Verður þetta jafnlengi að velkjast og byssurnar?

Enn er í minni þegar það tók næstum tvær vikur að toga upp úr íslenskum ráðamönnum öll atriði byssumálsins svonefnda á sama tíma og auðvelt hefði verið að hreinsa málið á einum degi. 

Í fyrradag, fimmtudag, birtist fréttin um að Gunnar Bragi SVeinsson hefði tilkynnt ESB bréflega að umsóknarferli Íslands væri lokið, landið ekki lengur skilgreint sem umsóknarríki (candidat state) og þar með búið að skella því endanlega í lás. 

Mikill hvellur varð út af þessu og Bjarni Benediktsson staðfesti þessi endalok samningaferlisins í rifrildi við Árna Pál Árnason í Kastljósi.

En þó voru þeir til á föstudagsmorgni, sem sáu, að hvergi í bréfinu var það orðað beint að umsóknarferlinu eða samningaferlinu væri slitið, og þótti það skrýtið. 

Í hádegisfréttum á föstudag sagði síðan Birgir Ármannsson, formaður utanríkisnefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, að vegna þess að bréfið innihéldi ekki neitt um slit viðræðna, táknaði bréfið enga stefnubreytingu og þess vegna hefði ekki þurft að bera það undir utanríkisnefnd.

Talsmaður stækkunarstjóra ESB tók í svipaðan streng og Birgir. 

Eiríkur Bergmann Eiríksson og fleiri lásu svipað út úr bréfinu og nú urðu margir andstæðingar aðildarumsóknar óánægðir með það að í raun væri þingsályktunin frá 2009 í gildi og að ríkisstjórnin hefði hörfað í málinu.

Í forsíðufrétt í Morgunblaðinu á laugardagsmorgni er því slegið upp að víst sé Ísland ennþá umsóknarríki. 

Loks á sunnudagskvöldi eftir nær þriggja daga þögn, kveður síðan utanríkisráðherra upp úr með það að umsóknarferlinu sé víst lokið og að ekki verði hægt að taka upp viðræður á ný nema fara með allt á algeran byrjunarreit. Hins vegar hefði ekki verið notað orðalag um slit viðræðna af því að það hefði verið túlkað sem offors! 

Það er að koma sunnudagur og á fjórða degi þessa máls heyrist væntanlega ekki múkk frá formanni utanríkisnefndar né talsmanni stækkunarstjóra ESBB um það hvort eitthvað hafi misskilist í málinu í fyrradag.

Þetta fer óneitanlega að minna á upphaf byssumálsins á sínum tíma.  


mbl.is „Ferlinu er lokið af okkar hálfu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt hefur sinn tíma.

Réttur maður á réttum stað á réttum tíma. Þessi setning hefur margsannast í mannkynssögunni. 

Stundum hafa slíkir menn unnið stórvirki en í önnur skipti gert hinn mesta óskunda, þegar tímabundið tækifæri gaf þeim færi á að brjótast til valda. 

Björk kom fram á hárréttum tíma þegar yfirpródúseruðu stórstjörnurnar Micheal Jackson og Madonna höfðu ríkt það lengi, að það var farin að myndast þreyta og þörf fyrir eitthvað allt annað, einfalt, persónulegt, ósvikið og einstakt. Inn í það tómarúm stökk Björk 

Adolf Hitler var á niðurleið þegar heimskreppan mikla kom eins og hvalreki upp í hendurnar á honum. Þjóðverjum sýndist hann því miður vera réttur maður á réttum stað og réttum tíma þegar þá þyrsti í sterkan leiðtoga, sem rifi þá út úr niðurlægingu Versalasamninganna og færði þeim árangur, virðingu og áhrif meðal þjóðanna. Í staðinn leiddi Hitler yfir þá villimennsku með hroðalegum afleiðingum.

Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir komu fram á hárréttum tíma hvort um sig þegar aðstæður voru mjög sérstakar í þjóðlífinu og kölluðu á breytingar. 

Þegar íslenskur almenningur hafði fengið upp í kok af íslenskum stjórnmálamönnum, stökk Jón Gnarr inn í kolsvart tómarúmið á hárréttum tíma og gegndi mikilvægu hlutverki á meðan verið var að reyna að komast út úr Hruninu.

Jón er mjög óvenjulegur maður meðal stjórnmálamanna og nú hefur hann kynnst heimi stjórnmálanna nokkuð vel. 

"Kalinn á hjarta þaðan slapp ég" kvað Grímur Thomsen og Jóni líst, hvað sig varðar, ekki á nógu vel á það pólitíska umhverfi sem forseti landsins hefur starfað í. 

Hann er enn ungur, getur tekið sér margt gott og nytsamlegt fyrir hendur, þar sem hæfileikar hans geta notið sín, og á skilið góðar óskir um velfarnað í hverju því sem hann ákveður að gera.  

  


mbl.is Jón Gnarr ekki í forsetann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvítur með tónlist svartra.

Þegar Elvis Presley og rokkið ruddu sér til rúms með ógnarhraða og afli á miðjum sjötta áratug síðustu aldar var það álíka mikil bylting í alþýðutónlist eða popptónlist og þegar djassinn ruddist fram fyrr á öldinni. 

Rokkbyltingin var hins vegar á miklu víðara sviði, því að unga kynslóðin, sem dreif hana áfram í Bandaríkjunum og þar með á Vesturlöndum, var sú fyrsta í mannkynssögunni, sem hafði rúm fjárráð og gat meira að segja eignast bíla í Bandaríkjunum og áratug síðar í löndum Vestur-Evrópu og það færði unglingunum áður óþekkt áhrif á efnahagslíf, þjóðlíf og menningu sem síðar lituðu "eftirskjálfta" í formi Bítlabyltingar, hippabyltingar / þjóðlagatónlistar og síðar diskó- og pönkbyltingar.

Rythm and blues var tónlist blökkumanna og á þessum árum þurfti hvíta menn til þess að brjótast í gegnum íhaldsmúrinn í léttri tónlist. Sumir þessara hvítu tónlistarmanna fannst mér aldrei vera sannir eða ekta, til dæmis Bill Haley eða Pat Boone. Á þessum tíma voru mínir menn blökkumenn á borð við Chuck Berry og Little Richard.

En einn skar sig úr hópnum og hafði algera sérstöðu: Elvis Presley. Þar var á ferðinni hvítur maður sem elskaði og nærði tónlist blökkumannanna, söng með þeirra tilfinningu og kom sér á stall, sem honum verður aldrei hrint af, þótt hann ætti dálítið erfitt uppdráttar á Bítlatímanum.

Elvis féll inn í hóp hinna svörtu tónlistarmanna á þann hátt að hann gat allt eins verið blökkumaður sjálfur.   

Það var bara til einn Elvis, réttur maður á réttum stað á réttum tíma.

Tveir af frægustu stjörnum síðustu aldar, Elvis og Tyson, áttu það sameiginlegt að þeir misstu fótfestuna við fráfall nánasta ástvinar á slæmum tíma.

Elvis varð aldrei samur eftir að missa móður sína og Tyson við það að missa fósturföður sinn, þjálfara, umboðsmann og kjölfestu, Cus D´Amato.  


mbl.is Herma ekki eftir Elvis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband