Ekkert lát á auglýsendum.

Ekkert þurrð virðist vera á frægu erlendu fólki sem hælir landi okkar upp í hástert og auglýsir það betur en nokkrar ferðaauglýsingar geta gert.

Og við rekum mörg upp stór augu þegar við sjáum hvað útlendingarnir sjá merkilegt við það sem okkur finnst ekkert merkilegt eða jafnvel ómerkilegt.

Justin Bieber veltir sér upp úr íslenskum mosa, sem áratugum saman hefur verið útmálaður sem "ömurlegt" fyrirbæri á leiðinni frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur.

Hann er dolfallinn yfir söndunum sunnlensku, eins "ljótir og svartir" og okkur hefur fundist þeir vera, en fellur ekki í stafi yfir því sem um aldir hefur hrifið Íslendinga vegna ljóðlínanna um það fyrirbæri:  "Fögur er hlíðin..bleikir akrar og slegin tún."

2010 grétu margir Íslendingar yfir því hvernig eldfjallið Eyjafjallajökull hafði útleikið allt næsta nágrenni sitt með viðbjóðslegri ösku og valdið óhemju búsifjum í flugi um allan heim.

Nú var fokið í flest skjól fyrir Íslandi og það eyðilagt sem ferðamannaland.

En þvert á móti kom í ljós, sem í upphafi var spáð hér á bloggsíðunni, að ekkert eitt atriði í sögu landsins hafði auglýst það og undur þess eins rækilega og þetta gos, sem varð til þess að nafn landsins varð í fyrsta skipti á vörum nær allra jarðarbúa.

Ólíklegt er að Bieber fari í myndbandi sínu, þegar það verður allt sýnt, á þá staði sem stór hluti þjóðarinnar hefur haldið áratugum saman að hljóti að vera það merkilegasta, sem sé Hallormsstaðarskógur eða Vaglaskógur.

Jafnvel þótt óskandi væri fyrir okkur að við gætum stjórnað því hvað útlendingum þyki merkilegast og hrífist mest af, eins og svo lengi var reynt áratugum saman.  

Bara vegna þess að það sem þeim fannst magnaðast, var svo skelfilega hversdagslegt eða hallærislegt í okkar augum.

 

 


mbl.is Bieber með myndband frá Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðskulduð velgengni.

Velgengni lagsins "Heyr himnasmiður" á Youtube er verðskulduð. Í góðum flutningi hefur þetta lag verið fágæt gersemi meðal íslenskra laga.

Höfundur ljóðsins var einn af höfðingjum Sturlungaaldar þar sem stríðandi höfðingjar landsins komust ekki hjá því að berast á banaspjótum og sogast inn í mestu grimmd, sem ríkt hefur í sögu landsins.

Ljóðið er einlægt ákall manns, sem á ekki langt eftir í það að falla í einum af bardögum þessarar aldar stanslausra vígaferla og grimmdarverka, sem hann telur sig tilneyddan að taka þátt í og storka þannig örlögum sínum.

Það kann að vera hægt að segja að Landnámsöldin og Söguöldin hafi ekki síður morað í illvirkjum og mannvígum en Sturlungaöld.

Munurinn er hins vegar sá að á þeim öldum voru manndráp og vígaferli greypt í veruleikann hjá ásatrúarmönnum, og menn þurftu samkvæmt þágildandi landslögum að rækja hefndarskyldu og beita refsingum persónulega gegn þeim sem misgert höfðu við þá.

En á Sturlungaöld hefur verið kristni í landinu í tvær aldir, trúarbrögð með friðarboðskap Krists sem er í mótsögn við manndráp og illvirki, og einnig eru orrusturnar svo miklu stærri og mannskæðari en áður.

Þegar þetta er haft í huga og hin sálrænu átök, sem herja á kristna höfðingja sem standa fyrir þessum orrustum eða telja sig tilneydda til þess að gera það, verður ákall Kolbeins Tumasonar skömmu áður en hann sjálfur fellur í einni af þessum orrustum enn áhrifameira.

En þó má segja að lag Þorkels Sigurbjörnssonar sé svo gott, að það eitt og sér sé tær snilld.  

 


mbl.is Heyr himnasmiður slær í gegn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur ekki minnstu áhrif á neitt.

Jarðskjálftinn við Héðinshöfða norðan við Húsavík í nótt var á nokkurn veginn þeim stað, þar sem búast má við stærsta jarðskjálfta á Íslandi eftir því sem er mat færustu jarðskjálftafræðinga.

Þar er nú unnið að því, þrátt fyrir aðvörunarorð, að reisa verksmiðju sem verður með fljótandi málmi.

Vegna þessarar verksmiðju voru veittar stærstu ívilnanir, sem veittar hafa verið enn fyrir stóriðju á Íslandi.

Störf vegna stóriðju á Íslandi eru þau langdýrustu sem hægt er að stofna til, milljarður hvert starf, á sama tíma sem störf við skapandi greinar kosta nokkur prósent af þeim kostnaði.

Arðinn af stóriðjunni flytja útlendingar úr landi og borga jafnvel engan tekjuskatt.

Sagt er að verksmiðjan muni fjölga mjög ungu íslensku fólki til framtíðar á svæðinu þótt í ljós sé að koma að stóriðja stöðvar ekki flutning ungs fólks í burtu af landsbyggðinni.

Fróðlegt væri til dæmis að vita um samsetningu vinnuaflsins hjá Fjarðaráli í Reyðarfirði þar sem sagt hefur verið frá fjölmennri messu kaþólska biskupsins á Íslandi nýlega.

Hún skyldi þó ekki hafa verið haldin fyrir Pólverjana á staðnum?

Sú verksmiðja kostaði mestu neikvæðu óafturkræfu umhverfisáhrif sem mögulegt er að valda á Íslandi.

Nýja verksmiðjan norðan Húsavíkur verður reist á miðpunkti mesta jarðskjálftahættusvæðis Íslands. Sú staðreynd hefur ekki haft og mun ekki hafa minnstu áhrif á framgang þess máls.

Þannig er Ísland í dag.   

P.S. Í fréttum í dag kemur fram í viðtali við formann Framsýnar að stórfelld brögð séu að því að íslenskir verktakar fái erlenda undirverktaka til starfa fyrir sig við framkvæmdir á Bakka og komist þannig hjá því að borga skatta og skyldur á Íslandi. Sérkennilegt í ljósi þess að framkvæmdin var talin forsenda fyrir innlendri atvinnuuppbyggingu, ekki erlendri.   


mbl.is Jarðskjálfti við Húsavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. nóvember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband