Ragnar Reykás í beinni útsendingu í kvöld.

Í þættinum um karaktera Spaugstofunnar í Sjónvarpinu í gærkvöldi sagði Guðni Ágústsson að í karakternum Ragnari Reykási sæi hann einn af flokksbræðrum sínum.

Hann nefndi ekki hver það vær, en ekki var liðinn sólarhringur, þegar fréttamaður ræddi í beinni útsendingu við Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra fyrir utan stjórnarráðshúsið þar sem mótmælendur höfðu lagt litla pappírsdreka í snjóinn til að mótmæla olíuvinnslu í boði Íslands á Drekasvæðinu.

En Gunnar Bragi er á leið til Parísar til að leggja sitt lóð á vogarskálar minnkandi losunar gróðurhúsalofttegunda.

Gunnar Bragi var spurður að því hvort það samræmdist þeirri stefnu, sem Ísland hefði fram að færa varðandi það að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, að ætla að gera Ísland að olíuframleiðsluríki.

Jú, jú, hann var ekki í vandræðum með að réttlæta það eins og róbóti með gamla orðalaginu "við verðum að nýta..". 

Ég sá áðan á einni bloggsíðunni, að fundarmenn eru sakaðir um hræsni, því að þeir hefðu farið á mmótmælafundinn á farartækjum, knúnum jarðefnaeldsneyti.

Mér var ljúft að svara honum á þá leið að ekki gæti ég tekið þetta til mín. Ég hefði farið á fundinn austan af Borgarholti í Grafarvogshverfi á farartæki, knúnu íslensku rafmagni, og orkan í ferðina fram og til baka hefði kostað alls 5 krónur.


mbl.is 570 þúsund tóku þátt í mótmælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurningin um að stunda ekki óábyrgt áhættuspil.

Senn líður að því að vegna aðgerða jarðarbúa hafi koltvísýringur í andrúmsloftinu tvöfaldast.

Sumir draga það í efa að hlýnun lofthjúps jarðar stafi af þessu og aðrir spyrja hvort það sé eitthvað verra þótt veðurfar á okkar slóðum verði svipað og það var á tímabilinu frá 800-1400.

Í slíku felst frekar þröng sýn, því að hröð og óstöðvandi hlýnun veldur fyrst og fremst varasömustu breytingunum sunnar á hnettinum, þar sem fjölmennustu þjóðir heims búa og veðurfarsbreytingarnar valda þurrkum, miklum sveiflum og eyðingu gróins lands.

Síðan er súrnun sjávar sérstakt áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga ef menn vilja endilega einblína á okkar aðstæður.

En megin atriðið er það að stunda ekki óábyrgt og kæruleysislegt áhættuspil með því að dæla koltvísýringi hindrunarlaust út í lofthjúpinn og sóa jafnframt takmörkuðum orkugjöfum.

Þess vegna verða haldnir mótmælafundir um allan heim í dag, líka hér á landi.


mbl.is „Það er ekkert plan B“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Að taka Júgga..."

Júgóslavía var með yfirburða landslið í handbolta árum saman fyrir rúmum aldafjórðungi. Þar fór allt saman: Stórkostlegt mannval, afburða þjálfunaraðferðir, agað og markvisst leikskipulag og mikið stolt þjóðar, sem þó hafði verið soðin saman af erlendum herveldum í lok Fyrri heimsstyrjaldarinnar og samanstóð af sundurlyndum og ólíkum þjóðum, eins og glöggt kom í ljós á tíunda áratugnum.

Frelsishetjan Tító átti ekki síst þátt í því að ná upp samstöðu út á við og inn á við á valdatíma sínum.

Hjá "Júggunum" var það allt eða ekkert, og ódrengileg lymskubrögð urðu hluti af því, jafnvel þegar þeirra var ekki þörf. Þetta snerist einfaldlega um það oft á tíðum að ganga eins langt og dómarinn leyfði eða dómarinn sá.

Arfleifð Júgganna lifir enn. Þannig er ein leikfléttan sem þeir beittu enn hluti af vopnabúri íslenska landsliðsins, eins og heyra má þegar þjálfarinn leggur upp fyrir íslensku leikmennina að "taka Júgga.." og síðar má sjá það gert oft á tíðum.


mbl.is Júgóslavneska bragðið í körfubolta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill munur á birtunni.

"Mig dreymir um hvít jól" söng Bing Crosby fyrir 70 árum og platan var lengi vel söluhæsta platan í Bandríkjunum.

Þó er veðurfar þannig í syðri hluta Bandaríkjanna að snjór sést sárasjaldan því það þarf kulda til að úrkoma sé í formi snjókomu.

En öll dýrkunin á jólasnjónum sýnir hve mjög menning og auður norðurríkja Bandaríkjanna mótaði þjóðlífið síðustu aldir.

En hvers vegna er fólk þá svona elskt að snjó? 

Líklega er það vegna þess, að í skammdeginu verður svo miklu bjartara umhorfs en í lágskýjuðu veðri og rigningu.

Og fátt er fallegra en tré þar sem greinarnar svigna undan snjónum eins og blasti svo víða við í dag.

Frostið fór að víðu niður í 10 stig en jólasvipurinn á umhverfinu margbætti það upp.

 


mbl.is Jólin minntu á sig í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. nóvember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband