Nauðsynlegur og löngu tímabær viðbúnaður.

Bæði Íslendingar og útlendingar verða hissa þegar þeim er sagt frá því að hraun hafi runnið eftir ísöld alla leið frá virkjanasvæði Tungnaár og Þjórsár niður Skeið og Flóa og í sjó fram.

Þetta er aðeins eitt af mörgum dæmum um það, hve eldsumbrot geta haft óskaplegar afleiðingar á hinum eldvirka hluta landsins.

Það var fyrir löngu kominn tími til að efla viðbúnað gegn náttúruhamförum í því landi þar sem einhver mikilvirkustu náttúruöfl, sem finnast á byggðu bóli, geta hvenær sem er valdið gífurlegum usla og tjóni.

Það er því vel að á vegum Landsnets séu möguleikar á slíku rannsakaðir og fundið út og æft hvernig best sé að bregðast við því.   

 


mbl.is Viðbrögð við eldgosi og flóðum æfð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Kristján tíkall."

Sambúð Íslendinga og síðasta konungsins yfir Íslandi var sérkennileg. Á ytra borðinu var hún slétt og felld og sýndist jafnvel innileg þau 32 ár sem hann var konungur okkar og Dana.

Í samræmi við einveldið fyrir 1849 var skylda að draga fána að hún á afmælisdegi konungs og "flagga fyrir kónginum" á hverju hausti. Þessu man ég vel eftir.

Þegar konungur átti afmæli haustið 1940 var sérstök dagskrá haldin honum til heiðurs og meira að segja guðsþjónusta af því tilefni í dómkirkjunni.

Þó var Danmörk hernumin af Þjóðverjum og Ísland af Bretum.

Konungur kom tvívegis í opinbera heimsókn til Íslands, 1921 og 1930, tvöfalt oftar en faðir hans og afi.

Þegar Alþingi var sett ár hvert voru hrópaðar tvær setningar og byrjaði hin fyrri svona: "Heill konungi vorum...". Og húrrahróp fylgdu á eftir.

Beðið var fyrir konungi í öllum messum eins og gert hafði verið um aldir, og gat slíkt orðið sérkennilegt fyrr á tíð þegar liðið gátu mánuðir sem að konungurinn hafði verið dauður án þess að Íslendingar hefðu hugmynd um það, síðast 1863.

Í landslögum var bannað að tala almennt óvirðulega um þjóðhöfðingja heimsins og varð Þórbergur Þórðarson fyrir barðinu á því fyrir að tala óvirðulega um Adolf Hitler.

En þetta var slétt og fellt yfirborð. Undir niðri kraumaði ákveðin óánægja og órói á árum sjálfstæðisbaráttunnar.

Ég man eftir því þegar sungið var opinberlega í gamanvísum um "Kristján tíkall."

Friðrik áttundi, faðir Kristjáns, var Íslandsvinur eins og fræg ræða hans við Kolviðarhól 1907 bar vitni um, en honum sárnaði ákaflega þegar Íslendingar felldu uppkastið 1908.

Sonur hans tók þetta afar óstinnt upp og virtist ekki hafa getað fyrirgefið Íslendingum þetta og því síður fyrirgefið þegar lýðveldið var stofnað 1944 án viðræðna við Dani.

Þó gátu vitrir menn ytra fengið hann til að drattast til að senda Íslendingum heillaskeyti sem lesið var upp á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum við mikinn fögnuð þeirra sem þar voru.

Sérkennilegt er að sjá núna, næstum öld síðar, að Kristján hafi látið sér detta í hug að senda dönsk herskip til Íslands til að aga landsmenn.

Í fyrra tilefninu, höfnun uppkastsins 1908, var Kristján krónprins, en var síðan orðinn kóngur þegar fánadeilan var í gangi.

Rakið hefur verið hvernig Danir hikuðu ekki við það margsinnis að gera Ísland að verslunarvöru og falbjóða landið stórveldum ef þeim hentaði.

1918 voru Íslendingar svo heppnir, að Danir gerðu Ísland að óbeinni verslunarvöru í krafti 14 punkta Wilsons Bandaríkjaforseta í friðarsamningum í lok Heimsstyrjaldarinnar síðari.

Þeir bættu samningsaðstöðu sína gagnvart Þjóðverjum með því að slaka á gagnvart Íslendingum með Sambandslögum og þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi, og ná fram á móti þjóðaratkvæðagreiðslu í Slésvík-Holsetalandi um landamæri Danmerkur og Þýskalands.

Í fátækt sinni og umkomuleysi fyrr á öldum var óhjákvæmilegt að einhver erlendur konungur réði yfir Íslandi.

En þrátt fyrir allt voru Íslendingar heppnir að það voru Danir en ekki eitthvert stórveldanna sem ráði yfir Íslandi. Danir voru illskárri.

Undir stórveldi hefðu Íslendingar ekki haldið tungu sinni og menningarlegri og þjóðernislegri reisn.

Danir og aðrar Norðurlandaþjóðir mátu mikils sameiginlegan menningararf, sem Íslendingar höfðu skapað og varðveitt, fyrir sjálfsvitund sína og þjóðerni, og þess vegna verður gildi íslenskrar tungu og menningar seint ofmetið.


mbl.is Kristján X. vildi aga Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mismunandi stórar eyjar.

Árið 2003 þegar ég spurði unga íslenska konu sem hafði nýlega byrjað að vinna í Helsingborg í Svíþjóð hvort hún ætlaði ekki að flytja heim til Íslands var svarið neikvætt.

"Af hverju?" spurði ég.

"Ég vel frelsið sem fylgir því að eiga heima á meginlandi Evrópu þar sem ég get farið af stað hvenær sem mér sýnist eða hentar hvert sem ég vil akandi á einkabíl mínum eða í lest til að njóta þess besta sem boðið er upp á í menningu, þjónustu og afþreyingu," svaraði hún.

Ég get ekki hugsað mér að vera bundin við það að komast um borð í flugvél og sæta töfum og umstangi við að fara frá eyju langt úti í ballarhafi."

Mér fannst svarið undarlegt í fyrstu en síðan varð mér hugsað til eyja við Ísland, eins og Vestmannaeyja, þar sem svarið er oft svipað:

"Ég get ekki hugsað mér aða vera bundin við það að komast ekki úr eyjunni stóran hluta úr ári nema að sæta færis á flugfari eða ferjusiglingu með tilheyrandi töfum og umstangi til það njóta þess besta sem Reykjavík býður upp á í menningu, þjónustu og afþreyingu."  

 


mbl.is Fjöldi Íslendinga flytur úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. nóvember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband