tvennt gerðist á svipuðum tíma, annars vegar mikil eftirgjöf gagnvart bönkunum og hins vegar heimild til margföldunar á framlögum þeirra til einstakra frambjóðenda og þingmanna? 


mbl.is „Bankarnir hegða sér óásættanlega“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óttinn er helsta og lymskulegasta vopnið sem fyrr.

Adolf Hitler notaði ótta þjóðanna við nýjan hildarleik heimsstyrjaldar til þess að þvinga fram samninga fyrir aðgerðum hans eða aðgerðarleysi gagnvart þeim. 

Þetta tókst honum í félagi við Mussolini að minnsta kosti átta sinnum í röð, ýmist með algeru aðgerðarleysi Breta, Frakka og Sovétmanna eða gegn máttlausum mótmælum:

Hitler fór óáreittur inn í Rínarlönd 1936, studdi Franco í borgarastyrjöld á Spáni 1936-39, Mussolini tók Eþíópíu 1935-36, Hitler tók Austurríki 1938, samdi um yfirtöku Súdetahéraðanna sama ár, tók Tékkóslóvakíu 1939 og Ítalir tóku Albaníu sama ár og Hitler gerði griðasamning við Stalín í ágúst 1939.

Einu viðspyrnuna veittu Íslendingar 1939 þegar þeir neituðu Þjóðverjum um leyfi til nota landið fyrir flug sitt yfir Atlantshaf en á svipuðum tíma tóku Íslendingar þó 30 norska skógarhöggsmenn fram yfir vel menntaða Gyðinga sem innflytjendur til landsins.  

Þrátt fyrir þetta hafði Hitler í ræðu og riti, svo sem í bók sinni Mein Kampf, gert skilmerkilega grein fyrir fyrirætlunum sínum. Höfuðatriðin voru yfirburðir hins aríska kynstofns "Ubermenschen" yfir undirmálsþjóðum, "Untermenschen" á borð við Slava og blökkumenn, "Drang nach Osten" til að skapa "Lebensraum" fyrir Þjóðverja, uppgjör við hina glæpsamlegu Bolsévika í Kreml og útrýming Gyðinga.

 Í ofanálag var stærsta atriðið í stefnu Hitlers "aldrei aftur 1918", þ.e. heitstrenging um það að aldrei framar skyldu þýskir ráðamenn "svíkja þjóð sína" með því að gefast upp fyrir erlendu hervaldi, heldur berjast til síðasta manns.

Það var ekki tilviljun að "frelsi gegn ótta" var eitt af fjórum tegundum frelsis, sem Roosevelt Bandaríkjaforseti setti fram sem markmið lýðræðisþjóða heims.

Nú stendur yfir barátta fyrir þessu mikilvæga frelsi, sem er einn af hornsteinum vestrænnar lýðræðis- og mannréttindahugsjónar.

Það vita blóðþyrstir og hatursfullir vígamenn andstæðingar frelsis, mannréttinda og lýðræðis vel, og þess vegna fremja þeir voðaverk sín á þann hátt að það skapi sem mestan ótta.

Ef þeim tekst að ná því markmiði sínu að láta óttann glepja okkur sýn, svo að við hættum að þora að láta skoðanir okkar í ljósi og grípum í staðinn til óttablandinna ráða þar sem ofbeldi, kúgun og brot á mannréttindum eru talin réttlætanleg, ná þeir því takmarki sínu að koma á svipuðu ástandi hjá okkur og ríkir þar sem forneskjulegar og villmannlegar kúgunaraðferðir í grimmilegri og öfgafullri framkvæmd og túlkun á trúarsetningum eru orðnar yfirsterkari landslögum hjá þjóðum, sem hafa mannúð, mannréttindi, lýðræði og frelsi sem leiðarsteina.

Munum, að frelsi frá ótta var eitt af fjórum tegundum frelsis Roosevelts, og að hinar þrjár voru: Tjáninga- og skoðanafrelsi, trúfrelsi og frelsi frá skorti.       


mbl.is Einn hefur gefið sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband