Gult spjald þýðir að það má ekki koma annað gult.

Þegar öflugur knattspyrnumaður fær gult spjald í leik, er hann kominn í nýja aðstöðu í leiknum, því að þá má hann ekki fá annað gult spjald, - samkvæmt reglunum þýða tvö gul spjöld eitt rautt spjald. 

Eftir eitt gult spjald verður hann að vanda sig alveg sérstaklega.

Svipað er í körfuboltanum. Þegar menn hafa fengið á sig fimm villur jafngildir það rauðu spjaldi.  

Þetta viðurkennir Árni Páll Árnason eftir eitt óvenjulegasta formannskjör sögunnar í íslenskum flokki.

Honum er svo sannarlega vandi á höndum.  


mbl.is „Þarf að vanda mig í framhaldinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamli rúnturinn var stórbrotin félagsmiðstöð.

"Keyra rúntinn piltar sem eru´í stelpuleit..." orti Sigurður Þórarinsson þegar hann lýsti stemningunni í miðbæ Reykjavíkur um miðja síðustu öld í ljóði sínu "Vorkvöld í Reykjavík" undir sænsku lagi. 

Þessi yndislega hringekja með hæfilegri blöndu af gangandi fólki og bílum var upp á sitt besta áður en bílarnir urðu of margir miðað við gangandi fólkið þegar leið á öldina.

Fyrir unga fólkið gegndi rúnturinn mikilvægu hlutverki við það að það kynntist og blandaði geði í aðdraganda þess að finna lífsförunaut, en til þess þurfti það að "sýna sig og sjá aðra."

Eftir að rúnturinn í Reykjavík fór að dala hélt rúnturinn á Akureyri velli.

Þar var hann að vísu eðlilega miklu styttri en rúnturinn í Reykjavík en virtist ekki missa afl sitt af einhverjum ástæðum.

Ég kynnti mér hann sérstaklega og gerði stutt sjónvarpsinnslag um hann, rúntinn á Akranesi og rúntinn í Reykjavík sem dró það vel fram hve mjög rúnturinn í höfuðborginni mátti muna fífil sinn fegri.

Einn tæknilegur munur var áberandi: Rúnturinn á Akureyri var með tvöfalda umferð þannig að ekið var í báðar áttir, - en í Reykjavík aðeins í eina átt.

Í bílunum í Reykjavík sá því enginn framan í aðra í bílunum, en á Akureyri margsinnis hvert kvöld, - allir vissu af öllum og formúlan "að sýna sig og sjá aðra" svínvirkaði.

Þegar best lét í Reykjavík var gangandi fólkið svo margt að þrátt fyrir ákveðinn skort á sambandi milli fólksins í bílunum, sáu allir í bílnum gangandi fólkið og allt gangandi sáu alla akandi; - rúnturinn var nokkurs konar risavaxin félagsmiðstöð fyrir bæjarbúa og sérstaklega fyrir unga fólkið.

Nú hefur ferðamannafjöldinn í Reykjavík og að hluta til á Akureyri yfirkeyrt og eytt megin sérkennum gamla rúntsins.

Það er eftirsjá af gamla rúntinum en tímarnir breytast og mennirnir með, og "enginn stöðvar tímans þunga nið."   


mbl.is Á rúntinum í 16 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkur dæmi úr fortíðinni.

Saga jafnaðarmanna á Íslandi geymir nokkur dæmi um framboð á móti sitjandi formanni. 

1952 bauð Hannibal Valdimarsson sig fram en Stefán Jóhann Stefánsson hafði þá verið formaður flokkins í 14 ár. Hannibal náði kjöri sem entist honum til setu í stólnum í tvö ár, en þá tók Haraldur Guðmundsson við formennsku.  

1984 bauð sonur hans, Jón Baldvin Hannibalsson, sig fram gegn sitjandi formanni, Kjartani Jóhannssyni, og hafði betur. 

1994 bauð Jóhanna Sigurðardóttir sig fram gegn Jóni Baldvini, en laut í lægra haldi og stofnaði Þjóðvaka í framhaldinu. 

Í öll þessi skipti voru framboðin að mestu undir þeim formerkjum, að flokkurinn þyrfti að sækja í sig veðrið meðal kjósenda með breytingum á forystu hans. 

Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu mála nú. 


mbl.is „Eigum ekki að hræðast breytingar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1954 á toppnum hjá mér.

Það fer mikið eftir aðstæðum hversu áhrifamikið er að verða vitni að sólmyrkva, skýjafari, tíma dags, hvort jörð er hvít eða auð og hvort það er hásumar eða ekki. 

Kosturinn við myrkvann núna var líka helsti ókostur hans, þ. e. hve bjart var meðan hann gekk yfir og rökkvunin því ekki eins mikil. 

Þótt jörð sé að miklu leyti auð eru fjöll hvít og víða skaflar enn, og því var birtan svo mikil ef endurkasti himinbirtunnar, þautt dauf væeri þegar myrkvinn var mestur, að rökkvunin naut sín síður með því að fylgjast með henni með berum augum. 

Því kom myrkvinn best út fyrir þá sem voru með dökk sólmyrkvagleraugu. 

Af því að það er enn ekki komið sumar féll út það fyrirbæri, sem er eftirminnilegast af öllum í sólmyrkvunum 1954, 2003 og 2015, það hvernig fuglarnir þögnuðu og fóru að sofa. 

Það var skýjað, þar sem ég upplifði myrkvann í sveit 1954 og þess vegna varð mun dimmara en ef það hefði verið heiður himinn, að ég nú ekki tali um hvíta jörð. 

Eins og sjá mátti af myndum, sem ég tók af myrkvanum frá Ólafsfjarðarmúla 2003 og sýndar voru í fréttatíma Sjónvarpsins í gærkvöldi, var sólin það lágt á lofti, að myrkvinn kom furðu vel fram á myndum, þótt hann væri skilgreindur sem deilarmyrkvi frekar en almyrkvi. 

Ef ég á að velja á milli þessara þriggja myrkva síðan 1954, lendir sá fyrst í fyrsta sæti sem upplifun. 

Kannski er það vegna þess að hann var fyrstur og 13 ára aldur skilar afar sterkt minningum um eitthvað sem maður upplifir fyrst á ævinni, en það, hvernig náttúran lagðist til svefns í rökkri um hábjartan dag hafði mest áhrif og skilar þeim myrkva í efsta sætið hjá mér. 


mbl.is Fylgstu með sólmyrkvanum í beinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður hægt að fyrirgefa ömurlegan vetur? Já!

Ekki verður fjölyrt um það hvað flestum finnst veturinn í vetur hafa verið ömurlegur með sínum metlægðagangi og illviðrum. 

En ekki þarf annað en að líta á kort yfir meðalloftþrýsting á jörðinni til að sjá að í janúar er dýpsta lægðin á jörðinni suðvestur af Íslandi og fyrir norðvestan landið næst hæsta hæð jarðar. 

Sem þýðið einfaldlega mestu átök á milli hæðar og lægðar og mestu storma á jarðarkringlunni hvern meðal vetur.

Svona veðurlag ætti því að vera okkur Íslendingum hversdagslegt og gagnslaust að kvarta yfir því á meðan maður kýs að eiga hér heima. 

En það er alger sólmyrkvi ekki, samanber það að í júlí verður liðið 61 ár frá síðasta myrkva.

Að horfa á sólmyrkva við bestu aðstæður er einfaldlega einstök og ómetanleg upplifun. 

Og þegar þetta er skrifað, í dagrenningu, er ekki annað að sjá en að upp sé að renna annar af tveimur dögum síðustu fjóra mánuði með logni og heiðskíru veðri!

Eða eins og sagt var í gamni við fólk þegar það fór út úr húsi á slíkum degi fyrr í vikunni: "Passaðu þig að detta ekki ef þú ferð út, - það er logn".

Á okkar landi er getur það ekki flokkast nema undir einstaka heppni ef þorri þjóðarinnar getur horft á sólmyrkva við bestu veðurfræðilegu aðstæður meðan enn telst vera vetur á almanakinu.

Verður þá ekki hægt að fyrirgefa ömurlegan vetur? Jú, að hlýtur að vera. Hvílík dýrð, hvílík dásemd! 


mbl.is Sólmyrkvinn sýndur í beinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband