Sérkennileg ófærð í fyrradag.

Hún var svolítið sérkennileg "ófærðin" milli Norðurlands og Borgarfjarðar nú fyrir helgina þegar 400 manns urðu strandaglópar ( "trapped") í Hrútafirði vegna þess að ófært var um Holtavörðuheiði, sem liggur upp í 407 metra yfir sjávarmál. 

Þegar fréttamaður spurði af hverju Laxárdalsheiði sem er helmingi lægri yfir sjó en Holtavörðuheiði, eða 200 metrar, var svarið það að Brattabrekka, sem er álíka há og Holtavörðuheiði, (400 m) , hefði hvort eð er verið ófær. 

Fréttamaðurinn fattaði greinilega ekki að spyrja hvers vegna umferðinni hefði þá ekki verið beint um Heydal í staðinn fyrir Brattabrekku, en sú leiðin um Heydal nær aðeins upp í 165 metra hæð.

En kannski vissi enginn, hvorki teppta fólkið, fréttamaðurinn eða Vegagerðin um þennan fjallveg, ef fjallveg skyldi kalla, því að 165 metra hæð er aðeins 20 metrum hærri en Vatnsendahæð.  


mbl.is Ófærð seld til margra landa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérkennilegt svar: "Tryggingarfélögin borga."

Hátt verð á bílaleigubílum á Íslandi stafar af ýmsum orsökum. Mjög mikið er um það að útlendingar og Íslendingar fari á bílaleigubílum upp í óbyggðir þar sem ýmislegt getur komið fyrir við misjafnar aðstæður og slíkt kostar peninga, ef bílarnir skemmast eða verða fyrir skakkaföllum.

En þá kemur að hlutverki tryggingarfélaganna og spurningin er hvort iðgjöld þeirra séu hærri hér en erlendis.

Þess vegna er ég að ræða um þetta að þegar ég leitaði stuðnings bílaleigufyrirtækja,umboða fyrir jeppa og jepplinga og fleiri í ferðaþjónustunni við mynd mína "Akstur í óbyggðum" kom ég að lokuðum dyrum.

Samtök hinna 130 bílaleigubíla höfðu ekki áhuga og einn eigandi bílaleigu sagði við mig: "Mitt fyrirtæki getur ekki tekið áhættuna af því að taka sig út úr hópnum, svona rétt eins og það sé eitthvað varasamara að taka bíla á leigu frá okkur en öðrum. Við þorum ekki að rugga bátnum, enda borga tryggingarfélögin þetta hvort eð er."

Eitt tryggingarfélag lagði í það að styrkja myndina örlítið, en hún inniheldur leiðbeiningar um það hvernig best sé að bera sig að til þess að njóta íslenskrar náttúru með sem mestri ánægju og öryggi og var sýnd í Sjónvarpinu síðastliðið sumar.

  


mbl.is Fjórfalt dýrari í Keflavík en Kaupmannahöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gernýting í morðæði.

Jósef Stalín á að hafa sagt einhverju sinni að dráp á einum manni væri morð, en dráp á milljón væri bara tala. 

Svo virðist sem morðhundar Íslamska ríkisins hafi þetta í huga þegar þeir gernýta þá athygli og hrylling sem blóðugar aftökur á einstaklingum vekja um heim allan, en þó einkum í heimalöndum þeirra, sem myrtir eru. 

Þeir nýta sér til fulls nýjustu tækni í fjölmiðlun til þess að hámarka þá athygli sem glæpir þeirra vekja. 

Ef aðeins væri um svona gerninga gagnvart örfáum einstaklingum væri að ræða væri kannski hægt að rökræða um muninn á þessum morðum og loftárásum eða öðrum hernaði, þar sem hundruð eða þúsundir farast.

En þannig er það ekki. Einstaklingarnir, sem hryðjuverkasamtökin drepa í Nígeríu, Írak og víðar, eru aðeins örlítið brot af þeim fjölda sem dráp, limlestingar og hvers kyns villimennska aftan úr grárri forneskju gengur yfir í fullkomnu miskunnarleysi.

Illskuæðið er svo magnað, að reynt er að velta sér upp úr því og gernýta það og magna.     


mbl.is Japan vaknar upp við vondan draum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur, börn, unglingar og gamalt fólk.

Ummæli Bjarkar Guðmundsdóttur um það hve mikil tilhneiging er til þess að draga úr hlut kvenna í ýmsu, svo að kalla mætti það ungkarladýrkun, eiga við fleiri þjóðfélagshópa en konur. 

Á sínum tíma var það plötuútgefandi, sem var að leita að hvítum karlmanni til að koma rythm and blues tónlist á framfæri, sem datt niður á Elvis Presley. Og sömuleiðis var rythm and blues tónlistin svo tengd við ímynd svartra, að það þurfti að fá nýtt "hvítt" nafn á hana, "rock´n roll". 

Og þá var það hinn hvíti Bill Haley með sína Comets sem nýttist vel, en ég var hins vegar í hópi þeirra mörgu unglinga á þeim tíma sem fannst hann hallærislegur og alls ekki ekta rokkari, en kunni hins vegar betur að meta hina svörtu frumherja á borð við Chuck Berry, sem alltaf máttu standa í skugganum af þeim hvítu á þessum árum. 

Ef Haley, Presley og Pat Boone hefðu ekki verið tiltækir, hefði það líklega tafið fyrir rokkinu um nokkur ár. 

Ég var aðeins 18 ára þegar ég var skyndilega kominn inn á gafl hjá fólki um allt land sem skemmtikraftur með blandaða dagskrá, þar sem alveg ný tónlistarnálgun og beitt stjórnmálagrín var eitthvað sem fólk virtist eiga erfitt með að samþykkja að kæmi frá unglingi. 

Þá fluttu grínistar í hópi skemmtikrafta, flestir á miðjum aldri, yfirleitt texta eftir aðra og því komst sá kvittur á kreik að móðir mín, sem var á kafi í pólitík í Sjálfstæðisflokknum, semdi textana fyrir mig. 

Það gat bara ekki verið að 18 ára strákbjáni gerði texta sem byggðust á svona mikilli þekkingu á stjórnmálunum, allra síst svona rokkaragrislingur. Hvað þá að þeir byggðust á íslenskri bragfræði. 

Þessi lífseiga saga um aðfengna texta lifði góðu lífi árum saman. Setti móðir mín blessuð þó aldrei saman svo mikið sem eina vísu alla sína ævi.

Dýrkun á hvítum karlmönnum á aldrinum 30-50 ára er drjúg og ekki gert ráð fyrir öðru en að menn séu útbrunnir og gagnslitlir á efri árum.

Meira að segja er ekki yrt á fólk sem er komið yfir sjötugt í skoðanakönnunum, rétt eins og skoðanir þess séu ekki marktækar og það eigi þar með ekki skilið að hafa kosningarétt.   

Oft er litið á gamlingjana almennt sem byrði á þjóðinni og orðið "ellilífeyrisþegi" er hálfgert skammaryrði.

Þó eru lífeyrisþegar aðeins að nota þá fjármuni sem þeir unnu sér inn sjálfir í ævistarfi sínu og lögðu fyrir til elliáranna til að spara ríkinu peninga. 


mbl.is Heiður karla af verkum kvenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. febrúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband