"Ljúft er að láta sig dreyma..."

"Láttu drauminn rætast" sagði gamla förukonan við mig þegar ég var strákur í sveit. Draumar hennar höfðu ekki ræst að öðru leyti en því að hún fékk verðlaun Búnaðarsambandsins, meðan hún var enn í fullu fjöri, fyrir einstakan dugnað og samviskusemi sem vinnuhjú.

En draumurinn um fjölskyldulíf á eigin jörð rættist aldrei.

Það er flott hjá Dagfinni Stefánssyni flugstjóra að halda upp á níræðis afmæli sitt með því að láta drauminn rætast og fljúga á Curtis-Jenny eins og Charles Lindberg og Amalía Erhardt gerðu forðum.

Allir dáðu Lindberg á þeim árum sem Dagfinnur var að alast upp, og Amalía Erhardt vann afrek sín á æskuárum Dagfinns.

Curtis-Jenny kom fram á sjónarsviðið árið 1915 og var þekktasta flugvél Bandaríkjamanna í Fyrri heimsstyrjöldinni og á árunum eftir hana.

Ég óska Dagfinni til hamingju með að tvöfalda merkan áfanga í lífinu.

Ljúfustu draumarnir þurfa ekki alltaf að vera þeir stórbrotnustu og flestir draumar rætast aldrei. Einstaka rætast seint og um síðir.

Þegar ég var 15 ára dreymdi mig um að hjóla og heimsækja vin minn sem var í dvöl að Glitstöðum í Norðurárdal, hjóla 20 kílómetra að meðaltali á klukkustund þessa 160 kílómetra vegalengd uppeftir en bæta árangurinn í bakaleiðinni í spáðri norðanátt og bjartviðri.

Móðir neitaði alfarið að leyfa mér þetta af rökstuddum ótta við að ég færi mér að voða.

Föður mínum tókst að ná fram þeirri málamiðlun að ég hjólaði uppeftir en tæki rútuna til baka á þeimm forsendum að hraðinn yrði minni á móti golu og brekku en undan strekkingi og brekku.  

Ég náði takmarkinu á leiðinni upp í Norðurárdal en varð að sleppa bakaleiðinni. Var afar spældur, hugsaði móður minni þegjandi þörfina og dreymdi um að láta drauminn um bakaleiðina rætast samt þegar ég yrði sjálfráða.

Hann rættist þó ekki fyrr en 60 árum síðar þegar meðalhraðinn á hjólinu Sörla undan norðangolu í björtu veðri varð 32 km/klst frá Hrútafjarðarhálsi til Lambhagavegamótanna, á 130 kílómetra vegalengd.

"Ljúft er að láta sig dreyma..." er upphafið á einu vinsælasta laginu 1954. Það eru orð að sönnu, jafnvel þótt draumarnir rætist aldrei.

Og hver veit nema að móðir mín hafi bjargað mér frá því að fara mér að voða á krókóttum og mjóum vegi á ofsahraða niður brekku undan norðanstrekkingnum.

Kannski gerði hún mér kleyft að láta drauminn rætast 60 árum síðar við allt aðrar og betri aðstæður.  


mbl.is Flaug Curtis-Jenny níræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hitler 1939. Ríki íslams núna.

Flestum sagnfræðingum ber saman um það núna, að Versalasamningarnir 1919 hafi verið heimskulega harðir gagnvart Þjóðverjum og undirrót óánægju og reiði Þjóðverja sem aftur varð vatn á myllu öfgaafla á borð við nasistaflokk Adolfs Hitlers.

Það breytir því hins vegar ekki, að afdráttarlaus fyrirætlun Hitler í Mein Kampf um að herja á Gyðinga og leggja alla Austur-Evrópu undir yfirráð "herraþjóðar" yfirburða ímyndaðs kynstofns Aría, fól í sér stríðsyfirlýsingu gagnvart vestrænum lýðræðisþjóðum og Sovétríkjunum.

Þegar Hitler hóf uppbyggingu þýska hersins um leið og hann var kominn til valda, sá Winston Churchill í hendi sér, hver ógn nasisminn var og að brýn nauðsyn væri að leita samstöðu sem flestra ríkja til að takast á við hana af fullu afli, jafnvel þótt bandamaður eins og harðstjórinn Stalín væri ekki beint þekkilegur kostur. 

Þegar Hitler réðist inn í Sovétríkin 1941 fylgdi Churchill þessari skoðun eftir og veitti Rússum fyllsta stuðning.

Þegar Talibanar sprengdu Búddastyttur í Afganistan í loft upp á valdaskeiði sínu og stunduðu grimmilega kúgun kvenna fólst í því stríðsyfirlýsing gegn gildum siðmenntaðra samfélaga og í ljós kom hve herfilega Bandaríkjamenn höfðu misreiknað stöðuna í landinu með því að styðja þessi myrku öfl gegn Rússum.

En svipuð saga endurtók sig með innrásinni í Írak og síðar stuðningi Bandaríkjamanna við andófsöfl gegn Assad í Sýrlandi.

Með því var skapað tækifæri fyrir öfgaöfl eins og Ríki íslams til að eflast og leggja undir sig stórt landsvæði með gjöfulum olíulindum.  

Ríki íslams hefur frá byrjun ekkert skafið utan af ætlun sinni um að ráðast gegn siðmenningu og menningarminjum heimsins og beitti strax í upphafi fádæma grimmilegum aðgerðum gegn fólki og dýrmætum menningarverðmætum í Sýrlandi og Írak .

Rétt eins og 1939 liggur hluti af undirrót ástandsins í afleiðingum mistaka Vesturlanda, Versalasamningsins snemma á síðustu öld, og aðgerðum í Írak og Sýrlandi á undanförnum árum.

En það breytir því ekki að stefna Ríkis íslams er skýr, að eyða siðmenningunni og mestu verðmætum hennar.

Því er aðalatriðið núna eins og við innrásina í Sovétríkin 1941, að rísa gegn þessu með sem flestum bandamönnum, þótt ekki séu þeir allir þekkilegir, frekar en Stalín á sínum tíma.

"Á skal að ósi stemma" sagði Þór og átti við að ráðast beint að upptökum árinnar.

Það þarf að gera í Sýrlandi, en jafnframt að gæta að því að láta reiði ekki bitna á saklausu fólki eins og gert var þegar Japanir réðust á Perluhöfn 1941 og þúsundir japanskra innflytjenda í Bandaríkjunum urðu fyrir miklum ofsóknum.

Þær misgerðir voru seinna viðurkenndar og beðist afsökunar á þeim.     


mbl.is Grípi til allra nauðsynlegra aðgerða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumur ISIS: Ótti og skelfing í stað friðar og öryggis.

Villimennska liðsmanna Íslamska ríkisins er dæmalaus í sögu síðustu þúsund ára að því leyti, að þeir sækjast eftir að eyða siðmenningunni, sem þróast hefur í heiminum í mörg þúsund ár.

Nasistar stálu listaverkum en eyddu þeim ekki. Bolsévikar hrófluðu ekki við Kreml.

En Talibanar í Afganistan sprengdu fornar styttur af Búdda í loft upp og nú fréttist af þeirri ætlan ISIS-manna að sprengja Péturskirkjuna og eyða sem flestum öðrum dýrustu menningarverðmætum heimsins.

ÍSIS-menn hata það öryggi og friðsæld sem samfélög heimsins hafa náð fram á grunni kjörorðanna frelsi, jafnrétti og bræðralag.

Takmark þeirra er að í stað friðar og öryggis ríki ótti og skelfing alls staðar í heiminum og fátt gleður þá meira en ef lögregluríki óttans verður komið á og andi haturs og átaka breiðist út.


mbl.is Engar lestir vegna yfirvofandi ógnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. nóvember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband