GAGA, Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra.

GAGA, eða Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra er tilraun til að snara yfir á íslensku hugtakinu MAD, sem er skammstöfun yfir Mutual Assured Destruction.

Þegar árið 1948 áttu Bandaríkin um 50 kjarnorkusprengjur og hótuðu Stalín að ráðast á jafnmargar borgir í Sovétríkjunu ef þörf yrði á því.

Bandaríkjamenn létu líka vita af kjarnavopnum sínum í Kóreustyrjöldinni og Víetnam styrjöldinni, þótt Sovétmenn gætu líka hótað á móti.

Út úr því kom GAGA kenningin sem er auðvitað mesta vitfirringabrjálæði, sem hinum viti borna manni og færustu og snjöllustu snillingum hefur dottið í hug frá upphafi mannkynssögunar, því að lykilorðið er orðið "altryggð", þ. e. að hvor aðilinn um sig verði að treysta því að hinn sé reiðubúinn og hafi getu og vilja til að hefja gereyðingu mannkyns ef svo ber undir.

Nú er þessi hættulegasta af öllum ógnum við mannkynið og lífið á jörðinni að stinga upp kollinum að nýju, líkt og þegar miltisbrandur, sem verið hefur í dái, fer að nýju á kreik.

Enginn þarf að halda að Ísraelsmenn hafi átt kjarnorkuvopn í áratugi nema vegna þess að þeir séu reiðubúnir að beita þeim, ef þeim sýnist það sjálfum óhjákvæmilegt.

Tilvist tveggja fyrirbæra, kjarnorkuvopna og mannanna, sem geta beitt þeim, hefur verið og er langstærsta ógnin, sem steðjar að mannkyninu og lífinu á jörðinni.    


mbl.is Var tilbúinn að brúka kjarnorkuvopn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eilífðin og óendanleikinn líklegust?

Svar við ofangreindri spurningu er auðvitað ekki á færi nokkurs manns að gefa, en þó hlýtur jákvætt svar að vera afar líklegt. 

Þessu með óendanleikann og eilífðina í tíma og rúmi hef ég haldið fram um áratuga skeið og er með bók í smíðum, sem byggir á þessari hugsun og ég byrjað á fyrir aldarfjórðungi. 

Óendanleikinn og eilífðin þýða svo margt, að þeir möguleikar eru líka óendanlega margir. 

Tíminn hófst aldrei og hann endar aldrei. 

Alheimurinn á sér heldur hvorki upphaf né endi.

Alheimurinn eins og við könnumst við hann var aldrei og verður aldrei annað en hluti af enn stærri alheimi. 

Og ekkert er minnst í heimi og ekkert er stærst í heimi, - það er alltaf til eitthvað minna og eitthvað stærra.

Og líkurnar á tvíburajörðum jarðarinnar eru óendanlega margir og þar með líkurnar á tvíförum okkar.

 

Ætli ég láti þetta ekki nægja í bili, því að ég get ekki haldið áfram út hið óendanlega.  


mbl.is Alheimur án upphafs og enda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Feisbúkk-mótmæli" "kverúlanta"?

Ekki vantar lýsingar í fyrirlitningartóni um það andóf sem haft hefur verið í frammi nú og áður gegn ýmsum stjórnarháttum.Mótmæli. 15.3.2015 

"Feisbúkk-mótmæli" er þetta andóf kallað, líklega til að sýna fram á að ekkert sé að marka þetta, - það sé svo auðvelt að sitja við feisbúkk og slá einhverju inn, að það þeir, sem fari út úr húsi, hljóti að vera viljalaus verkfæri eða "kverúlantar", orð sem vinsælt er að nota.

Gert eins lítið úr þessu fólki og mögulegt er og sem oftast talað um "örfáar hræður".  

Ekki kannast ég við að hafa séð nein tilmæli eða skipanir á feisbúkk um það að fara niður á Austurvöll.Mótmæli 201515..3.

Sumum virðist ómögulegt að skilja það að einhverjir nenni að hafa fyrir því að hafa skoðanir, sem ekki falla að öllu leyti að vilja valdhafanna, og fara út úr húsi og það jafnvel talsverða vegalengd til að standa úti að vetri til að tjá hug sinn í stað þess að sitja inni, hafa það náðugt og segja já og amen við öllu því sem valdhafarnir gera.

 

Það á auðvitað ekki að taka mark á neinum öðrum en þeim, sem samþykkja "sterka leiðtoga" sem tryggi aðstæður til að "græða á daginn og grilla á kvöldin."  

Á myndunum má sjá hluta af þeim "örfáu hræðum" sem stunduðu "feisbúkk-mótmæli" í dag. 


mbl.is Um sjö þúsund manns á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband