Ratsjársvari getur verið gagnlegur en er takmörkunum háður.

Eina tækið um borð í litlum flugvélum, sem gæti orðið gagnlegt við rannsókn flugatvika, er svonefndur ratsjársvari eða transponder á erlendu máli.

Sé slíkt tæki í flugvél og kveikt á því sendir það boð sem gerir flugumferðarstjórum kleift að sjá á skjá hvar flugvélin er stödd hverju sinni. Jafnvel hægt að stilla svarann þannig að hann sýni líka flughæð.

Misjafnt er hvort slíkt tæki er í litlum flugvélum, en ef svo er, er hægt að sjá á upptöku feril flugvéla eftir á.

Í flugi í æfingasvæðum eins og suðvestan við Straumsvík eru flugmenn æfðir í að stjórna flugvélum við erfiðar og krefjandi aðstæður.

Einstakar gerðir flugvéla láta misjafnlega að stjórn við æfingu svona atriða.

Þótt eftir á sé hægt að sjá feril flugvélar, sem brotlendir, á ferli sem ratsjársvari sýnir er erfiðara að sjá orsökina, sem getur orsakast af bilunum.

Ef enginn sjónarvottur hefur verið að slysinu verður erfitt að finna út orsakir þess nema við rannsókn flaksins og því er engin leið að segja neitt um það á þessu stigi.

Svo margir óvissuþættir eru varðandi það að lesa út úr svona upplýsingum að miklu fleiri atriði en feril vélarinnar þarf til að upplýsa málið.

Ofangreindur almennur fróðleikur er birtur sem viðbót við tengda frétt á mbl.is um þetta mál.

  


mbl.is Enginn flugriti í minni vélum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alhæfingar sem hafa afleiðingar.

Adolf Hitler var hugfanginn af þeirri alhæfingu að allir Gyðingar væru svo vondir og trú þeirra svo hættuleg, að ekki dygi minna en að útrýma þeim öllum, hverjum einasta einum, líka börnum.

Hitler sá sérstaka ógn í þeirri sjálfsvitund Gyðinga að þeir væru Guðs útvalda þjóð. Þar sýndist honum kominn keppinautur um titilinn "yfirburðakynstofn."

Adolf Eichmann harmaði í viðtali við Brasilíumann, að ekki hefði tekist að drepa nema 6 milljónir af 10,5 Gyðingum.

Alhæfing Hitlers leiddi af sér þennan hugsunarhátt og hafði skelfilegar afleiðingar.

Ég sat á tali við góðan og gegnan Íslending á laugardaginn sem fullyrti að allir Múslimar, hvar sem þeir væru í heiminum, væru eins hvað það snerti að halda fast í öfgafyllstu trúarsetningar Kóransins.

Á þessum Íslendingi var að skilja að leysa þyrfi "múslimavandamálið" með því að útrýma þeim öllum úr íslensku þjóðfélagi og taka ekki við neinum flóttamanni með múslimatrú.

Þegar aðeins hluti Gyðinga í Þýskalandi og öðrum Evrópulöndum, sem nasistar réðu, flúði frá álfunni, var aðeins ein leið til að "leysa Gyðingavandamálið", að útrýma þeim, sem eftir voru á yfirráðasvæði nasista, en það var yfirgnæfandi meirihluti evrópskra Gyðinga.   

Ef allir ráðamenn á Vesturlöndum væru sömu skoðunar og hinn íslenski viðmælandi minn um að uppræta múslima og múslimatrú í Evrópu og Norður-Ameríku, og ekki hægt að flytja alla múslima suður yfir Miðjarðarhafið, yrði ekki hægt að leysa "vandamálið" öðruvísi en Hitler gerði, að útrýma öllum hinum hættulegu trúarbræðrum.

Þetta er einföld röksemdafærslau sem sýnir hve varasamar alhæfingar geta verið.


mbl.is Fólk á flótta ekki óvinir Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að þekkja andstæðinginn og viðfangsefnið.

Að þekkja andstæðinginn er grundvallaratriði alls staðar þar sem tekist er á, hvort sem það er á friðsamlegan hátt eins og í íþróttum eða í hörðustu hernaðarátökum.

Vanmat er hættulegt og sömuleiðis ofmat. Rétt mat mat á báðum aðilum, á aðstæðum, orsökum og afleiðingum og rétt stöðumat, allt er þetta grundvallarnauðsyn.

Dæmin um að þetta hafi skipt sköpum eru óþrjótandi.

Þess vegna er tengd frásögn fransks blaðamanns af kynnum hans af félögum í Ríki Íslams athyglisverð.

Í sögu Biblíunnar vanmat Golíat Davíð.

Napóleon vanmat gróflega Rússa og aðstæðurnar í hernaði sínum í Rússlandi.

Í aðdraganda Seinni heimsstyrjaldarinnar vanmátu menn Hitler og síðar vanmat Hitler staðfestu Breta og Rússa.

Max Schmeling rannsakaði stíl Joe Louis út í hörgul og fann litla veilu í vörn hans, sem hann nýtti til þess að sigra þann, sem talinn var ósigrandi.

Louis lærði af þessu og gjörsigraði Schmeling í seinni bardaga þeirra.

Frakkar vanmátu vígstöðuna í Ardennafjöllum vorið 1940 og gjörtöpuðu fyrir Þjóðverjum.

Hitler fylltist ofmati eftir sigurinn og tapaði í styrjöldinni.

Fyrsti ósigur Bandaríkjamanna í styrjöld, Vietnamstyrjöldinni, byggðist á miklu vanmati þeirra á andstæðingnum og stöðunni hjá almenningi heima fyrir.

Styrjöldin tapaðist bæði eystra og ekki síður heima fyrir.

Bandaríkjamenn vanmátu stöðu og ástand í Íran herfilega fram til 1979 og guldu það dýru verði.

Saddam Hussein vanmat vígstöðuna gagnvart umheiminum og samstöðu alþjóðasamfélagsins þegar hann réðist inní Kuveit.

George Bush eldri sýndi hins vegar raunsætt mat þegar hann lét sér nægja að reka Saddam út úr Kúveit og taka ekki áhættuna af því að fara út í frekari herför með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Út í slíka herför óð hins vegar sonur hans, og við erum ekki enn búin að bíta úr nálinni með afleiðingarnar af henni.

Núverandi ástand í átökum öfga Íslamista við aðrar þjóðír krefjast djúps stöðumats og þekkingar á öllum hliðum ástandsins, orsökum og afleiðingum þeirra og eðli átakanna og málsaðila.   

 


mbl.is „Það sem þeir óttast er samstaða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíminn í ræktinni, gönguferðir, hjólaferðir, - gefandi "tímasóun".

Þegar ég lít yfir lög, texta og hugmyndir, sem ég hef fengið um dagana, er áberandi hve mikið af þessu varð til af því að maður gaf sér tíma til að komast í annað umhverfi og athafnir en þetta hversdagslega, - leyfði sér að "sóa tímanum" svolítið í stað þess að vera í stanslausu kapphlaupi nútíma lífs.

Ef ég ek milli Akureyrar og Reykjavíkur í stað þess að fljúga tapa ég að vísu um 2-3 klukkustundum þegar allt er tínt saman, en á móti bregst það varla, að eitthvað dettur í hausinn á manni sem annars hefði ekki gert það.

Ég hef ekki tölu á þeim lögum og textum sem hafa að mestu orðið til í akstri, stundum til að halda sé vel vakandi á löngum ferðum.


mbl.is Göngutúrar í stað sálgreiningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margir bakarar hengdir fyrir smiði?

Í vestrænum samfélögum gildir það að hver maður telst saklaus af ásökunum nema sannaðar séu.

Í harðorðum deilum í kringum sannaða lyfjamisnotkun Ben Johnsons á Ólympíuleikunum í Seuol 1986 var reynt að gera Carl Lewis, helsta keppinaut hans, tortryggilegan.

Ekkert sannaðist á Lewis og hann hefur æ síðan haldið gullverðlaunum sínum.

Frjálsar íþróttir eru einstaklingsíþróttir og því afar ósanngjarnt að refsa afreksfólki þar að ósekju fyrir misgerðir annarra.

Að vísu stunda þjóðirnar talningu á verðlaunum þegna sinna hverju sinni, en það breytir ekki eðli frjálsra íþrótta.

Ef Alþjóða frjálsíþróttasambandið telur að það rússneska afreksfólk, sem nú hefur beðið um að fá að keppa á næstu Ólympíuleikum sem saklaust í þessum efnum, megi gruna um lyfjamisferli vegna þess hve almennt lyfjamisferli hafi verið hjá rússnesku frjálsíþróttafólki getur það aðeins sýnt tvennt:

1. Rangsleitni gagnvart fólki sem ekkert misferli hefur verið sannað á.

2. Úrræðaleysi og uppgjöf varðandi það að halda uppi eftirliti gagnvart lyfjamisnotkun, sem komi að gagni.

3. Hvort tveggja.

Ekkert af þessu er gott og brýn nauðsyn er að hreinsa þessi mál á þann hátt að komið sé í veg fyrir þetta skaðlega fyrirbæri sem stórskaðar íþróttirnar og jafnframt sýnd sanngirni.

 


mbl.is Ekki eyðileggja drauminn okkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. nóvember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband