París valin vegna ráðstefnunnar 30. nóvember ?

Enn eru að gerast þeir atburðir í París sem ekki er séð fyrir endann á né hverjir standa að þeim, en líklegt verður að teljast að það séu sömu öfl og stóðu fyrir árás þar fyrir ári.

Þessi árás er margfalt stærri en sú árás og fyrsta útgöngubann í París síðan í Seinni heimsstyrjöldinni er staðreynd.

Sé rétt að 40 þúsund manns sé stefnt til Parísar á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna eftir rúmar tvær vikur er ljóst að þessi árás nú er hrein ógn við hana.

Þjóðir heims sýndu mikla samstöðu í fyrra í kjölfar hryðjuverkaárásanna þá, en tvennt liggur nú þegar fyrir: Það verður miklu erfiðara nú en þá að ná tökum á ástandinu, en einnig er það miklu þýðingarmeira en nú að láta glæpamennina ekki takast sitt kúgunarætlunarverk og skapa stjórnlausan ótta og ringulreið.

Hryðjuverkasamtökin, sem eru augljóslega mjög öflug, hafa kannski valið þennan tíma með tillitig til ráðstefnu Sþ og ákveðið að láta til skarar skríða áður en hinar gríðarlegu öryggisráðstafanir hefðu verið gerðar vegna hins stóra viðburðar.

Kannski verður að fresta Parísarráðstefnunni eða flytja hana annað, jafnvel vestur um haf.

Hvort sem gert yrði, yrði því miður sigur fyrir glæpaöfl ótta og skelfingar.

Nú reynir verulega á hugstyrk og samstöðu þjóðanna.  


mbl.is „Þetta eru hryðjuverkamenn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heppinn að vera lifandi?

Skemmtistaðir geta verið lífshættulegir ef mönnum dettur eitthvað í hug á sekúndubrotinu til að skemmta sér og öðrum en það mistekst með hrapallegum afleiðingum.

Þetta má sjá í tengdri frétt á mbl.is þar sem maður lét lífið eftir að honum datt í hug að fara heljarstökk aftur á bak.

Þegar ég sé þessa frétt bregður mér við og ekki í fyrsta sinn. Því að á skemmtun Sumargleðinnar á Kirkjubæjarklaustri 1979 misreiknaði ég mig aðeins í því að líkja eftir drykkjulátum töffara í lok flutnings lagsins Sveitaballs og sá fram á að detta af hárri sviðbrúninni fram í salinn.

Á því sekúndubroti sem ég vó salt á hárri sviðsbrúninni datt mér þá sú fáránlega hugmynd í hug að í stað þess að falla beint áfram fram af brúninni, væri miklu magnaðra og flottara að fara heljarstökk áfram fram af henni og koma niður á fæturna.

En þetta mistókst hrapallega og ég kom beint niður á hausinn og fékk svakalegan hnykk á hálsinn.

Jón bróðir minn sat á fremsta bekk og sagði síðar að honum hefði ekki dottið annað í hug en að ég hefði hálsbrotið mig.

En ég slapp við það, óð upp á sviðið og kláraði lagið.

Ég var með talsverð eymsli í hálsinum í 2-3 vikur en síðan lagaðist það og ég hélt að ég hefði sloppið.

Hefði samt átt að fatta, að eitthvað væri að, þegar ég fór með tímanum að eiga æ erfiðara að teygja hægri handlegginn aftur fyrir mig þegar ég sat í flugmannssæti og þurfti að seilast í eitthvað aftur í vélinnni.

Á 25 ára skemmtanaafmælisdagskrá á Broadway 1984 tók ég upp á því að fara kollhnís afturábak á sviðinu í lok Sveitaballs.

Eftir nokkur skipti fékk ég slæman verk í hálsinn og hætti þessu.

En vorið 1985 tók þetta sig hressilega upp og varð ég að fara í hálskraga og röntgenskoðun.

Kom í ljós að sjöundi hálsliður hafði skaddast 1979 og aftur 1984 svo að götin í sjöunda hálslið fyrir afltaugarnar út í handleggina höfðu hálffyllst af hörðum kalkkendum örvef, sem næstum því lokaði gatinu hægra megin.

Ég þorð ekki annað en að hætta keppni í ralli á miðju keppnistímabili 1985, en í lok keppnistímabilsins kom í ljós, að mér hefði nægt að lenda í 4. sæti í einni keppni til að vinna Íslandsmeistaratitilinn.

Síðan þetta gerðist hef ég alla tíð verið með hálsverk og átt í vandræðum með að skrifa og vélrita.

Þetta hefur ágerst í vetur og truflað svefn.

En ef ég hefði verið eins óheppinn og Frakkinn, sem drap sig á heljarstökki, hefði ég dáið frá konu og sjö börnum 39 ára gamall.

Og eftir atvikið 1979 segi ég stundum í hálfkæringi, að það hættulegasta sem ég hafi gert um ævina sé að syngja Sveitaball.


mbl.is Lést eftir heljarstökk aftur á bak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og um hásumar við Geysi og í Þýskalandi.

Það er svolítið skrýtið að upplifa sumt sem á leið manns verður þessa dagana. Í kvikmyndatökuferð fyrir tónlistarmyndband í dag frá Reykjavík til Gullfoss hefur umferð ferðamanna verið eins og um hásumar fyrir örfáum árum, til dæmis við Geysi, rúta við rútu og bíll við bíl.

Það var dýrðarveður sem lék við okkur Friðþjóf Helgason í þessari ferð og jafnvel auð jörð sums staðar á heiðarvegunum, þótt jörð væri flekkótt á Mosfellsheiði, þar sem þessi mynd var tekin.

Í þá viku sem ég var í Bæjaralandi í Þýskalandi og Austurríki núna fyrir skemmstu var allt að 22ja stiga hiti og heiðskírt veður  og ekki amalegt kvikmyndatökuveður.

Þetta síðbúna sumar hefur verið á þessum slóðum í nokkrar vikur, og sömuleiðis má sjá á veðurkortum, að í Norður-Ameríku mestallri er enn svona hlýtt, langt norður í Kanada.  


mbl.is Dregur úr vindi og úrkomu í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Djúpur harmur. Nýjar flugvélar hafa reynst vel.

Ég er sleginn miklum harmi vegna flugslyssins í gær. Hef bundist traustum vináttuböndum við eigendur, forráðamenn og starfsfólk Flugskóla Íslands eftir áratuga löng og farsæl kynni.

Sendi þeim mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Fyrir tæpu tveimur árum keypti Flugskólinn Tecnam flugvél til að nota við kennslu, og í ljósi reynslunnar af henni og annarar vélar af sömu gerð, sem var keypt í kjölfarið var ákveðið að kaupa þrjár nýjar vélar af þeirri gerð í viðbót.

Flugskólar víða um lönd eru að endurnýja flugflota sína, sem hafa í meira en hálfa öld að mestu samanstaðið af vélum af Cessna-gerð, sem hafa í meginatriðum verið óbreyttar allan þennan tíma og flestar komnar til ára sinna.

Flugskólar, bæði hér á landi og erlendis, hafa því snúið sér í auknum mæli að nýjum og sparneytnari gerðum kennsluflugvéla.

Flugvélin sem fórst, var á flugi í skilgreindu æfingasvæði yfir hraununum suðvestan Hafnarfjarðar.

Á þessu stigi máls er engin leið að segja neitt um ástæðu slyssins og ekkert liggur fyrir um það hvort hið úfna hraun átti þátt í því hve illa fór.

 

 


mbl.is Vettvangsrannsókn að hefjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþjóðlegt verkefni.

Hið risavaxna verkefni varðandi lofthjúp jarðar getur aldrei, eðli málsins vegna, orðið annað en alþjóðlegt.

Það er vegna þess að lofthjúpurinn er bara einn og sameiginlegur fyrir alla jarðarbúa.

Þess vegna eru aðgerðir hverrar þjóðar til að minnka mengun hans alveg eins viðeigandi heima eins og í öðrum löndum.

Útblástur bíls í dreifbýli á Íslandi vegur eins þungt og jafn mikill útblástur bíls í New York.

Við Íslendingar getum lagt sitt af mörkum í verkefnum hér heima eins og í fjarlægum löndum þar sem við höfum aðstöðu til þess að taka til hendi og það er af hinu góða að gera gagn, þar sem það liggur vel við fyrir okkur, þótt það fari fram í fjarlægu landi.   


mbl.is Milljón í Græna loftslagssjóðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. nóvember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband