Hvenær hafa menn umboð og hvenær ekki ?

Heyra má upphrópanir sumra nú þess efnis að ríkisstjórnin 2009 hafi ekki haft umboð til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Samt lá þar að baki þingsályktun eins og sækjast ber eftir í þingræðisríki, og ekkert annarra tuttugu ríkja, sem hafa sótt um aðild, lét fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um að "kíkja í pakkann" heldur nýtti sér þingmeirihluta sinn til þess að fara í þá vegferð með því skilyrði að þjóðin sjálf réði því í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort samningurinn yrði samþykktur eða honum hafnað. 

Flokkarnir sem stóðu að sumum af umsóknum þessara landa voru meira eða minna klofnir í afstöðunni til ESB og einnig stjórnarandstöðuflokkarnir, rétt eins og hér.

En samt varð það niðurstaðan í þessum löndum að athuga, hvað gæti komið út úr aðildarviðræðum, með því fyrirfram skilyrði að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði um hugsanlegan samning.

Norðmenn felldu slíkan samning tvívegis.

Engu að síður hefði það kannski orðið betra 2009 að láta þjóðina ráða því sjálfa beint, hvort hún vildi "kíkja í pakkann" að því tilskyldu að hún ákvæði síðan endanlega um úrslit málsins.

En þáverandi ríkisstjórn var vorkunn úr því að engin annarra umsóknarþjóða hafði gengið lengra en það að þjóðin réði örugglega beint úrslitum um örlög samningsins.  

 

Þeir sem hrópa um umboðslausa umsókn 2009 mega hins vegar yfirleitt ekki heyra minnst á þjóðaratkvæðagreiðslur, og finnst í góðu lagi að ákvarðanir núverandi ríkisstjórnar fari ekki einu sinni í umsögn og umræður á þingi. 

Og formenn utanríkisnefndar og forseti Alþingis meta málið þannig, að ekki þurfi að leita álits þingsins því að í raun hafi ekkert breyst í málinu og þess vegna þurfi þingið ekki að skipta sér af því! 

Þegar síðan talsmenn ESB ætla að segja pass, og meta málið líkt því sem talsmenn stjórnarflokkanna í utanríkisnefnd og í forsæti þingsins gera hér heima, eiga sömu menn varla orð yfir yfirgang ESB! 

Það er erfitt að skilja hvers vegna ekki var einfaldlega hægt að láta málið dankast og falla á tíma í þinginu eins og í fyrra og sjá til hvort það gæti bara ekki legið svona til næstu kosninga, svo að ekki þyrfti að koma til sífelldra upphlaupa út af því. 

 


mbl.is Ísland enn á lista yfir umsóknarríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það ríkti líka mikil bjartsýni árið 2007.

Íslendingar fóru með himinskautum í velgengni 2007 og stjórnarflokkarnir auglýstu fyrir kosningarnar undir slagorðunum "traust efnahagsstjórn" og "áfram árangur, - ekkert stopp!" 

Það voru talin merki um "íslenska efnahagsundrið" að útlendingar skófluðu inn fjármunum í landið til að nýta sér háa vexti og hátt gengi krónunnar, sem þótti mikið hraustleikamerki. 

Þegar einstaka raddir vöruðu við því fyrirbæri, sem seinna hlaut heitið "snjóhengjan" og spáðu óhjákvæmilegu gengisfalli allt of hátt metinnar krónu, voru þeir úthrópaðir sem "úrtölumenn" og "öfundarmenn." 

Nú hangir snjóhengjan enn yfir okkur átta árum síðar og framundan er vor, þar sem allt verður á öðrum endanum í kjaramálum og hugsanlega að bresta á verðbólga sem mun eyða ávinningi skuldaleiðréttingarinnar sem raunar var fengin með því að millifæra fé frá sameiginlegum sjóði landsmannan yfir á hluta landsmanna. 

Það sem gerir láglaunastéttirnar reiðar er hvernig topparnir og forstjórarnir færðu sjálfum sér á silfurfati stórhækkaðar tekjur áður en blekið hafði þornað af kjarasamningunum og að í aðgerðunum vegna "forsendubrests" var hann ekki talinn gilda varðandi leigjendur og ýmsa aðra láglaunahópa. 

Fyrir síðustu kosningar var talað um 3-400 milljarða krónur í beinhörðum peningum, sem teknir yrðu af "hrægömmum" og "vogunarsjóðum" og færðir kjósendum. 

Alveg gleymdist að geta þess að stór hluti af þessum "hrægömmum" og "vogunarsjóðum" voru venjulegt fólk og sjóðir þeirra.

Nú eru liðin tvö ár síðan stóru kosningaloforðin voru gefin og ekkert bólar enn á kosningagjöfunum.

Líklega verða aðvörunarorð Lilju Mósesdóttur afgreidd sem "úrtölur" rétt eins og svipuð orð 2007.  

 


mbl.is Hægt að afnema höftin hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skárra er seint heldur en aldrei og ekkert?

Það er ekki nýtt að tekið hafi verið tillit til umhverfissjónarmiða og menningarlegra sjónarmiða í vegagerð á Íslandi, svo sem varðandi álfasteina og álfhóla,en hins vegar ekki algengt heldur.

Ef ég man rétt tók Vegagerðin tillit til sagna um álfabyggð þegar nýr vegur var lagður um Hegranes fyrir nokkrum áratugum, og var vegarstæðið lagað eftir því.

Í hitteðfyrra var haldið málþing um nýja háskólaritgerð um það, hvernig stofnanir brygðust við mati og ábendingum Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum framkvæmda.

Miðað við deilur og umræður um framkvæmdir orkufyrirtækja hefði mátt ætla að þau væru erfiðust í þessum efnum.

En útkoman var hins vegar sú að Vegagerðin hefði staðið sig verst allra og skipulega hunsað og vanvirt niðurstöður Skipulagsstofnunar og niðurstöður mats á umhverfisáhrifum og sýnt mesta viðleitni allra til að fara sínu fram.

Hver skyldi orsökin vera? Hugsanlega sú að það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja og Vegagerðin á sér miklu lengri forsögu og fleiri verkefni að baki en aðrir, þar sem áratugum saman var hægt að fara sínu fram.

Hugsanlega hefur hana dagað uppi í hinu gamla umhverfi, þegar engin Skipulagsstofnun eða mat á umhverfisáhrifum voru til það halda í hemilinn á henni.

Málinu, sem varðar lagningu Álftanesvegarins um Gálgahraun, er hvergi nærri lokið og á eftir að standa að minnsta kosti í einhver ár enn. Og vekja athygli margra vegna eðlis síns og málsatvika. 

Málið allt reyndist við nána skoðun vera miklu verra en mann hafði órað fyrir, og meðal annars gefnar upp alrangar forsendur fyrir vegalagningunni um óbærilegan umferðarþunga og slysahættu. 

Höfuðábyrgðina á því ber að sjálfsögðu bæjarstjórnarmeirihlutinn í Garðabæ, en Vegagerðin ber sína ábyrgð af því hvernig haldið var á málum, því að ekki var að sjá að hún gerði neitt til að halda aftur af valdhöfunum.

Þetta mál er slæm fortíð, sem ekki verður breytt héðan af, en er hins vegar hægt að læra af. Og nú ber svo við að sýnd er viðleitni til að reyna að bæta að örlitlum hluta óbætanlegt umhverfistjón og á ekki að vanþakka það út af fyrir sig. Skárra er seint heldur aldrei og ekkert. 

Sumir kunna að gera lítið úr álfasögum og álfatrú en gæta þess þá ekki að um er að ræða sambland af náttúruvernd og menningarsögu.

Sem dæmi má nefna Tungustapa í Dölum og þjóðsöguna dramatísku um álfakirkjuna í stapanum, þar sem dyr stapakirkju álfanna stóðu gegnt dyrum kirkju mannanna, og þegar prestarnir í þeim stóðu gegnt hvor öðrum fyrir altari og horfuðust í augu í gegnum opnar dyrnar, hné annar þeirra örendur niður.

Tengt því er ljóðið um Kirkjuhvol sem Stefán Íslandi söng svo meistaralega vel. Eða var það Einar Kristjánsson? Man það ekki vel, kannski báðir, en það skiptir ekki máli, heldur þjóðmenningin sem birtist í þjóðsögunni, ljóðinu, laginu og flutningi þess.

Það að ryðja burtu Tungustapa af einhverri "brýnni nauðsyn" yrði ekki vel séð.

Enginn skyldi vanvirða helgi og gildi mannshugans og verðmæti unaðsstundanna. Dæmi um slíkt er það fyrirbæri, þegar þúsundir erlendra ferðamanna fóru sérstaklega niður í Norðurmýri í Íslandsferðum sínum til þess að sjá umhverfi atburðanna í skáldsögunni "Mýrinni" eftir Arnald Indriðason, umhverfi atburða, sem voru aðeins hugarfóstur eins Íslendings.

En gersemi í menningarsögu okkar og eftirminnileg og dýræt upplifun lesendanna.     


mbl.is Hífa stóran stein úr Garðahrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bardagi aldarinnar," - a.m.k. þeirra 15 ára sem liðin eru af henni.

Árið 1910 fór fram fyrsti "bardagi aldarinnar" í hnefaleikum, það er, bardagi þeirra tíu ára, sem liðnar var þeirri öld. Árin reyndust fleiri, því að það liðu 26 ár þar til svipaður bardagi fór aftur fram. 

Þetta var bardagi þáverandi heimsmeistara í þungavigt, Jack Johnson, og fyrrverandi heimsmeistara, Jim Jeffries, sem hafði orðið að draga sig í hlé 1905 vegna þess að enginn andstæðingur fannst, sem gæti átt roð í hann. 

Bardaginn í Reno 1910 var ekki bara svona stór, af því að þetta voru langbestu hnefaleikararnir í sögu íþróttarinnar fram að því, heldur ekki síður vegna þess að Johnson var fyrsti svarti heimsmeistarinn en Jeffries var hvítur. 

Jeffries þurfi að létta sig úr 150 kílóum niður í 100 fyrir bardagann eftir sex ára hlé frá hringnum, og það varð honum um megn, - eftir 4. lotu fór hinn yngri maður, Johnson, að ná yfirhöndinni og vann í 15. lotu. 

Jeffries var rosalegur íþróttamaður á hátindi getu sinnar um 1900, - þessi vöðvastælti og 95 kílóa þungi maður gat hlaupið 100 metrana á innan við 11 sekúndum og vippað sér á þess tíma ófullkomna hástökkstíl yfir 1,80 metra. 

Hann bjó yfir einstakri blöndu af snerpu, hraða, höggþunga og þoli, en sex ára hvíld og þynging um 50 kíló auk vöðvarýrnunar af hóglífinu, var þessum 35 ára gamla manni ómögulegt að yfirvinna.

Eftir 4. lotu sást hvert stefndi. Hinn yngri Johnson, sem var á hátindi getu sinnar og bjó yfir bestu varnartækni þess tíma, tók smám saman völdin og gekk frá Jeffries í 15. lotu.

Margir voru drepnir í kynþáttaóeirðum um öll Bandaríkin í kjölfar þessa bardaga.  

Eftir 1910 voru nokkrir bardagar sem voru líka auglýstir sem bardagar síðustu aldar, t. d. Joe Louis - Max Scmeling 1938, Joe Frazier - Muhammad Ali 1970 og George Foreman - Muhammad Ali 1974. 

Það hefur verið beðið eftir uppgjöri Mayweathers og Pacquiao í mörg ár, og nú loksins verður af því. 

Maywether virðist hætta meiru fyrir bardagann, hann er ósigraður fram að þessu en "Packman" ekki. En ég tel að Mayweater muni græða meira á seinkuninni. 

Það hefur stundum verið sagt að uppgjör tveggja afburðamanna í hringnum verði magnaðra ef báðir eru ekki lengur upp á sitt besta, heldur á örlítillin niðurleið. 

Þess vegna hafi bardaginn "Thrilla in Manila" verið mesti bardagi allra tíma. 

Mayweather er stærri frá náttúnnar hendi en Manny Paquiao og þess vegna má búast við því að Manny tapi meira á því að hraðinn hefur minnkað hjá honum.

Auk þess býr Mayweather yfir bestu varnartækni, sem sést hefur í hringnum.

En þetta segir ekki allt. Dagsformið og heppnin geta eins og svo oft áður ráðið úrslitum.  


mbl.is Borgar 140.000 krónur fyrir hverja máltíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband