Af hverju þá frekar en síðar?

Tilraunir dómsvaldsins til að læsa upplag Spegilsins ofan í kistu eins og lík í gröf í kirkjugarði, voru kannski framkvæmanlegar fyrir þremur áratugum, en nú eru aðrir tímar og hægt að skoða þetta eintak á netinu. 

Og þegar það er skoðað er satt að segja erfitt að finna mun á þessu spaugi og samsvararandi spaugi síðari tíma, sem ekki fór fyrir dómstóla. 

Vísa að öðru leyti í bloggpistilinn á undan þessum um þetta athyglisverða mál. 


Guð og Spaugstofuþátturinn. Hráki og koss.

Tvívegis þegar Spaugstofan var með þætti um páska, kom upp mikill kurr vegna meints brots þeirra á íslenskum lögum um guðlast. Einkum voru þessara raddir áberandi í annað skiptið sem þeir "drógu dár" að fermingum og voru þeir af sumum sakaðir um gróft brot á boðorðinu um að leggja ekki nafn Guðs við hégóma.

Í framhaldi af þessu stóðst ég ekki mátið heldur fór með þessa stöku á skemmtunum:

Fermingarbörn fóru hnuggin i háttinn.

Hneyksluð var þjóðin og æst

og þegar Guð sá Spaugstofuþáttinn

sagði hann: Dsísús Kræst!  

Nú vaknar spurningin hvort bæði þátturinn og vísan voru guðlast og refsiverð lögum samkvæmt.

Samanburður við dóminn yfir Úlfari Þormóðssyni er erfiður vegna þess blaðið var gert upptækt og er það enn og auk þess er svo langt um liðið síðan það kom út, að ég man ekki hvort ég sá það.

Hér kem ég með p.s. á viðeigandi stað. Var að skoða hið fordæmda blað og sé í fljótu bragði ekki stigsmun á því sem þar er spaugað með um fermingar og því hefur komið fram ítrekað síðar í spaugi um sama fyrirbæri. 

Það bendir til þess að tímarnir hafi breyst og aldrei varð ég var við að neinn móðgaðist eða fyrtist við þegar ég fór með stökuna og var ég feginn því, vegna þess að ég var ekki alveg viss fyrirfram um viðtökurnar.

Auk þess er kveðskapur hjá mér af þessu tagi alger undantekning, heldur hef ég í gegnum tíðina samið það marga sálma og trúarlega söngva í fullri alvöru að þeir eru að minnsta kosti orðnir þrjátíu. 

Þetta er eins og svo oft spurning um stemningu, aðstæður og hvernig það er flutt. 

Þegar séra Jakob Jónsson varð meðal annars doktor út á ritgerðina "Skop og háð í Nýjatestamentinu" ( Humor and Irony in the New Testament) fannst sumum tiltækið glannalegt.

Nær allir höfðu ekki haft hugmynd um að slíkt væri að finna í hinni helgu bók. 

En vígðir menn hafa margir haft auga fyrir slíku og ég þekki einn prestlærðan mann, sem er sérfræðingur í þvi´sem hann kallar "Jesúbrandara".

 Þegar verið er að meta alvarleika háðs og skops kemur í ljós, að stundum er erfitt að skilja af hverju einum þykir eitthvað særandi og móðgandi þegar öðrum þykir svipað atferli eða orðalag það ekki.

Mér kemur í hug munurinn á því að hrækja og kyssa. Það er talið sérlega móðgandi og jafnvel refsivert að hrækja, þótt ekki sé nema í átt að manni, til dæmis lögreglumanni.

Hins vegar gildir allt öðru máli ef viðkomandi tæki sig til og kyssti í stað þess að hrækja.

Fylgir kossi þó varla minni smithætta en hráka, sem lendir jafnvel ekki í andliti þess sem hrækt er til.

Mörg dæmi eru um það að það, sem einni þjóð eða hópi fólks finnst sérlega særandi og móðgandi, finnst öðrum algerlega saklaust. Og stundum móðga menn eða særa alveg grandalausir.  

Og svipað er að segja um það samhengi og þær aðstæður og tíma, sem stundum ráða úrslitum um það hvort háðið sé særandi eða bara skemmtilegt og meinlaust.   

 


Mun líklegri lausn á gátu en hjá AF447.

Árangur leitarsveita vegna brotlendingar flugs QZ8501 á Jövuhafi er þegar orðinn miklu meiri en var á svipuðum tíma eftir hvarf AF447 yfir Suður-Atlantshafi 2009, að ekki sé nú talað um M870, sem enn er líkast til stórfelldasta og dularfyllsta hvarf flugsögunnar. 

Franska þotan sem fórst á Suður-Atlantshafi hafnaði á margfalt meira dýpi en sú malasíska nú og úti á miklu stærra reginhafi. 

Kassarnir, sem þarf að finna, eru raunar tveir, "svarti kassinn" með gögnum um flughreyfingar vélarinnar og stöðu vélbúnaðar og stjórnbúnaðar hennar og "rauði kassinn" með hljóðupptökum af því sem fram fór í stjórnklefanum. 

Þessar upplýsingar náðust um síðir úr flaki AF447 á ævintýralegan hátt og leiddu til þess að það mjög svo dularfulla hvarf upplýstist að fullu um síðir, þremur árum eftir að vélin fórst. 

Í ljós kom að flugvélin hafði lent í hættulegum veðurskilyrðum, sem út af fyrir sig hefðu ekki þurft að leiða til þess að hún færist, heldur voru það röng og afar dramatísk viðbrögð áhafnarinnar sem ollu því að vélin fórst með öllum þeim, sem um borð voru, þeirra á meðal einum Íslendingi.

Air France og önnur flugfélög gerðu ráðstafanir til þess að bæta þjálfun flugmanna eftir það slys og fróðlegt verður að sjá hvað olli því nákvæmlega að QZ8501 fórst.  


mbl.is Nema „smelli“ á Jövuhafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband